Ásvallagata 1. Þar  á fyrstu hæð á Hringurinn húsnæði og þar fer mikið af félagsstarfinu fram.
Ásvallagata 1. Þar á fyrstu hæð á Hringurinn húsnæði og þar fer mikið af félagsstarfinu fram.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hringurinn hefur unnið mikið starf fyrir sjúk börn á Íslandi og fyrrum fyrir berklasjúklinga. Björg Einarsdóttir hefur ritað starfssögu Hringsins. Guðrún Guðlaugsdóttir ræddi við Björgu um rit hennar og sögu Hringsins, sem nú er hartnær 100 ára gamalt félag.

Það var napur og kaldranalegur heimur sem blasti við ungri konu sem lá veik á sjúkrahúsi í Kaupmannahöfn fyrir meira en hundrað árum. Hún hafði veikst hastarlega og var vart hugað líf, eigi að síður varð henni fljótlega ljóst að hún væri hreint ekki verst sett af sjúklingunum - hún átti þó til efnaðra að telja og hafði peninga til að borga fyrir sig og sína læknishjálp, - verr voru þeir settir sem voru efnalausir í viðbót við heilsuleysið. Á þessum tíma þurfti fólk að greiða fyrir læknisþjónustu, spítalaleguna og lyfin sem það fékk. Þessi unga stúlka var Kristín Vídalín Jacobson, ungur myndlistarnemi, fyrsta íslenska konan sem stundaði myndlistarnám á háskólastigi, hún var systir Jóns Vídalíns konsúls, sem var þekktur og vellauðugur maður laust fyrir aldamótin 1900. Fárveik strengdi Kristín þess heit að ef henni mætti auðnast að yfirstíga veikindin þá skyldi hún reyna að gera eitthvað fyrir þá sem væru veikir og fátækir.

Hún efndi þetta heit sitt heima á Íslandi síðar þegar hún stofnaði ásamt 45 öðrum konum Hringinn, kvenfélag sem síðari áratugi hefur barist vasklega fyrir bættum högum veikra barna á Íslandi. En fyrstu áratugina voru það ekki veik börn sem allt snerist um hjá Hringnum, heldur hinir berklaveiku á Íslandi - og þeir voru margir. Fyrstu tvö árin var Hringurinn raunar skemmtifélag ungra kvenna. T.d. settu þær upp sýningu árið 1905 í Iðnó þar sem m.a. Det døende barn eftir H.C. Andersen var leikgert og lék telpan Kristín Valgerður Ólafsdóttir sem seinna giftist til Frakklands og fékk eftirnafnið Chouillou hið deyjandi barn og fór með textann á dönsku. En fljótlega settu Hringskonur sér fyrrnefnt markmið til að vinna að, í framhaldi af því starfaði Hringurinn sem berklavarnarfélag til ársins 1942. Nafn sitt fékk félagið líklega frá Kaupmannahöfn, þar var starfandi menningarfélag sem íslenskar konur sem þar bjuggu voru þátttakendur í og bar nafnið Cirklen. Hringurinn er hins vegar mjög skemmtilegt nafn - vísar til einhvers án upphafs og endis.

Þessar upplýsingar allar streyma af vörum Bjargar Einarsdóttur sem nú hefur lokið við að skrifa starfssögu Hringsins, 700 blaðsíðna bók með 600 myndum sem prentuð er í Odda og er að koma út þessa dagana. Björgu til aðstoðar var m.a. Valgerður Kristjónsdóttir.

Björg er ekki óvön skriftunum, hún er m.a. þekkt fyrir skrif sín um ævi íslenskra kvenna, ritstýrði Ljósmæðratali auk fjölmargs annars sem hún hefur ritað eftir að hún gerði ritstörf að sínu aðalviðfangsefni árið 1984 eftir áratuga skrifstofustörf. En þótt hún sé ýmsu vön á ritvellinum komst hún í hann krappan hvað þetta verkefni snertir - það voru nefnilega engin formleg plögg til um starf Hringsins fyrstu áratugina.

