7. desember 2002 | Innlendar fréttir | 893 orð | 1 mynd

Fyrsta Óslóartréð á Austurvelli fyrir 50 árum

Öll hin skæru ljós loguðu

Um þessar mundir er hálf öld síðan Óslóarbúar gáfu Reykvíkingum jólatré í fyrsta sinn. Jónas Ragnarsson segir frá því þegar kveikt var á trénu á Austurvelli.
ÞAÐ mun hafa verið snemma á árinu 1952 að borgarstjórn Óslóar í Noregi samþykkti að gefa Reykvíkingum jólatré. Frumkvæðið mun hafa komið frá norsk-íslenska félaginu þar í borg. Þá höfðu Norðmenn um nokkurra ára skeið sent slíka vinargjöf til Lundúna. Þar var jólatréð reist á sérstöku viðhafnartorgi borgarinnar.

"Meðan Reykjavík á sér ekkert ráðhús og þar af leiðandi ekkert ráðhústorg verðum við að láta okkur nægja að skreyta Austurvöll með jólatré því sem Óslóbúar senda okkur," sagði Morgunblaðið.

Verkfall tafði uppskipun

Í byrjun desember 1952 kom Gullfoss við í Kristiansand í Noregi, á leið sinni frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur. Ástæðan var einkum sú að vegna gin- og klaufaveiki í Danmörku mátti ekki flytja jólatré þaðan til Íslands, eins og Landgræðslusjóður hafði gert tvö undanfarin ár, heldur varð að fá þau frá Noregi. Um var að ræða 13.000 jólatré. Auk þess tók Gullfoss jólatréð sem Óslóarbúar gáfu Reykvíkingum, en það hafði verið flutt sjóleiðina frá Ósló til Kristiansand, og einnig jólatré sem íbúar Björgvinjar gáfu Akureyringum.

Þetta var í fyrsta sinn sem Gullfoss, stærsta og veglegasta skip Íslendinga, kom til Noregs. Svo vildi til að Oscar Torp forsætisráðherra Noregs var staddur í Kristiansand og var honum boðið, ásamt sendiherra Noregs á Íslandi og fleiri gestum, til hádegisverðar í skipinu. Norskir fjölmiðlar fjölluðu um málið og létu í ljós þá von að koma "jólaskipsins" yrði fyrirboði þess að íslensk skip kæmu oftar til Noregs.

Þegar Gullfoss kom til Reykjavíkur, 5. desember, var skollið á allsherjarverkfall. Bannað var að skipa upp vörum og blöðin gátu þess að verkfallsmenn hefðu meira að segja bannað að afgreiða 400 póstpoka sem komu með skipinu.

Verkfallinu var ekki aflýst fyrr en laugardaginn 20. desember. Þá var byrjað á að skipa upp stóra jólatrénu svo að hægt væri að koma því fyrir á Austurvelli. Síðan voru öll hin trén flutt í land.

Fimmtán metra tré

Það var á fimmta tímanum sunnudaginn 21. desember 1952 sem fólk tók að safnast saman við Austurvöll til að vera viðstatt hátíðlega athöfn þar sem jólatré frá Óslóarbúum yrði afhent Reykvíkingum og kveikt á því. Veður var gott, bjartviðri og logn og hiti um frostmark.

Tréð hafði verið reist daginn áður og skreytt fram á nótt. Þetta var 15 metra hátt tré, 35 ára gamalt og höggvið í Norðurmerkurskógi við Ósló.

Meðal áhorfenda á Austurvelli voru mörg börn og sagði Morgunblaðið að hið háa tré hefði vakið athygli þeirra, enda væru þau á þeim aldri að þau hefðu mikla ánægju af jólatrjám. "En fyrir smáfólkið reyndist tréð líka óþægilega hátt vegna þess að börnin sem voru í helst til mikilli nálægð áttu fullt í fangi með að halda jafnvægi. Þegar þau renndu augunum að efstu greinum trésins lá við, hvað eftir annað, að þau dyttu aftur fyrir sig."

