Smyrillinn með fóstra sínum Óla Hans Gestssyni á Bjarti NK.
Smyrillinn með fóstra sínum Óla Hans Gestssyni á Bjarti NK.
MIKIL rigning hefur verið austanlands undanfarið og hafa fuglar lent í hrakningum vegna þessa.

MIKIL rigning hefur verið austanlands undanfarið og hafa fuglar lent í hrakningum vegna þessa. Á Eskifirði fannst blautur og úrvinda múrsvölungur sem nú er kominn í vörslu Náttúrustofu Austurlands í Neskaupstað til aðhlynningar og verður honum sleppt þegar fuglinn braggast og veður lagast.

Að sögn Berglindar Steinu Ingvarsdóttur, líffræðings hjá Náttúrustofunni, er múrsvölungur af svölungarætt. Hann er evrópskur flækingsfugl sem er frekar sjaldgæfur hér við land. Hann líkist svölum í útliti en auðgreindur frá þeim á löngum vængjum, stuttu klofnu stéli, sótsvörtum lit og hvítri kverk. Múrsvölungar eru mjög hraðfleygir og sjást sjaldan nema á flugi. Í kuldatíð leita þeir skjóls, t.d. í mannvirkjum, og leggjast í dvala og dorma.

Þá tók ungur smyrill sér far með Bjarti NK til lands aðfaranótt sunnudags. Fuglinn settist á skipið á Fæti, um 40 mílur frá landi, og var illa á sig kominn, blautur og hrakinn. Óli Hans Gestsson, skipverji á Bjarti, veitti Smyrlinum húsaskjól þegar í land kom. Smyrillinn var óðum að braggast í vistinni, búinn að snæða skinku og drekka vel af vatni og var bara nokkuð sáttur við samveru mannanna. Starfsmenn Náttúrustofunnar merktu og vigtuðu fuglinn áður en honum var sleppt út í frelsið.

Neskaupstað. Morgunblaðið.