Mávanes 4 , Garðabæ. Höfundur: Manfreð Vilhjálmsson arkitekt. Húsið var byggt 1964 til 1965.
Mávanes 4 , Garðabæ. Höfundur: Manfreð Vilhjálmsson arkitekt. Húsið var byggt 1964 til 1965.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er mikilvæg ákvörðun að velja sér húsnæði. Eftir hverju á að fara - það er spurning sem Guðrún Guðlaugsdóttir lagði fyrir Pétur Ármannsson arkitekt, auk þess sem hún ræddi við hann um hönnun og ólík tímabil íslenskrar byggingarlistar.

Öðru hvoru sér maður auglýst hús þar sem getið er arkitektsins og þá er gjarnan um að ræða þekkta menn í sinni stétt, svo sem Rögnvald Ólafsson, Guðjón Samúelsson, Sigurð Guðmundsson, Einar Sveinsson, Gunnlaug Halldórsson, Sigvalda Thordarson, Manfreð Vilhjálmsson og Magga Jónsson. En skyldu þeir vera margir, að áliti Péturs Ármannssonar arkitekts, sem láta það hafa áhrif á val sitt í fasteignaviðskiptum hver teiknaði húsið?

"Það er til hópur sem hefur mikinn áhuga á vel teiknuðum húsum en sá hópur er kannski ekki mjög stór," sagði Pétur, sem starfar sem sérfræðingur í byggingarlist við Listasafn Reykjavíkur.

"Út frá því hvaða hús hafa verið í sölu undanfarin ár og teljast til markverðrar byggingarlistar finn ég, þótt óbeint sé, að þessi áhugi er fyrir hendi hjá ákveðnum hópi. En ég held að það sé miklu almennari áhugi hjá fólki á skipulagi innanhúss. Íslendingar leggja mjög mikið í heimili sín og horfa mikið á þætti um slík efni, enda er viðráðanlegra að móta umhverfið á skemmtilegan hátt þannig en byggja heil hús."

Hvaða tímabili telurðu að sé mestur áhugi fyrir núna út frá sjónarmiði arkitektúrs?

"Ég held að áhuginn sé talsvert breiður. Hann hefur verið meira einskorðaður við eldri hús en mér finnst hann vera að færast yfir á önnur tímabil núna, t.d. er talsverður áhugi á góðum húsum og íbúðum frá eftirstríðsárunum."

Erfitt að innrétta góða íbúð í húsi sem ekki er vel hannað

Hvað er fólk að kaupa þegar það lætur vel hæfan arkitekt teikna fyrir sig hús eða íbúð?

"Þá má líkja þessu við að kaupa fyrsta flokks hráefni til að elda úr. Ef hráefnið er ekki gott er sama hversu miklu er kostað til, árangurinn verður aldrei góður. Það er erfitt að innrétta reglulega góða íbúð í húsi sem er ekki vel hannað í grunninn. Vel hannað hús þar sem öll skipulagsatriði eru leyst í byrjun getur sparað fólki miklar og kostnaðarsamar breytingar. Einungis þarf að halda því við og lagfæra það sem er úr sér gengið."

Höfum við átt og eigum marga góða arkitekta?

"Það eru komin núna tæp hundrað ár síðan sérfræðingar með þessa menntun fóru að starfa hér á landi og á því tímabili hefur sú stétt manna teiknað mikið af góðum húsum í ólíkum stíl. Framan af voru þessu hús mótuð af hefðbundinni byggingarlist nágrannalandanna en síðan varð fúnksjónalisminn mjög áberandi hér á landi og kannski í meira mæli en annars staðar þar sem við áttum í raun svo lítið af byggingum að þjóðin varð að byggja yfir sig frá grunni. Sú mikla uppbygging fór saman við þann tíma þegar þessi stefna var hvað mest áberandi í byggingarlist, þá er ég að tala um árin frá 1930 en einkum árin eftir stríð."

Hvað einkennir góða hönnun á húsi?

"Hún stenst tímans tönn og það í fleiri en einum skilningi. Húsið endist vel, getur tekið breytingum, hægt er að laga það eftir breyttum heimilisaðstæðum og svo að útlit þess, hönnun og form séu þess eðlis að fólk verði ekki leitt á því."

Er erfitt að koma nútímaþægindum í tækni og lýsingu fyrir í gömlum og vel teiknuðum húsum?

