KNATTSPYRNUSAMBAND Evrópu, UEFA, hefur ekki uppi nein áform um að fresta leikjum í undankeppni Evrópumóts landsliða vegna fyrirhugaðs stríðs Bandaríkjanna á hendur Írökum.

KNATTSPYRNUSAMBAND Evrópu, UEFA, hefur ekki uppi nein áform um að fresta leikjum í undankeppni Evrópumóts landsliða vegna fyrirhugaðs stríðs Bandaríkjanna á hendur Írökum. Hins vegar mun stjórn UEFA ætla að meta ástandið leik fyrir leik ef áhyggjur manna af öryggisþáttum fara vaxandi. Knattspyrnuyfirvöld á Bretlandseyjum hafa rætt málin innan sinna raða enda tengjast Bretar fyrirhuguðu stríði þar sem þeir eru í liði með Bandaríkjamönnum og eru með herafla sem er tilbúinn að gera atlögu að Írökum.

Margir leikir eru á dagskrá undankeppni Evrópumótsins þann 29. mars næstkomandi en alls eiga að fara fram 17 leikir víðs vegar um Evrópu þann dag, þar á meðal eiga Íslendingar í höggi við Skota á Hampden Park í Glasgow.