Jónas Einarsson Waldorff fæddist í Reykjavík 1. apríl 1989. Hann lést í umferðarslysi á Reykjanesbrautinni að kvöldi sunnudagsins 9. mars síðastliðins. Foreldrar hans eru Einar Þórðarson Waldorff, f. 12.10. 1956 og Helle Alhof, f. í Danmörku 27.4. 1962. Foreldrar Einars eru Þórður Waldorff, f. 9.12. 1930, og Edda María Einarsdóttir, f. 23.8. 1931. Foreldrar Helle eru Knud Alhof, f. 16.10. 1934, d. í apríl 1989, og Karin Alhof, f. 8.3. 1936.

Bróðir Jónasar er Daníel Einarsson, f. 29.4. 1984. Einar og Helle skildu. Seinni kona Einars er Ragnheiður Anna Georgsdóttir f. 17.5. 1960. Foreldrar Ragnheiðar eru Georg Gladwish f. 13.1. 1939, og Hólmfríður Sigurðardóttir f. 24.2. 1940.

Jónas var nemandi í Heiðaskóla í Keflavík, æfði á gokartbrautinni í Njarðvík á sumrin og æfði box í vetur í Keflavík.

Útför Jónasar fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

"Mikið á konan þín eftir að eiga gott, Jónas minn."

Þetta sagði ég reglulega við Jónas gegnum árin okkar saman.

Hann var mesti kavaler sem ég hef kynnst um ævina, og þó var hann rétt nýorðinn sjö og færði mér egg og beikon í rúmið hvenær sem færi gafst.

Ég varð þó um síðir að afþakka svona stóran morgunverð og bað um eitthvað léttara, fékk þá dúkum skrýdda bakka (ofnplötur með viskastykkjum) með te og ávöxtum, já og sérvéttum, stundum kerti - til hátíðabrigða. Þetta voru mín fyrstu kynni af honum. "Pabbi, ef þú gefur Ragnheiði ekki oftar blóm þá stel ég henni frá þér." Og litlu fæturnir tifuðu út í næstu blómabúð ef honum hafði áskotnast skotsilfur og þangað fór hann ófáar ferðir og bað um "fallegan blómvönd handa hinni mömmu minni", en það hafði ég eftir áreiðanlegum heimildum þegar annar blómakaupandi var viðstaddur viðskiptin. Stundum fannst mér blómvendirnir grunsamlega veglegir miðað við litlu upphæðina í buddunni. En þó rósirnar séu löngu sölnaðar, geymi ég fallegu kortin sem hann skrifaði mér með hverjum vendi í gullakassanum mínum, en það eru dýrmætustu skilaboð sem mér hafa verið færð. Hann var stjanari í eðli sínu. Stundum spurði hann mig hvort hann mætti vera þjónninn minn - hvort hann mátti! Þá nuddaði hann á mér fæturna, hitaði kaffi og færði mér ásamt einhverju að lesa, fann góða músík, kveikti á kertum og gerði "huggulegt" svo ég noti hans eigin orð. Ég var svo ljónheppin að hann stakk oft uppá því að fá að skrifa eitthvað með nöglinni á bakið á mér, ég gat náttúrlega aldrei rétt, þótt ég vissi alltaf hvað hann myndi skrifa, en það var I LOVE YOU og því breytti hann aldrei þau sjö ár sem við fengum saman.