"Það er miserfitt. Það getur verið erfitt að setja mikið af lögnum í gömul hús, sérstaklega í steinhús. En það er þó ótrúlegt hvað hægt er að breyta húsum með útsjónarsemi. Það er kannski galdurinn við góð hús að þau geta tekið slíkum breytingum. Annars er það með lýsingu, hana þarf að hanna með tilliti til einkenna þeirrar íbúðar sem verið er að vinna með hverju sinni."

Eldri íbúðir einkennast af fáum en stórum herbergjum sem auðveldlega geta breytt um hlutverk

Hvað einkennir hin ýmsu tímabil í húsateikningum eins og þau birtast í íbúðum?

"Ef við skoðum skipulag íbúða þá einkennast eldri íbúðir af tiltölulega fáum en stórum herbergjum sem eru þannig að þau geta auðveldlega breytt um hlutverk, hafa ýmist verið notuð sem stofur eða svefnherbergi. Í mörgum slíkum íbúðum voru eldhús og baðherbergi tiltölulega lítil í upphafi og til að bregðast við því hefur fólk í sumum tilvikum flutt þau rými til, kannski sameinað eldhús borðstofu, þ.e. flutt eldhúsið inn í borðstofuna og stækkað baðherbergi t.d. inn í gamla eldhúsið eða nýtt það sem þvottaherbergi.

Eftir stríð urðu herbergin í íbúðum sérhæfðari, meira sniðin að ákveðnu hlutverki. Stofurnar voru opnar og gjarnan í tengslum við eldhús en svefnherbergi fleiri og smærri. Á þeim tíma var algengt að skipta íbúðum í daghluta og svefnhluta. Það fór að verða algengt að börn hefðu hvert sitt herbergi. Þessi breyting hafði ýmsa kosti í för með sér hvað varðar þægindi og notagildi en það má kannski segja að þessi sérhæfing í herbergjum hafi dregið úr sveigjanleika í notkun, erfiðara reynist að gera stofu að svefnherbergi og öfugt. Eldhúsin urðu hins vegar stærri, opnari og öfugt við það sem áður var urðu þau nú í beinum tengslum við stofu og borðstofu en ekki handan við gang eins og áður tíðkaðist."

Ákveðin fjölhyggja ráðandi í arkitektúr núna

Hefur arkitektúr breyst mjög mikið síðustu ár?

"Arkitektúr er alltaf að taka einhverjum breytingum. Það er ákveðin fjölhyggja í gangi núna, nútíminn einkennist af því að engin stefna er allsráðandi heldur eru margar ólíkar hugmyndir í gangi og flest leyfilegt. Maður sér bæði íbúðir og hús sem eru mjög nýtískuleg og í anda naumhyggju en jafnframt eru mjög margir sem kjósa að búa fremur í eldri húsum eða byggja hús sem eru mótuð af eldri hugmyndum um hús."

Hvað með "sérvisku" arkitekta hvað varðar hús sem þeir teikna - sumir vilja að sögn ekki að fólk hafi gardínur eða hafa steypt húsgögn og vilja ekki láta breyta þessu, er þetta algengt?

"Það er sjálfsagt afstætt hvað fólk lítur á sem sérvisku. Ég held að það sé hvorki algengt né æskilegt að hús séu mótuð af sérvisku í neikvæðri merkinu þess orðs, hvort sem það er sérviska arkitekta eða húseigenda. Það gildir að hús séu tímalaus og auðvelt sé að laga þau að breyttum aðstæðum. En það þýðir ekki að húsin geti ekki haft sterk listræn höfundareinkenni. Þetta tvennt þarf að flétta saman og þegar það gerist er hægt að tala um góða byggingarlist."

Að hverju á fólk að hyggja þegar það kaupir sér fasteign?

"Fólk á fyrst og fremst að hugsa um eigin hamingju og vellíðan og lykilatriði er þá að reisa sér ekki hurðarás um öxl fjárhagslega. Fólk á að setja sér markmið innan þess ramma sem það ræður við og reyna að finna skemmtilega eign sem höfðar til þess. Hvað arkitektúr snertir vil ég persónulega sjá hann í öllu okkar umhverfi þar sem almenningur getur notið hans heldur en bara í dýrum einkahúsum."