"Það var óneitanlega mikil vinna að afla gagna hvað það tímabil snerti," segir Björg. "Hringurinn hafði ekki eigið húsnæði fyrr en eftir 1960 og fram að því fylgdu plögg félagsins riturum þess og öðrum stjórnarmönnum. Einn ritaranna bjó í húsi neðarlega við Tjarnargötu og geymdi umrædd plögg í geymslu í kjallaranum. Á þessu svæði flæðir oft í stórstreymi og talið er að gögnin hafi skemmst í flóði, það segja munnmæli í félaginu. Ein gömul bókhaldsbók ber þess merki að hafa lent í óhreinu vatni og það gæti staðfest þessa sögu. Ekki aðeins fundargerðir eru glataðar frá þessum fyrstu áratugum heldur líka bréf og önnur skjöl."

Björgu varð þó drjúgt til fanga í gömlum blöðum, Hringskonur voru duglegar að koma sér á framfæri, einnig fékk hún ýmislegt af viðtölum við þá sem mundu þessa tíma og höfðu komið á einhvern hátt nálægt starfsemi Hringsins.

"Valtýr Stefánsson hafði tekið nokkur slík viðtöl og mundi sjálfur eftir skemmtunum á vegum Hringsins þegar hann var enn í skóla og Hringskonur voru sem betur fer duglegar að auglýsa og kynna viðburði í starfi félagsins, m.a. í Morgunblaðinu," segir Björg.

Fyrst starfað í þágu berklasjúklinga

"Berklaveikin var mikill vágestur í íslensku samfélagi og Hringskonur söfnuðu fé til að berjast gegn henni. Þær borguðu m.a. fyrir marga sjúklinga eftir að Vífilsstaðahæli var opnað 1910. Þær voru snemma duglegar að afla fjár og höfðu fast skipulag á fjármálunum. Aflafénu skiptu þær í tvennt, helmingurinn fór í fastan sjóð til framtíðarverkefna en hinn helmingurinn í sjóð til líknarmála samtímans.

Þær reistu berklahæli í Kópavogi 1926 í framhaldi af heimild Alþingis 1924 um ábúð þeim til handa í Kópavogi og leyfi til að reisa berklahæli þar strax. Þetta hæli ráku þær í 15 ár og um það bil 400 manns áttu þar heilsuvist. Þegar berklaveikin var svo á undanhaldi gáfu þær ríkinu hælið 1939 með gögnum þess og gæðum.

Eftir það tóku þær sér tíma til að umþótta sig hvað taka ætti fyrir. Þær ráku áfram búskap á Kópavogsjörðinni, sem gaf töluverðan arð af sölu landbúnaðarvara sem safnaðist í sjóð.

Ákveðið að Hringurinn helgaði sig því málefni að á Íslandi risi barnaspítali

Árið 1942 kom fram sú hugmynd frá Hringskonunni Áslaugu Guðmundsdóttur, að því er sagt er, að félagið helgaði sig því málefni að á Íslandi risi barnaspítali. Allt fram til þessa tíma var Kristín Vídalín Jacobson formaður Hringsins. Þegar hún lét af starfi tók við Ingibjörg Þorláksson, þá Soffía Haralds, Sigþrúður Guðjónsdóttir, Ragnheiður Einarsdóttir, Sigríður G. Johnson, Ragnheiður Viggósdóttir, Elísabet G. Hermannsdóttir, Borghildur Fenger og loks Áslaug Björg Viggósdóttir sem hefur verið formaður Hringsins sl. tvö ár. Mikið innra starf er unnið í félaginu, konurnar eru þar til að vinna og mikil verkkunnátta er þar fyrir hendi á ýmsum sviðum. Alls hafa verið rúmlega 800 konur í Hringnum frá upphafi svo vitað sé, en nú eru félagskonur um 300 talsins. Í bókinni eru m.a. rakin tengsl þessara kvenna innbyrðis sem víða eru fyrir hendi og þau oft mikil.

