6. júní 2003 | Baksíða | 2845 orð | 8 myndir

Kynlíf tæpitungulaust

tæpitungulaust

Systkinin Yvonne Kristín og Xavier Þór heima hjá ömmu sinni og afa í Stykkishólmi.
Systkinin Yvonne Kristín og Xavier Þór heima hjá ömmu sinni og afa í Stykkishólmi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kynlífsfræðingurinn Yvonne Kristín Fulbright, sem er hálfíslensk, er í doktorsnámi við New York-háskóla, skrifar kynlífspistla í skólablaðið og er höfundur nýútkominnar bókar um öruggt kynlíf. Bandarískir fjölmiðlar keppast við að fá hana í vitræn viðtöl um viðfangsefnið. Valgerður Þ. Jónsdóttir spurði hana m.a. um ætt og uppruna, nám, bók, markmið og viðhorfin vestra til kynlífs og kynfræðslu.
Í SJÓNVARPSÞÁTTUNUM Beðmálum í borginni er aðalstjarnan, Carrie Bradshaw blaðamaður sem skrifar reglulega pistla um ástarsambönd og kynlíf, einkum sitt eigið og einhleypra vinkvenna sinna í heimsborginni, New York. Eins og Carrie býr Yvonne Kristín Fulbright í New York, er einhleyp og orðin velþekkt þar vestra fyrir pistla sína um kynlíf. Báðar hafa skrifað bækur um viðfangsefnið.

Lengra nær samlíkingin ekki. Yvonne Kristín er líka töluvert yngri en Carrie, aðeins 27 ára og kynlífspistlar hennar í háskólablaðinu, Washington Square News, eru svör við spurningum háskólanema og byggjast á faglegri þekkingu eins og nýútkomin bók hennar The Hot Guide to Safer Sex, en ekki dæmisögum úr eigin lífi eða vangaveltum og fantasíum vinkvennahópsins. Þar að auki er Yvonne Kristín hálfíslensk.

Dr. Ruth X&Y-kynsl;óðarinnar

Innlegg hennar í kynlífsumræðuna hefur vakið mikla athygli. Síðan pistlarnir fóru að birtast í skólablaðinu fyrir tveimur árum hefur hún verið eftirsóttur gestur í sjónvarps- og útvarpsspjallþáttum á borð við The Today Show, Inside Edition, Naked NY og Good Morning America, svo fáeinir séu nefndir. Þá hafa prentmiðlarnir, t.d. The New York Times, The New York Post, San Francisco Chronicle, USA Today og tímaritin Cosmopolitian, Esquire, Maxim, Playboy og Penthouse, ekki látið sitt eftir liggja í viðtölum við "Dr. Ruth X&Y; kynslóðarinnar" eins og Yvonne Kristín er oft kölluð. Margt þykir enda benda til að hún sé arftaki kynlífsfræðingsins, dr. Ruth Westheimer, sem árið 1980 opnaði umræðuna með útvarpsþáttum sínum "Sexually Speaking" og hefur æ síðan þótt helsti sérfræðingur Bandaríkjanna um kynhegðun og hvaðeina sem lýtur að kynlífi.

Yvonne Kristín er sögð koma eins og ferskur andblær í umræðuna. Hún er rómuð fyrir heilbrigð, jarðbundin viðhorf, skynsamleg, hispurslaus svör við hvers kyns spurningum um kynlíf, hnyttni í tilsvörum og aðlaðandi framkomu. Hún er líka hámenntaður kynlífsfræðingur, gagnstætt mörgum sem vaða uppi í fjölmiðlum, þvaðra fram og til baka og gefa ráð um kynlíf samkvæmt, oft brigðulu, hyggjuviti sínu.

Ættir og uppruni

Áður en ferill Yvonne Kristínar er rakinn nánar er hún, að rammíslenskum sið, spurð hverra manna hún sé?

"Faðir minn, Charles G. Fulbright, rafmagnsverkfræðingur og fyrrum flotaforingi í bandaríska hernum, er fæddur og uppalinn í Norður Karólínu, en móðir mín, Ósk Herdís Lárusdóttir, fæddist og ólst upp í Stykkishólmi. Mamma er lærður leikskólakennari og starfar sem slíkur í Maryland þar sem þau búa. Ég á yngri bróður, Xavier Þór, sem er byggingaverkfræðingur frá Penn-ríkisháskólanum, en starfar sem ljósahönnuður í London," svarar Yvonne Kristín og heldur áfram: "Sjálf fæddist ég í Guam þar sem fjölskyldan bjó af því pabbi var í hernum. Síðan bjuggum við í Skotlandi um skeið eða þangað til ég var fjögurra ára að við fluttumst til Íslands þar sem við bjuggum til ársins 1985. Þá fórum við aftur vestur um haf til State College í Pennsylvaníu."