Ég var í nuddnámi sl. ár og sýndi hann því mikinn áhuga og spurði mikið. Ég hafði gaman af að fræða hann um áhrifamátt hinna ýmsu ilmkjarnaolía en sagði einhverju sinni að ég ætlaði að kaupa seinna Rose-olíuna sem væri svo góð fyrir konur, hún væri bara svo dýr. Ekki löngu seinna var komin inn á borð til mín glerflaska með dumbrauðum vökva í. "Ragnheiður, þú þarft ekki að kaupa dýru olíuna, ég tók bara blómvöndinn sem mamma mín fékk í afmælisgjöf og pressaði úr tólf rauðum rósum allan safann." Jónas var líka nautnaseggur og naut þess út í ystu æsar þegar ég nuddaði hann upp úr ilmolíum eða setti réttu ilmblönduna útí baðið, kveikti á kertum og spilaði róandi músík fyrir hann meðan hann var í baði. En það var ekki lengi sem við hlustuðum á róandi músík, okkur fannst nefnilega báðum svo æðislega gaman að hlusta á þungarokk. Hann var duglegur að finna flott lög á Netinu og leyfa mér að heyra og ég var alltaf pínu montin þegar hann var að fletta í gegnum gamla rispaða plötustaflann minn og rak upp undrunar- og ánægjuóp þegar hann fann eitthvað 30 ára bitastætt. En líklega sökum aldurs þá hafði ég því miður ekki þol í að hlusta nema á nokkur lög í einu, já og ekki mjög hátt, en því tók hann með stóískri ró og spilaði bara fyrir mig með góðum hléum á milli.

Hann var haldinn ólæknandi bílaáhuga, þekkti allt á hjólum en því miður gat ég ekki deilt því með honum. Fyrir mér var nóg að komast frá A til B í bílnum mínum, enda nýlega komin með bílpróf, hann hafði stundum orð á því þegar við vorum tvö að rúnta hvað mér hefði farið mikið fram í akstrinum og mér fannst hólið gott.

Jónas var mikið náttúrubarn og það var gaman að vera útí náttúrunni með honum - bara ef við þurftum ekki að labba mikið, því það fannst Jónasi reglulega leiðinlegt. Tvö sumur í röð skoðuðum við landið og skemmtum okkur konunglega þær þrjár vikur sem við vorum á ferð. Og sem fyrr var Jónas hamhleypa til verka við að tjalda og koma okkur fyrir til að geta átt gæðastund um kvöldið í rólegheitum við kertaljós og spil.

Þetta voru sólardagarnir okkar en auðvitað dró stundum fyrir sólu, þannig er lífið, það skiptast á skin og skúrir og síðustu daga skein sólin okkar mjög skært og við sáum fram á marga sólardaga framundan. En það átti eftir að fara á annan veg, því miður.

Ég mun alltaf muna Jónas eins og þegar við kynntumst fyrst. Þegar hann átti 100 kærustur að eigin sögn, aðeins sjö ára gamall, og ætlaði að gefa sér góðan tíma í að útiloka hinar 99. Hann kenndi mér margt það tímabil sem okkur var ætlað saman og þá fyrst og fremst það að við erum ekki öll eins og þurfum ekki öll að vera eins. Það ætla ég að hafa hugfast þegar ég fer áfram veginn.

Ég bið Guð að blessa Jónas minn og hjálpa honum að átta sig á nýjum heimkynnum.

Ástarkveðja,

Ragnheiður Anna

Georgsdóttir.

Í bljúgri bæn og þökk til þín,

sem þekkir mig og verkin mín.

Ég leita þín, Guð, leiddu mig

og lýstu mér um ævistig.

Ég reika oft á rangri leið,

Sú rétta virðist aldrei greið.

Ég geri margt, sem miður fer,

og man svo sjaldan eftir þér.

Sú ein er bæn í brjósti mér,

ég betur kunni þjóna þér,

því veit mér feta veginn þinn,

að verði þú æ drottinn minn.

(Pétur Þórarinsson.)

Klökk í hjarta kveðjum við í dag ungan vin okkar, Jónas Einarsson Waldorff, sem með sviplegum hætti kvaddi þennan heim hinn 9. mars sl.

Kynni okkar af Jónasi voru ekki löng, en við vorum ætíð mjög góðir vinir og áttum margar góðar stundir saman hér í Eyjum, í sumarbústaðnum og heima hjá Einari og Ragnheiði Önnu.

Jónas spurði okkur hjónin skömmu eftir að við kynntumst honum hvort hann mætti kalla okkur afa og ömmu. Það var auðsótt mál og þótti okkur það mikill heiður. Frá þeirri stundu vorum við afi og amma í Vestmannaeyjum.