Hringurinn hefur gegnt töluverðu hutverki í íslensku samfélagi og í Reykjavík. Jólakaffi Hringsins hefur t.d. verið vinsæll liður í bæjarlífinu í hartnær 30 ár en segja má að Hringskonur hafi gripið allar þær aðferðir til fjáröflunar sem vænlegar voru taldar hverju sinni. Fyrst var gjarnan slegið saman jólakaffi og basar en á seinni árum hefur þetta verið aðskilið. Þess má geta að í tæpan aldarfjórðung öfluðu Hringskonur tekna með leikstarfsemi, frá árinu 1905 og fram undir 1930. Þær færðu yfirleitt upp leikrit á hverju vori í Iðnó, oftast var fullt hús og nokkrar sýningar. Þá má nefna Hring-ferðirnar um Reykjavík frá 1916 til 1921, þá var um að ræða einskonar "menningarnótt" þeirra tíma, alls konar sýningar, hlutaveltur og aðrir viðburðir í miðbænum. Einn miði gilti á allt og var þetta sérlega vinsælt og gaf vel í aðra hönd.

Þegar stríðið skall á um haustið 1939 voru Hringskonur einmitt að gefa ríkinu Kópavogshæli og stofnuðu í framhaldi af því Barnaspítalasjóðinn 13. apríl 1942. Ákveðið var að hefja viðamikla fjáröflun til að styrkja þann sjóð. Henni var hleypt af stokkunum með mikilli útiskemmtun í Hljómskálagarðinum hinn 14. júní sama ár, en sá dagur telst stofndagur sjóðsins. Þá þegar höfðu þrjár Hringskonur greitt stofnframlag í sjóðinn - 1.000 krónur hver. Þetta var mikið fé þá, dagvinnulaun verkakonu voru þá 3,79 krónur.

Sumarhátíðin 1944 var rómuð

Einnig var mjög rómuð hátíðin sem Hringskonur héldu 1944, lýðveldisárið. Hún var haldin 7. júlí í einstaklega góðu veðri og þóttu skemmtiatriðin hreint afbragð. Þær höfðu orðið sér úti um stór tjöld frá Ameríku sem tóku um 200 manns við borð. Einnig voru minni tjöld með leiktækjum og svo voru alls kyns leikir. Í einu tjaldi lá t.d. frammi stór og mikill trjádrumbur, hægt var að fá stóran hamar og nagla. Þeir sem gátu rekið nagla í einu höggi í drumbinn fengu verðlaun. Það voru ekki margir sem þetta gátu. Minningarkortasölu hófu Hringskonur árið 1914 og hafa haft alla tíð síðan og hefur þetta verið sjóðnum drjúg tekjulind. Þá hafa þær selt jólakort óslitið frá 1973.

Alþingi veitir skattfrelsi fyrir gjafir í Barnaspítalasjóð Hringsins

Árin 1944 og 1945 veitti Alþingi heimild til að gjafir í Barnaspítalasjóð Hringsins skyldu vera skattfrjálsar. Þetta var mikill uppgangstími í íslensku þjóðfélagi og sérstaklega voru menn í sjávarútvegi með mikið af lausum peningum. Tekjuskatturinn var í nokkrum þrepum og menn gátu þar með lent í mjög háu skattþrepi ef tekjur voru miklar. Við þessa heimild frá Alþingi voru margir sem gripu til þess ráðs að gefa í sjóðinn heldur en fá mjög háan skatt. Við þetta efldist sjóðurinn gífurlega mikið. En á móti kom að mikil verðbólga geisaði þannig að erfitt var að ávaxta laust fé. Það var því mikil fyrirhöfn hjá gjaldkerum Hringsins að halda utan um aflafé félagsins. Þær keyptu verðbréf til dæmis í Kreppulánasjóði, Hitaveitu og Sogsvirkjun, svo eitthvað sé nefnt. Þær vöktu yfir bankareikningum sem höfðu bindingu til lengri tíma og báru góða vexti. Þetta skapaði mikla vinnu fyrir félagskonur, eitt árið var sjóðurinn t.d. á 28 mismunandi reikningum og hlutabréfum.