Eftir BA-próf í sálfræði og félagsfræði árið 1997 frá Penn-ríkisháskólanum flaug Yvonne Kristín úr hreiðrinu til Fíladelfíu og hóf meistaranám í kynlífsfræðum í Pennsylvaníu-háskóla. "Síðustu önnina, sem fólst í kennsluþjálfun, tók ég í UPenn í Toronto í Kanada, en hélt að því búnu til Washington, DC, og vann þar sem heilsuverkefnastjóri í tvö ár fyrir samtök bandarískra læknanema. Síðastliðin tæp tvö ár hef ég verið í doktorsnámi í International Community Health við New York-háskóla," segir Yvonne Kristín og kveðst ekki geta skilgreint námsgreinina öðruvísi en með beinni þýðingu, sem er alþjóðleg heilbrigðisþjónusta.

Kornungur fyrirlesari

Hún var ekki há í loftinu þegar hún komst að því að hún væri bara nokkuð góð í kynfræðslu, nánar tiltekið í sjötta bekk í grunnskóla, en þá hélt hún fyrirlestur um æxlunarfæri kvenna og kynlíf í bekknum sínum.

"Ég varð upprifin yfir áhuga krakkanna og skynjaði hæfileika mína til að tala um kynferðismál án þess að vera vandræðaleg eins og þeir urðu þegar slík mál báru á góma. Jafnvel á þessum tíma gerði ég mér grein fyrir að uppeldið, sem ég hafði fengið á Íslandi, átti þátt í að mér fannst þetta ekkert feimnismál. Ríkjandi viðhorf höfðu ruglað mig svolítið í ríminu fyrst eftir komuna til Bandaríkjanna. Ég var að komast á kynþroskaaldur og fannst skilaboðin, sem ég fékk um líkama minn, vera á neikvæðu nótunum; til dæmis að ég þyrfti að raka á mér fótleggina, klæðast brjóstahaldara og þvíumlíkt. Þetta var afar ólíkt öllu því sem mamma hafði kennt mér. Hún lagði ríka áherslu á að ég væri sátt við líkama minn auk þess sem hún svaraði spurningum mínum um kynlíf hreinskilnislega og kinnroðalaust. Hún innrætti mér að kynlíf væri fallegt, heilbrigt og eðlilegur hluti lífsins. Aftur á móti virtist mér margir af nýju félögum mínum og foreldrar þeirra líta á kynlíf sem eitthvað sóðalegt. Mér fannst viðhorf til kynlífs bera vott um þroskaleysi þjóðarinnar og langaði að breyta þeim."

Að takast á við slíkt þjóðþrifaverk þýddi að Yvonne Kristín yrði að fara lítt troðnar slóðir. Þegar hún var í framhaldsskóla viðraði hún hugmyndina við frænku sína, Eydísi Sveinbjarnardóttur, geðhjúkrunarfræðing, sem hvatti hana til dáða.

"Eydís sagði mér frá vinkonu sinni, Jónu Ingibjörgu Jónsdóttur, kynlífsfræðingi, sem var með meistaragráðu í fræðunum frá Pennsylvaníu-háskóla, og leiddi mér fyrir sjónir að menntun og starfsframi í kynfræðslu væru raunhæfur möguleiki," segir Yvonne Kristín. Fyrir áhugafólk um ættfræði má geta þess að Eydís er systir Þórunnar alþingismanns og Önnu kvikmyndafræðings og eru þær systur og Yvonne Kristín systradætur.

"Markaðsvænni" með doktorspróf

Með meistarapróf í kynfræðslu upp á vasann reyndist þó vera á brattann að sækja. Að sögn Yvonne Kristínar voru fáir atvinnurekendur, sem gerðu sér grein fyrir gildi slíkrar menntunar. "Samt búa hvorki hjúkrunarfræðingar, félagsráðgjafar né aðrir sem koma að kynfræðslu, yfir eins mikilli sérþekkingu og ég hafði aflað mér í náminu. Fólk með doktorspróf í kynfræðslu ráðlagði mér eindregið að fara í doktorsnám í fræðum sem gerðu mig "markaðsvænni" í heilsugæslunni. Með doktorsnafnbótina yrði fremur tekið mark á mér þegar kynfræðsla væri annars vegar, var mér sagt. Doktorsnám í alþjóðlegri heilbrigðisþjónustu virtist því vænn kostur, bæði með tilliti til útbreiðslu HIV-veirunnar í heiminum og áhuga míns á alþjóðamálum."