Jónas var ljúfur og góður drengur. Alltaf tilbúinn að taka til hendinni og hjálpa til ef með þurfti. Okkur er það í fersku minni þegar hann kom til okkar í vetur með pabba sínum og Ragnheiði Önnu. Við elduðum þorramat, og var Jónas í essinu sínu þegar hann var að hjálpa til í eldhúsinu, og ekki vafðist það fyrir honum að búa til kartöflumúsina.

Elsku Jónas, nú ert þú horfinn á braut og þín er sárt saknað, en við trúum því að við munum hittast aftur í betri heimi en við búum í hér.

Farðu í friði, ljúfi drengur. Guð geymi þig um alla eilífð. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

"Þó ég sé látinn, harmið mig ekki með tárum. Hugsið ekki um dauðann með harmi og ótta; ég er svo nærri að hvert eitt ykkar tár snertir mig og kvelur. En þegar þið hlæið og syngið með glöðum hug, lyftist sál mín upp í mót til ljóssins. Verið glöð og þakklát fyrir allt sem lífið gefur, og ég tek þátt í gleði ykkar yfir lífinu." (Höf. ók.)

Elsku Einar, Ragnheiður Anna, Helle og Daníel. Við biðjum þess að algóður Guð megi styrkja ykkur og styðja í sorginni.

Afi Ragnar og

amma Hólmfríður

í Vestmannaeyjum.

Standið ekki við gröf mína og fellið tár. Ég er þar ekki, ég er vindurinn sem blæs. Ég er demanturinn sem glitrar. Ég er sólskin á frjósaman akur. Ég er hin milda vorrigning. Þegar þú vaknar í morgunkyrrð er ég vængjaþytur fuglanna. Ég er stjarnan sem lýsir á nóttu. Standið ekki við gröf mína og fellið tár; ég er ekki þar. Ég lifi.

(Höf. ók.)

Guð geymi elsku drenginn okkar.

Afi og amma Aðalfríður.

Af eilífðar ljósi bjarma ber,

sem brautina þungu greiðir.

Vort líf, sem svo stutt og stopult er,

það stefnir á æðri leiðir.

Og upphiminn fegri' en auga sér

mót öllum oss faðminn breiðir.

(Einar Benediktsson.)

Guð blessi þig, elsku drengurinn.

Amma og Haukur afi.

Jónas frændi var eitt af sex systkinabörnum mínum sem ég er svo heppinn að hafa eignast og kynnst. Þessir krakkar hafa öll verið yndisleg og kynnin við þau verið frábær.

Jónas var aðeins 13 ára þegar hann var kallaður frá okkur. Hvernig má það vera að 13 ára unglingur er farinn í þetta ferðalag á undan okkur hinum sem erum svo miklu eldri?

En svona er þetta og maður situr eftir dofinn. Setur videóspólu í tækið og sér þennan litla gutta, þá fimm ára, fyrir framan sig, kraftmikinn, fjörugan, yndislegan og alúðlegan við leik. Koma inn að fá sér köku og mjólk. Mikið fannst okkur Dóru gaman að fá frændurna, Jónas, Daníel og Sigga í heimsókn. Jónas var yngstur af þeim en aldrei tilbúinn að láta í minni pokann.

Þá rifjast upp þegar ég bauð þeim verðlaun fyrir að hlaupa í gegnum kríuvarpið á Hrauni. Æ, Hemmi frændi fékk smá móral þegar þessi fimm ára gutti hægði á sér á miðri leið þegar kríurnar gerðu sem harðasta atlögu, hikaði augnablik, leit til baka og hélt síðan áfram þangað sem Daníel bróðir og Siggi frændi stóðu. Þannig var Jónas frændi. Gafst ekki upp þótt sótt væri að honum.

Það er mikið erfitt fyrir okkur öll að sjá á eftir honum frænda okkar í þessa ferð. Margir eiga um sárt að binda og er ekki hægt að lýsa því með orðum.

Elsku Helle, Daníel, Einar og Ragnheiður. Við höfum misst kæran vin. Minningin um hann mun lifa í hjörtum okkar.

