13. febrúar 2003 | Minningargreinar | 707 orð | 1 mynd

SÆMUNDUR GÍSLASON

Sæmundur Gíslason fæddist í Reykjavík 13. nóvember 1920. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 2. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Gísli Sæmundsson frá Núpum í Ölfusi, síðar verkamaður í Reykjavík, og Júlíana Guðrún Gottskálksdóttir frá Sogni í Ölfusi. Sæmundur var yngstur fimm systkina, en hin eru; Sæunn Gísladóttir, f. 1911, dvelur nú á Hrafnistu í Reykjavík; Gottskálk Þóroddur Gíslason, f. 1912, húsgagnasmíðameistari í Reykjavík, d. 1991, Guðmundur Ágúst Gíslason, f. 1915, pípulagningameistari, d. 1983, og Jörundur Svavar Gíslason, f. 1918, d. 1935.

Sæmundur kvæntist 12. júní 1943 Jóhönnu Blöndal Guðmundsdóttur hárgreiðslumeistara, f. 29. október 1922, d. 12. feb. 2002. Synir þeirra eru: 1) Gísli arkitekt í Reykjavík, f. 29. júní 1956, maki Anna Día Brynjólfsdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 9. maí 1960. Synir þeirra eru Atli Magnús, f. 7. júní 1988, og Brynjólfur, f. 1. des. 1993. Dóttir Gísla af fyrra hjónabandi er Jóhanna, ferðamálafulltrúi í Ósló, f. 8. júlí 1977. 2) Magnús, skólastjóri Gaulverjaskóla, Gaulverjabæjarhreppi, f. 7. sept. 1965, maki Svandís Egilsdóttir myndlistarmaður, f. 13. júlí 1972. Synir Magnúsar eru Sæmundur Andri, f. 29.2. 1992, Daníel Arnar, f. 20. júní 1994, og Gísli Aron, f. 1. okt. 1996. Sonur Svandísar er Gissur Atli Sigurðarson, f. 21. sept. 1995.

Sæmundur lauk ungur prófi frá Verslunarskóla Íslands en að því loknu nam hann húsgagnasmíðar við Iðnskólann í Reykjavík og hjá Gottskálk bróður sínum. Hann réðst ungur til heildverslunar H. Benediktssonar og vann þar lengst af áður en hann hóf störf hjá Almennum tryggingum hf., síðar Sjóvá-Almennum.

Sæmundur stundaði íþróttir af kappi og átti að baki glæstan feril í knattspyrnu sem leikmaður hjá Knattspyrnufélaginu Fram og spilaði einnig sex fyrstu landsleiki Íslands í þeirri íþróttagrein. Hann sinnti einnig félagsmála- og stjórnunarstörfum í þágu Fram, Knattspyrnusambands Íslands, Íþróttabandalags Reykjavíkur og Verslunarmannafélags Reykjavíkur.

Útför Sæmundar verður gerð frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Kveðja frá Knattspyrnufélaginu Fram

Í dag kveðjum við Framarar heiðursfélaga félags okkar, Sæmund Gíslason, sem allt frá æskuárum lagði Knattspyrnufélaginu Fram mikið starf af mörkum, innan leikvallar sem utan.

Sæmundur var alinn upp í því hverfi í austurbæ Reykjavíkur þar strákar skipuðu sér almennt undir merki Fram. Hann hóf ungur að leika knattspyrnu með Fram og lék með öllum aldursflokkum félagsins. Fljótlega kom í ljós að Sæmundur var yfirburða leikmaður og hóf hann að leika með meistaraflokki félagsins 18 ára gamall og lék með liðinu í hálfan annan áratug, lengst af sem fyrirliði á leikvelli. Hann var geysiduglegur leikmaður og mikill keppnismaður sem ætíð lét liðsheildina ganga fyrir.

Sæmundur varð Íslandsmeistari með Fram í knattspyrnu árin 1939, 1946 og 1947 og þegar Íslendingar léku sinn fyrsta landsleik í knattspyrnu árið 1946 var hann meðal leikmanna og lék 6 fyrstu landsleiki Íslendinga.

Samhliða keppni í meistaraflokki félagsins hlóðust á Sæmund margvísleg félagsstörf í þágu Fram. Hann var kosinn í aðalstjórn Fram árið 1939, aðeins 19 ára gamall og sat í stjórn félagsins um langt árabil með nokkrum hléum. Það var ekki aðeins Fram sem naut starfskrafta Sæmundar því hann gegndi margvíslegum störfum fyrir íþróttahreyfinguna í heild. Hann var um áratuga skeið fulltrúi Fram í stjórn Íþróttabandalags Reykjavíkur og sat í framkvæmdastjórn Í.B.R. árin 1962- 1984. Fyrir mikil störf í þágu Fram var Sæmundur gerður að heiðursfélaga félagsins og samtök íþróttamanna hafa heiðrað hann á ýmsan hátt fyrir störf í þágu íþróttahreyfingarinnar.

Við gamlir félagar Sæmundar minnumst "Sæma í Fram" með miklum hlýhug. Hann var einstakt prúðmenni og góður félagi, ekki orðmargur en lagði ætíð gott til mála. Sæmundur og kona hans Jóhanna, sem er látin, voru ætíð mætt þegar eitthvað var um að vera hjá félaginu og áttu persónulega vináttu margra Framara. Hann fylgdist með sínu gamla félagi og studdi það á meðan heilsa leyfði. Síðustu ár voru honum erfið og naut hann því ekki mikilla samskipta við gamla félaga.

Stjórn Knattspyrnufélagsins Fram þakkar Sæmundi Gíslasyni fyrir mikil störf og stuðning og gamlir félagar hans í Fram þakka vináttu og samstarf um langt árabil.

Sonum hans Magnúsi og Gísla og fjölskyldum þeirra eru sendar hugheilar samúðarkveðjur.

Sveinn H. Ragnarsson.

Elsku afi. Ég veit að þér líður vel. Nú hittirðu ömmu og vini þína úr fótboltabransanum. Ég veit að þú færð góðar móttökur.

Í mínum huga verður þú alltaf besti fótboltamaðurinn.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virzt mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(S. Egilsson.)

Daníel Arnar Magnússon.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.