Markmið Yvonne Kristínar er að fræða almenning um allar hliðar kynlífs. Eins og nú háttar til segir hún opinbera heilbrigðisþjónustu snúast um sjúkdóma og neikvæðar hliðar kynlífs, en lítið um fræðslu og forvarnir. Brýn þörf sé að gera bragarbót þar á og eins sé mikilvægt að breyta neikvæðum viðhorfum margra til kynlífs og þeirra sjálfra sem kynvera. Hún fer ekki í launkofa með að sjálf hafi hún alltaf hugsað sér að komast í fjölmiðla í þágu kynfræðslunnar og fyrirmynd hennar sé fjölmiðlastjarnan Dr. Ruth Westheimer.

"Í eðli mínu er ég engin 9 til 5 manneskja. Ég vil hafa mörg járn í eldinum; halda fyrirlestra, vera í viðtölum, kenna, skrifa bækur, veita ráðgjöf og vera í lausamennsku hingað og þangað. Ég hef lært að á mínu sviði verður maður að skapa sér tækifærin sjálfur, sem er alls ekki auðvelt. Engu að síður mjög spennandi og skemmtilegt, enda er ég nú þegar farin að sjá árangur vinnu minnar og ýmis sóknarfæri. Ég reyni þó að halda að mér höndum þar til ég lýk doktorsprófinu," segir Yvonne Kristín, sem er á því að kynfræðsla sé að mörgu leyti óplægður akur í Bandaríkjunum. Hún tekur svo djúpt í árinni að segja að unglingarnir séu hættulega illa upplýstir um kynlíf.

Útbreidd fáfræði og örvænting

"Ég áttaði mig ekki á hve fáfræðin er gríðarlega mikil og almenn fyrr en ég fór að vinna við teenwire.com þar sem ég svaraði spurningum unglinga um kynlíf. Mér finnst skelfilegt hve margir þeirra stunda kynlíf án þess að hafa hugmynd um grundvallaratriði eins og aðgengilegar getnaðarvarnir fyrir ungmenni og áhættukynlíf með tilliti til getnaðar og smitsjúkdóma," segir Yvonne Kristín. Mest fer þó fyrir brjóstið á henni hvernig bandarískir strákar eru aldir upp í að umgangast kvenþjóðina og allt það sem ungt fólk lætur yfir sig ganga í samböndum. Miðað við spurningar, sem ungir karlar beina til hennar, er eins og mörgum finnist þeir hafa eignarrétt á líkama kærustunnar og spurningar ungu kvennanna benda sömuleiðis til að þær láti kærastana ráða yfir sér. Til marks um undirlægjuháttinn les Yvonne Kristín brot úr bréfi frá ungri konu: "Ég þarf að fara til kvensjúkdómafræðings, en kærasti minn leyfir mér það ekki af því hann vill ekki að neinn sjái mig "þarna niðri.""

"Hér ríkir mikil örvænting hjá þeim sem ekki eru í ástarsamböndum. Gríðarleg áhersla er á að koma sér upp kærasta eða kærustu til þess að verða "whole", eða heil/l eins og það er kallað. Margir vilja frekar vera í óheilbrigðum og oft ofbeldisfullum samböndum heldur en að vera einir. Af iðnríkjum heims eru Bandaríkin með hæstu tíðni kynferðisglæpa. Bara sú staðreynd sýnir að brýn þörf er á að taka uppeldi stráka til gagngerrar endurskoðunnar, kenna þeim meðal annars, að karlmennska felst líka í því að vera herramenn."

Í tengslum við doktorsritgerðina hefur Yvonne Kristín lesið sér svolítið til um kynlífshegðun íslenskra ungmenna. Hún kveðst hafa orðið fyrir vonbrigðum með að æ yngri krakkar virtust stunda kynlíf og að ekki væri staðið eins vel að kynfræðslu í skólum og kynheilsugæslu unglinga á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum. "Ég hef alltaf trúað því að allt sé svo miklu betra heima á Íslandi, sem oftast er raunin. Vonandi eru íslensk ungmenni þó betur upplýst um kynlíf en jafnaldrar þeirra í Bandaríkjunum."

