GEÐDEILD Landspítalans fór að mati umboðsmanns Alþingis ekki að ákvæðum lögræðislaga er sjúklingi, sem vistaður var á deildinni sl. vor gegn vilja sínum, var ekki leiðbeint um rétt sinn til að bera ákvörðun um vistunina undir dómstóla.

GEÐDEILD Landspítalans fór að mati umboðsmanns Alþingis ekki að ákvæðum lögræðislaga er sjúklingi, sem vistaður var á deildinni sl. vor gegn vilja sínum, var ekki leiðbeint um rétt sinn til að bera ákvörðun um vistunina undir dómstóla. Beinir umboðsmaður því til yfirlæknis geðdeildar að framvegis verði tekið mið af sjónarmiðum hans þegar teknar eru ákvarðanir um vistun samkvæmt 19. gr. lögræðislaga nr. 71 frá árinu 1997.

Karlmaður kvartaði til umboðsmanns í maí sl. yfir ákvörðun dómsmálaráðuneytisins mánuði fyrr um áframhaldandi nauðungarvistun á geðdeildinni. Var ráðuneytið þar að samþykkja beiðni ættingja mannsins, sem vistaður var á geðdeildinni í samanlagt 19 daga. Í kvörtuninni kom m.a. fram að maðurinn hefði ekki áttað sig á því að hann gæti kært ákvörðunina til dómstóla á meðan hann væri vistaður á geðdeildinni. Ráðgjafi hans hefði ekki leiðbeint honum um þessa kæruleið.

Umboðsmaður tekur í áliti sínu ekki afstöðu til ákvörðunar ráðuneytisins um að heimila vistunina. Telur hann þar um réttarágreining að ræða sem heyri undir dómstóla. Samkvæmt 2. og 3. málsgrein 19. greinar lögræðislaga er heimilt að vista mann nauðugan í sjúkrahúsi ef viðkomandi er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi að mati læknis. Bendir umboðsmaður á að við mat á slíkum ákvörðunum þurfi að afla ýmissa sönnunargagna um heilsufar viðkomandi einstaklings.

Er það niðurstaða umboðsmanns að af gögnum málsins og skýringum yfirlæknis megi ráða að leiðbeiningum hafi ekki verið komið á framfæri við sjúklinginn um rétt hans til að bera ákvörðun ráðuneytisins undir dómstóla. Skráning í sjúkraskrá sjúklingsins hafi heldur ekki verið í samræmi við lögræðislögin.