Megi Guð vera með ykkur og styrkja.

Drottinn minn faðir lífsins ljós

lát náð þína skína svo blíða.

Minn styrkur þú ert mín lífsins rós,

tak burt minn myrka kvíða.

Þú vekur hann með sól að morgni.

Þú vekur hann með sól að morgni.

Farðu í friði, vinur minn kær,

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær,

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni,

svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens.)

Kær kveðja.

Hermann, Dóra Birna,

Hafþór og Ingimar.

Hvers vegna er svona ungri manneskju svipt burt af vettvangi lífsins fyrirvaralaust? Ekkert svar, við sitjum bara eftir beygð af harmi.

Við hugsum um ljúfan, hlýjan dreng sem tókst af kappi á við áhugaverð og ögrandi verkefni. Jónas átti björt bros og ákafan, leitandi huga.Við minnumst stunda í sumarbústaðnum okkar þar sem hann tók þátt í leik og starfi. Hann var fljótur að læra gátur, fuglafit, hnúta og æfði sig af kappi við að vinna þau verk sem honum voru falin. Hann fékk embætti ráðsmanns því honum lét vel að bera á gróðurinn og hlúa að trjánum. Sem tímavörður í hjólbörukappakstri var hann samviskusamur, nákvæmur og óhagganlegur því rétt skyldi vera rétt.

Ógleymanleg verður Gæsavatnaleiðin síðastliðið sumar. Eftirvænting var í huga ferðalanga að leggja í ferð út í óvissuna á tveimur bílum. Jónas sendi okkur óskalög í gegnum talstöðina og lagði fyrir okkur gátur. Þegar bíllinn okkar festist í snjóskafli langt inni í óbyggðum var hann á mörgum stöðum samtímis og lagði sitt af mörkum til að leysa vandann. Allt fór vel og ókum við niður í Reyðarfjörð. Jónas kunni vel við sig í sveitinni. Við fórum á sjó og renndum færi og hann var kappsamur um að læra áralagið og stjórna utanborðsmótornum. Vel undi hann sér á dráttarvélinni sem sneri töðu í grænu túni. Hann var hrifinn af vélum og tækni og stór var hans framtíðarsýn á þeim vettvangi.

Samband Jónasar og pabba hans var náið og Ragnheiður var honum einlægur, traustur vinur og félagi sem var óþreytandi í að beina hans ómótuðu og leitandi sál til þroska.

Jónas skilur eftir fallegar minningar sem gott er að hugga sig við á erfiðum stundum. Við þökkum fyrir hans góðu og gefandi samveru og vottum aðstandendum hans og ástvinum okkar dýpstu samúð.

Gunnhildur og Finnur.

Ég kynntist Jónasi eftir að Nanna frænka og Einar byrjuðu að búa. Við lékum okkur stundum saman þegar við heimsóttum þau og það var alltaf mjög gaman. Mér fannst Jónas vera skemmtilegur og fyndinn og ég leit á hann sem eldri frænda minn. Hann hafði mikinn áhuga á bílum og uppáhaldsleikirnir hans í tölvunni voru bílaleikir. Ég á eftir að sakna hans.

Arnór Ingi.

Hann náði ekki að verða 14 ára, blessaður.

Þó að eina vissan sem fylgir lífinu sé dauðinn, er það andstætt lögmálinu að þurfa að fylgja barni sínu og barnabarni til grafar. Sársaukinn sem nístir er dýpri en orð fá lýst.

Jónas og Daníel urðu hluti af okkar fjölskyldu þegar Einar og Ragnheiður felldu hugi saman. Náðu þeir vel að samlagast hópnum og var oft líf og fjör, þegar við hittumst.

Upp í hugann koma sílaveiðar á Víðistaðatúninu, gott ef þau voru ekki til manneldis, svo flott voru þau. Matarboð þar sem keppt var í tölvuleikjum eða samin tónverk á apparatið, foreldrum til furðu. Sumarbústaðarferðir, hvar ærslast var og hamast, sofið í hrúgum, grillað, sprellað og slegist.

