Ísak Halldórsson Nguyen og Helga Dögg Helgadóttir í flokki fullorðinna.
Ísak Halldórsson Nguyen og Helga Dögg Helgadóttir í flokki fullorðinna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Laugardaginn 15. mars.

ÍSLANDSMEISTARAMÓT í 10 dönsum með frjálsri aðferð fór fram í Laugardalshöllinni laugardaginn 15. mars sl. Á þessu móti er reiknaður saman árangur í báðum greinum samkvæmisdansins, þ.e. standarddönsum og suður-amerískum dönsum, og eru dansaðir 5 dansar í hvorri grein. Þar sem sum danspörin stunda einungis aðra greinina þá eru alltaf aðeins færri pör sem keppa á mótum þar sem keppt er í samanlögðum árangri beggja greina.

Samhliða Íslandsmeistaramótinu var haldið mót í öllum flokkum fyrir þá sem keppa í dansi með grunnaðferð.

Á laugardaginn fór einnig fram bikarmeistaramót í línudönsum. Var í fyrsta sinn keppt eftir nýjum keppnisreglum Dansíþróttasambands Íslands þar sem t.d. er skipt í aldursflokka og dansar hver hópur tvisvar sinnum. Fyrst er dansaður skyldudans og síðan valdans. Skráðir voru til keppni 7 hópar með alls 60 dönsurum á öllum aldri. Var það skemmtilegt innlegg í keppnina og ánægjulegt að fjórir hópar komu utan af landsbyggðinni.

Til keppni í samkvæmisdönsum voru skráð alls 108 pör auk þess sem 75 pör úr hópi byrjenda sýndu dans. Keppendur komu frá eftirtöldum dansíþróttafélögum:

Dansíþróttafélag Hafnarfjarðar (Dansskóli DÍH), Dansíþróttafélag Kópavogs (Dansskóli Sigurðar Hákonarsonar), Dansíþróttafélagið Gulltoppur (Dansskóli Jóns Péturs og Köru), Dansdeild ÍR, Dansíþróttafélagið Hvönn, UMFB og Dansíþróttafélagið Ýr (Dansskóli Heiðars Ástvaldssonar).

Keppt var til Íslandsmeistaratitils í 5 aldursflokkum

Yngsti hópurinn var Unglingar I (12-13 ára). Þessi hópur keppir reyndar í 8 dönsum og bætast tveir dansar við í næsta aldursflokki fyrir ofan. Í flokki Unglinga I voru 4 pör skráð til leiks. Sigurvegarar voru Haukur Freyr Hafsteinsson og Hanna Rún Óladóttir. Þau hafa yfirburði í þessum hópi. Þau hafa dansað saman í mörg ár, farið margsinnis utan að keppa á stórmótum og hafa mikla reynslu fram yfir hin pörin. Þeirra dansstíll er mjög hreinn en Haukur Freyr mætti passa betur upp á að lækka niður hæla þegar hann stígur aftur á bak í Cha Cha Cha. Í öðru sæti voru Aðalsteinn Kjartansson og Edda Guðrún Gísladóttir. Efnilegir dansarar sem eru á mikilli uppleið. Þau hafa ekki jafnmikla reynslu og sigurvegararnir og eiga eftir að ná að vinna betur saman.

Unglingar II (14-15 ára) var stærsti hópurinn sem keppti í dansi með frjálsri aðferð á mótinu. Íslandsmeistarar urðu Jónatan Arnar Örlygsson og Hólmfríður Björnsdóttir. Þau voru í feiknaformi og tel ég víst að þau hafi haft töluverða yfirburði í standarddönsunum. Í öðru sæti voru Þorleifur Einarsson og Ásta Bjarnadóttir. Þau hafa veitt sigurparinu keppni í suður-amerísku dönsunum en mér fannst þau ekki ná sér á strik í standarddönsunum.

Í flokki Ungmenna (16-18 ára) kepptu tvö pör. Þar sigruðu Friðrik Árnason og Sandra Júlía Bernburg. Þau dansa mjög áferðarfallegan dans og hafa góða stöðu í standarddönsunum. Í öðru sæti voru Björn Vignir Magnússon og Björg Halldórsdóttir. Þau hafa sýnt framfarir að undanförnu og þá sérstaklega í suður-amerísku dönsunum þó ekki nóg til þess að skáka sigurparinu.