Við upphaf athafnarinnar lék Lúðrasveit Reykjavíkur, undir stjórn Páls Pampichlers, nokkur sálmalög, meðal annars lofsöng Beethovens, og Dómkirkjukórinn söng, undir stjórn Páls Ísólfssonar, sálmana Fögur er foldin og Ó, hve dýrlegt er að sjá.

Með kveðjum til frænda

Áður en kveikt var á ljósunum á jólatrénu flutti Torgeir Anderssen- Rysst, sem hafði verið sendiherra Norðmanna á Íslandi í sjö ár, ávarp og mælti á íslensku. Hann sagði það heiður að fá að afhenda "höfuðstað Íslands þetta jólatré frá höfuðstað Noregs ásamt með bestu kveðjum frá norsku þjóðinni til frænda okkar á Íslandi" og sagðist vona að tréð yrði táknrænt fyrir vináttu milli þjóðanna og hinn eilífa jólaboðskap.

Sendiherrann gat þess að þegar hann var á leiðinni til landsins með Gullfossi hefði einn úr áhöfn skipsins sagt við hann: "Að 50 árum liðnum má vera að við getum fengið álíka tré í Heiðmörk okkar."

Að ávarpinu loknu opnaði Rannveig dóttir sendiherrans "fyrir ljósleiðslu trésins svo öll hin skæru ljós loguðu, en dynjandi lófatak kvað við frá áhorfendum, ungum sem öldnum," eins og Morgunblaðið orðaði það.

Þess má geta að gróðursetning hófst í Heiðmörk árið 1949 og eru sum trén orðin um 15 metra há. Fyrstu árin komu norskir sjálfboðaliðar til landsins í skipulegar gróðursetningarferðir.

Tilkomumikil lýsing

Gunnar Thoroddsen borgarstjóri þakkaði fyrir þessa vinargjöf frá nánustu frændþjóð okkar. "Tréð breiðir faðminn á móti öllum bæjarins börnum. Það er meira, hærra og fegurra en áður hefur sést á Íslandi og ber oss öllum jólakveðjur og nýársóskir," sagði Gunnar og bað sendiherrann að flytja bræðraborginni þakkir og jólakveðjur frá íbúum Reykjavíkur.

Í fréttum Útvarpsins var sagt að þetta væri geysistórt grenitré. "Stór stjarna er á toppi og loga þar 40 perur, en alls eru á þriðja hundrað perur á trénu."

"Yfir athöfn þessari á Austurvelli hvíldi hinn rétti hátíðarblær, varð eins konar forspjall fyrir jólahátíðinni," sagði Morgunblaðið. "Lýsingin á þessu norska jólatré er með afbrigðum tilkomumikil, eins og bæjarbúar vonandi hafa tækifæri til að virða fyrir sér um komandi jólahelgi."

Vísir sagði að athöfnin hefði verið hin virðulegasta og tréð mikið og fagurt og til yndis fyrir bæjarbúa.

Velvakandi sagði í Morgunblaðinu að athöfnin hefði verið falleg og látlaus og að gaman hefði verið að sjá þegar ljósin á jólatrénu kviknuðu. Hins vegar hefðu aðeins fáir heyrt ávörpin vegna þess að "engum gjallarhornum hafði verið komið fyrir á vellinum".

Að komast í jólaskap

Nú hafa Óslóarbúar gefið Reykvíkingum jólatré í fimmtíu ár. Sú athöfn að tendra ljós á jólatré á Austurvelli á aðventunni skipar enn sérstakan sess í hugum borgarbúa og er ómissandi hluti af jólaundirbúningnum.

Sennilega verður ekki breyting á þessu í ár, í 51. skiptið, enda þótt grenitrén í Heiðmörk hafi staðist þær væntingar sem gerðar voru fyrir hálfri öld.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.