Vel var mætt á flugöryggisfund á Hótel Loftleiðum í gær. Þar kynnti Þormóður Þormóðsson hjá Rannsóknarnefnd flugslysa (fyrir miðri mynd) m.a. rannsóknir sem nefndin hefur gert það sem af er árinu.
Vel var mætt á flugöryggisfund á Hótel Loftleiðum í gær. Þar kynnti Þormóður Þormóðsson hjá Rannsóknarnefnd flugslysa (fyrir miðri mynd) m.a. rannsóknir sem nefndin hefur gert það sem af er árinu.
38 FORMLEGAR rannsóknir hafa verið gerðar á vegum Rannsóknarnefndar flugslysa á þessu ári. 90 mál varðandi flugóhöpp og -atvik hafa verið til skoðunar hjá nefndinni það sem af er árinu.

38 FORMLEGAR rannsóknir hafa verið gerðar á vegum Rannsóknarnefndar flugslysa á þessu ári. 90 mál varðandi flugóhöpp og -atvik hafa verið til skoðunar hjá nefndinni það sem af er árinu. Hefur nefndin aldrei áður rannsakað svo mörg mál á einu ári, flest hafa þau verið 35 talsins.

Þormóður Þormóðsson, rannsóknarstjóri hjá Rannsóknarnefndinni, segir að rekja megi fjölgunina m.a. til þess að fólk er duglegra að tilkynna óhöpp nú en áður. Þá hafi störf nefndarinnar verið áberandi í ár vegna stórra mála, t.d. alvarlegs flugatviks við Gardermoen flugvöll sem fékk mikla umfjöllun.

Mikill áhugi á flugöryggi

Þormóður fór yfir flugóhöpp og flugatvik ársins á fundi sem Flugmálafélag Íslands stóð fyrir í vikunni. Að fundinum stóðu einnig Flugmálastjórn Íslands, Flugbjörgunarsveitin og Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna. Fundurinn var vel sóttur og að sögn Þormóðs voru þar saman komnir áhugamenn um flugöryggi úr ýmsum áttum, t.d. flugmenn og flugumferðarstjórar.

Þormóður rifjaði á fundinum sérstaklega upp nokkur flugatvik og slys á árinu og staðreyndir í rannsókn þeirra, t.d. mál vélar sem brotlenti á Akureyri, annarrar sem flaug á rafmagnslínu, nauðlendingu vélar vegna hreyfilsstöðvunar á Reykjanesi, mál vélar sem fór út af flugbraut í Vestmannaeyjum, mál erlendrar vélar sem lenti í vandræðum vestur af landinu og rannsókn á því þegar tvær vélar flugu mjög nálægt hvor annarri í aðflugi að Reykjavík, svo eitthvað sé nefnt. Á fundinum sköpuðust töluverðar umræður um einstök mál og störf nefndarinnar og sagði Þormóður ljóst að margir hefðu áhuga á öryggismálum í flugi og starfi Rannsóknarnefndarinnar.

Hugmyndir um breytingar á flugi

Sigurleifur Kristjánsson, deildarstjóri verklagsstofu flugumferðarþjónustu hjá Flugumferðarstjórn, kynnti á fundinum hugmyndir um fyrirhugaðar breytingar á flugi um Reykjavíkurflugvöll til að draga úr hávaða í nágrenni hans. Sagði Sigurleifur að tillögurnar miðuðu að því að dreifa hávaðanum og snertu t.d. breytingar á aðflugs- og brottflugsleiðum og vali flugbrauta. Þá hvatti Sigurleifur flugmenn til að draga úr óþarfa hávaða og varpaði t.d. fram þeirri spurningu hvort fullt vélarafl, sem ylli í sumum tilvikum töluverðum hávaða, væri alltaf nauðsynlegt í brottflugi véla sem t.d. væru ekki fullhlaðnar.