ÉG er að hugsa um að fara á vélsleða upp á Eyjafjallajökul á morgun. Það hefur lengi verið draumur minn að komast þangað einn og óstuddur.

ÉG er að hugsa um að fara á vélsleða upp á Eyjafjallajökul á morgun. Það hefur lengi verið draumur minn að komast þangað einn og óstuddur.

Ég tel mig vera þokkalega útbúinn, á góð fín ullarundirföt og dágóðan skíðagalla, að vísu ekki alveg nýjasta módel en hann hefur dugað mér ágætlega fram að þessu.

Ég hef nú verið að velta því fyrir mér að fá mér staðsetningartæki en ég er bara svolítið óklár tæknilega séð enda eru þessi tæki alltaf að bila svo ég ætla bara að láta GSM-inn nægja.

Reyndar veit ég ekki hvort það næst nokkurt samband þarna uppi en það verður bara að koma í ljós. Fjölskyldan mín er nú ekkert hrifin af þessu ferðaplani, vill að ég fái einhvern með mér eða kynni mér leiðina með einhverjum hætti en mér finnst miklu skemmtilegra að fara bara svona einn út í óvissuna og láta ráðast hvort ég næ upp eða ekki. Mig hefur lengi langað til að vera töffari og nú held ég að ég geti látið þann draum rætast.

Ég kíkti á veðurspána á netinu áðan og mér sýnist veðrið vera þokkalegt eitthvað fram á morgundaginn en á svo að ganga í hvassa norðanátt með éljum.

Eitthvað var talað um stormviðvörun en ég áttaði mig ekki á því almennilega hvar á þessu svæði hún átti við. Sem sagt, ég ætla bara að drífa mig af stað áður en allir vakna, þá veit heldur enginn hvert ég er að fara.

Hrafn hinn heimski, - sem er auðvitað dulnefni því ég er ekki hann, ég er ekki einu sinni töffari, meira að segja er ég kona og dytti aldrei í lífinu í hug að gera fjölskyldu minni og vinum þann óleik að vaða á fjöll í óvissuveðri að vetri til, illa klædd og illa undirbúin, þekkja ekki hálendið og vita ekki að illviðri getur skollið á fyrirvaralaust.

HRAFNHILDUR

SIGURÐARDÓTTIR,

Smáraflöt 49,

Garðabæ.

Frá Hrafnhildi Sigurðardóttur