Það var Hringskonum erfið þraut að geta ekki komið hinum sígildnandi sjóði til framkvæmda. Þær leituðu eftir samningum við ríkisvaldið þar um 1946 til 1947 en það leiddi ekki til neins. Þegar verið var að leggja drög að Borgarspítala kom upp sú hugmynd að hafa barnadeild þar, en frá því var horfið því Hringskonum þótti of langt í land til þess að sá spítali risi og einnig var þar ekki aðstaða fyrir nema tiltölulega litla deild. Um tíma hugðust þær stofna einkaspítala fyrir börn og auglýstu eftir húsnæði fyrir slíka starfsemi en við nánari athugun virtist þetta verða óhagstæður rekstur. Þá var það sem þær leituðu aftur eftir samkomulagi við ríkisvaldið. Meðal annars fyrir milligöngu Vilmundar Jónssonar landlæknis, sem þá var, tókust samningar við ríkið um að Hringskonur legðu barnaspítalasjóð sinn í nýja viðbótarbyggingu við Landspítalann. Það var vorið 1952 sem þetta samkomulag tókst og á grundvelli þess hefur verið unnið síðan.

Búum út litlu, hvítu rúmin

Útbúin var til bráðabirgða barnadeild í rishæð gamla Landspítalans er hjúkrunarnemar sem þar höfðu búið fluttu í nýtt húsnæði. Hringskonur söfnuðu þá fé undir kjörorðinu: "Búum út litlu, hvítu rúmin". Þessi deild var fyrir 30 börn með öllu innanstokks. Samhliða þessu hófust framkvæmdir við viðbyggingu við Landspítalann. Í vesturenda á tveimur hæðum nýbyggingarinnar var ákveðið að hinum nýja barnaspítala yrði komið fyrir og í virðingarskyni við framtak og dugnað Hringskvenna nefnist hann Barnaspítali Hringsins. Hringskonur greiddu um tíunda part af því sem þessi bygging kostaði. Hin nýja deild tók um 60 börn og það er sú deild sem enn starfar.

Allar götur síðan hafa Hringskonur endurnýjað og keypt ný tæki á þessa deild og mikið af fjármunum sem þær hafa safnað hefur gengið til þess verkefnis. Þegar hin nýja geðdeild Barnaspítala Hringsins var opnuð við Dalbraut 1971 útbjuggu Hringskonur hana alla innanstokks, - eða eins og ein þeirra orðaði það: "Frá títuprjóni til píanós."

Er vökudeild barnadeildar Landspítalans, þar sem sinnt er fyrirburum og veikluðum nýburum, hélt upp á 20 ára afmæli sitt 1996 var uppi við veggspjaldasýning sem sýndi ýmislegt úr starfsemi þeirrar deildar. Þar kom fram að 70% þess sem þar er af útbúnaði og tækjum koma frá Hringnum. Þegar Hringurinn hélt upp á 80 ára afmæli sitt 1984 var endurskilgreint markmið félagsins frá 1942 í þá veru að upp skyldi rísa sérhannaður barnaspítali og það er nú að verða að veruleika. Hringskonur hafa lagt drjúgt til hins nýja spítala. Þær hafa gefið um 200 milljónir á skömmum tíma til þessa verkefnis. Hringskonur hafa lagt kapp á að jafnan sé á barnadeildinni tækjabúnaður eins fullkominn og kostur er á og stefnt verður að sama markmiði áfram. Hringurinn hefur alltaf haft vel skilgreind markmið og einhugur ríkt um að vinna að þeim.

Fjármál Hringsins hafa alltaf verið í mjög föstum skorðum. Félagssjóður, sem í renna inntöku- og árgjöld, er aldrei mjög gildur en hann stendur þó undir rekstri félagsins. Barnaspítalasjóðurinn lifir algjörlega sínu lífi, í hann fer allt aflafé og gjafafé og hann er aldrei snertur nema til þess markmiðs sem hann er ætlaður - en til þess hefur hann líka verið notaður.

Ég vil leyfa mér að vitna í orð Elísabetar Hermannsdóttur, formanns útgáfunefndar Hringsins og fyrrverandi formanns félagsins, er hún lét falla í ávarpi á 20 ára afmæli vökudeildar: "Að líkna og hlú að veikum börnum er eins og að rækta fagurt blóm." Þessi orð lýsa vel hugarfari félagskvenna í Hringnum. Eitt er víst, með vinnu sinni við saumaskap, bakstur og við alls kyns aðra hluti hafa þær lagt drjúgan skerf til þess að bjarga mannslífum á Íslandi."

gudrung@mbl.is