Því miður var einungis bara eitt par sem keppti í flokki Fullorðinna (19-35 ára). Það voru þau Ísak Halldórsson Nguyen og Helga Dögg Helgadóttir. Þau dönsuðu ein á gólfinu og buðu upp á skemmtilega danssýningu. Það var greinilega engin pressa á þeim og varð engin svikin af þessari sýningu. Þau eru mjög létt og glaðleg á gólfinu enda frábærir dansarar sem ná auðveldlega að hrífa áhorfendur með sér. Þau dönsuðu í heildina mun betur en á síðasta móti þó fannst mér þau stundum missa sig frá hvort öðru í standarddönsunum.

Elsti hópurinn var hópur Seniora (35 ára og eldri). Þar leiddu saman hesta sína tvö pör. Þar fóru með sigur af hólmi þau Björn Sveinsson og Bergþóra María Bergþórsdóttir. Í suður-amerísku dönsunum hafa þau haft yfirburði en ég er ekki viss um að svo hafi verið í standarddönsunum. Mér fannst vanta meiri yfirferð t.d. í Tangó og þau fóru of mikið upp og niður í dansi sem ætti að vera með flatari áferð. Í öðru sæti voru Jón Eiríksson og Ragnhildur Sandholt. Þau dönsuðu af meira öryggi en áður og hafa örugglega náð einhverjum stigum af sigurparinu í standarddönsunum. Aldurshópurinn 35 ára og eldri er mjög breiður aldurshópur. Víða erlendis er einnig keppt í flokki Seniora II sem er fyrir aldurshópinn 50 ára og eldri. Bæði þessi pör hafa aldur til þess að keppa í þeim flokki.

Dómarar keppninnar voru Annette Behrendsen frá Danmörku, Jan A. Foss frá Noregi, Mia Öhrman frá Svíþjóð, David Douglass frá Englandi og Josef Vondthorn frá Þýskalandi.

Þegar á heildina er litið fannst mér flest pörin dansa betur en á síðasta móti sem fór fram 9. febrúar sl. Þá höfðu sum þeirra ekki tekið þátt í danskeppni síðan í maí á síðasta ári og líklega keppnisskrekkur komin í þau. Nú leið stuttur tími á milli og pörin hugsanlega með minni skrekk í sér og notið sín betur á gólfinu. Norski dómarinn hafði á orði eftir keppnina að hér á Íslandi væri stór hópur af hæfileikaríkum dönsurum sem við þyrftum að hlúa vel að.

Þegar keppni var lokið og dagur var að kveldi kominn þá höfðu vel yfir 400 manns dansað af hjartans list í Höllinni og vonandi farið ánægðir heim eftir dagsverkið.

Úrslit keppninnar voru eftirfarandi:

Unglingar I (12-13 ára)

1. Haukur Freyr Hafsteinsson - Hanna Rún Óladóttir, Hvönn

2. Aðalsteinn Kjartansson - Edda Guðrún Gísladóttir, ÍR

3. Karl Bernburg - Ása Karen Jónsdóttir, ÍR

4. Alexander Nikolaev Mateev - Erla Björg Kristjánsdóttir, ÍR

Unglingar II (14-15 ára)

1. Jónatan Arnar Örlygsson - Hólmfríður Björnsdóttir, Gulltoppi

2. Þorleifur Einarsson - Ásta Bjarnadóttir, ÍR

3. Björn Einar Björnsson - Sóley Emilsdóttir, Gulltoppi

4. Stefán Claessen - María Carrasco, ÍR

5. Baldur Kári Eyjólfsson - Anna Kristín Vilbergsdóttir, Gulltoppi

6. Björn Ingi Pálsson - Ásta Björg Magnúsdóttir, Gulltoppi

7. Fannar Helgi Rúnarsson - Lilja Guðmundsdóttir, Gulltoppi

Ungmenni (16-18 ára)

1. Friðrik Árnason - Sandra Júlía Bernburg, Gulltoppi

2. Björn Vignir Björnsson - Björg Halldórsdóttir, Gulltoppi

Fullorðnir (19-35 ára)

1. Ísak Halldórsson Nguyen - Helga Dögg Helgadóttir, Hvönn

Seniorar ( 35 ára og eldri)

1. Björn Sveinsson - Bergþóra María Bergþórsdóttir, DÍH

2. Jón Eiríksson - Ragnhildur Sandholt, Gulltoppi

Kara Arngrímsdóttir