Pysjuveiðar í Eyjum, sölvaleiðangur, krabbaleit og eggjasuða í Eldfelli.

Hann var elskur að smábörnum og sótti í að sinna þeim. Stoltur af því að vera "stóri" frændi, enda sá yngri af þeim bræðrum.

Var oft gaman að spurningum Jónasar og uppátækjum, þó ekki mætti alltaf hlæja að þeim opinberlega, af uppeldisfræðilegum ástæðum.

Við kveðjum þetta unga athafnaskáld með söknuði og þökkum fyrir þær stundir þar sem hann var einn af okkur.

Elsku Einar, Ragnheiður, Daníel, Helle, ættingjar og vinir, við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Linda, Sigurður, Ragnar,

Sindri og fjölskyldur.

Við áttum að fara í íslenskutíma út í kálf. Þegar ég kom inn spurði Hinni mig hvort ég vissi hver hefði dáið. Ég leit á hann og vissi ekkert hvað hann var að tala um. Hann sagði mér að það hefði verið árekstur á Reykjanesbrautinni og að einhver 13 ára strákur hefði dáið. Hann spurði alla að þessu sem komu inn en enginn vissi hver það var sem dó. En svo kom Davíð og hann vissi hver það var. Hann sagði okkur að það væri Jónas. Við trúðum honum ekki og sögðum alltaf, nei, það getur ekki verið. Þegar hringt var inn í tíma kom Bryndís íslenskukennari, Kiddi umsjónarkennari, Björn aðstoðarskólastjóri og Sigfús prestur. Ég gekk hrædd inn í stofuna og leit kvíðin á Ellu. Sigfús byrjaði að tala við okkur. Það var alveg þögn í bekknum þegar hann sagði að Jónas hefði dáið í gærkvöldi, samstundis. Ég fann fyrir mikilli sorg og byrjaði strax að berjast við grátinn. Ég byrjaði að titra og hugsa um Jónas.

Ég hafði þekkt Jónas í leikskóla og var svo með honum í 5.-8. bekk. Við vorum fínustu vinir í 7. bekk. Hann var góður, ljúfur og skemmtilegur. En það breyttist allt í 8. bekk. Ég byrjaði þá að vera mjög leiðinleg við hann. Og núna verð ég með samviskubit í langan tíma því ég mun aldrei geta sagt við hann, fyrirgefðu hvernig ég er búin að láta við þig. Ég vona að hann fyrirgefi mér, því hann átti alls ekki skilið að láta koma svona fram við sig, hvað þá af mér. Jónas var mjög vitur, kannski ekki á þann hátt eins og við hin, heldur á sérstakan hátt.

Það er mjög skrýtin tilfinning að hugsa að hann komi aldrei aftur til okkar. Það er allt svo skrýtið núna. Þetta er ólýsanlegt. Mér eða vonandi okkur varð ljóst hversu okkur þykir vænt hverju um annað í bekknum. Á sérstakan hátt. Þó að við segjum hluti hvert við annað og rífumst og gerum stundum lítið hvert úr öðru, þá þykir okkur samt vænt hverju um annað á sérstakan hátt. Við segjum það aldrei hvert við annað en við gefum það í skyn. Og við áttum okkur ekki á því fyrr en eitthvað svona hefur gerst. Það eru svo margar spurningar sem mig langar að spyrja en ég verð að sætta mig við engin svör.

Ég var svo viss um að Jónas yrði mjög mikilvægur í framtíðinni. Ég var viss um að hann myndi vera með góða vinnu, ætti nokkur yndisleg börn og dásamlega vini og konu. Ég var svo viss og vonaði mjög mikið að hann yrði hamingjusamur. Hann átti allt lífið framundan. Það er erfitt að hugsa um allt sem hann á eftir að missa af.

Við munum öll sakna hans mikið. Það verður skrýtið að koma í skólann og sjá hann aldrei aftur. Ég samhryggist allri fjölskyldu Jónasar og unga manninum sem var með honum í bílnum.

Bríet, 8. KÓ.