Bandaríkjaforseti og skírlífið

Einnig vonar hún að Íslendingar falli ekki í þá gryfju að taka sér Bandaríkin frekar en Norðurlöndin til fyrirmyndar í kynfræðslu. Þótt ástandið í þeim efnum hafi alltaf verið slæmt segir hún það fara hríðversnandi og helgist einkum af því að kynfræðsla sé pólitísk ákvörðun. "Algjör tímaskekkja," fullyrðir hún og útskýrir nánar: "Ríkisstjórnin er að fjármagna svokallaða "aðeins skírlífi"-kynfræðslu í skólum. Þar er lítið sem ekkert gert ráð fyrir fræðslu um getnaðarvarnir, áhersla er lögð á skírlífi fyrir hjónaband og ekki er tekið tillit til annarra en gagnkynhneigðra ungmenna. Bush forseti er mikill málsvari þessarar áætlunar og reynir stöðugt að auka fjárframlögin. Á meðan hann er í Hvíta húsinu verða varla gerðar breytingar til batnaðar. Ungt fólk mun áfram líða fyrir slæma reynslu af kynlífi vegna skorts á fræðslu og aðgengi að þjónustu."

Spurð um skynsamlegar leiðir í kynfræðslu og hvað einkum vanti í umræðuna, svarar hún: "Það verður að tala opinskátt og tæpitungulaust um allt; kynheilsu, kynlíf á öllum aldursskeiðum, kynlíf í menningunni og margt fleira. Eina leiðin til þess að svo megi verða er almennileg kynfræðsla, sem hæfist í leikskóla og spannaði öll skólaárin. Ákjósanlegast væri að börn fengju líka fræðslu heima hjá sér og því þyrfti að kenna foreldrum að tala við börn sín um kynlíf og fjölskyldugildi."

Furðulegar þversagnir

Samkvæmt lýsingum Yvonne Kristínar er ekki örgrannt um að Bandaríkjamenn séu í senn afturhaldssamir og héralegir í viðhorfum sínum til kynlífs. En gegnir sama máli hjá íbúum stórborga og annars staðar?

"Oft finnst mér eins og fólk skiptist í tvo hópa og hvorugir kunni sér hóf. Þjóðfélagið býður ekki upp á vettvang fyrir skemmtilegar, upplýsandi og þroskandi umræður um kynlíf. Þeir sem hæst hafa eru annars vegar þeir íhaldssömu með Biblíuna í beltisstað, sem prédika að kynlíf sé sóðalegt og vilja ekki heyra á það minnst. Hins vegar þeir sem hafa sýniþörf og ögra meintu tabúi með opinskáum frásögnum af kynlífsævintýrum sínum.

Í miðvesturríkjunum eru viðhorfin miklu afturhaldssamari en hjá íbúum í Kaliforníu eða New York og almennt eru borgarbúar með frjálslegri viðhorf en þeir sem búa í dreifbýlinu. Líkt og aðrar þjóðir eru Bandaríkjamenn þó yfirleitt sammála um að kynlíf sé einkamál. Að einu leyti skera þeir sig þó frá öðrum siðmenntuðum þjóðum því í stað þess að skipta sér ekki af því sem þeim kemur ekki við eru þeir alltaf að segja þér hvað þú átt að gera í þínu eigin rúmi."

Sú mynd, sem dregin er upp í sjónvarpsþáttunum Beðmálum í borginni, er kveikjan að næstu spurningu. Endurspegla Carrie Bradshaw og vinkonur hennar líf einhleypra kvenna í New York? (þær stöllur hafa sér helst til dundurs að sitja á kaffihúsum og tala um kynlíf, rápa á milli tískubúða, sækja hanastél út og suður og komast á séns). "Vandamálin og örvæntingin eru að mörgu leyti svipuð," svarar Yvonne Kristín og útskýrir nánar: "Hér glíma konur við karla, sem þola ekki starfsframa þeirra og skilja ekki að þær geti notið kynlífs einungis kynlífsins vegna. Þótt þættirnir séu umdeildir og sumir karlar stimpli persónurnar sem "druslur" og þeim sé óskiljanlegt hvers vegna þeir eru svona vinsælir hjá konum, eru aðrir sem telja sig geta lært ýmislegt af þeim um konur. Konur eru aftur á móti orðnar sér meira meðvitandi um frelsið sem þær hafa. Ég efast þó um að þættirnir hafi breytt einhverju um hvernig þær haga sér á stefnumótum eða í kynlífi, sofi til dæmis hjá út um allt eins og Samantha."

Og þá liggur beint við að spyrja hvort þessar furðulegu þversagnir í þjóðlífinu hafi verið kveikjan að pistlum hennar í skólablaðinu?

"Bæði og," svarar Yvonne Kristín, "mér fannst þetta góð leið til að miðla upplýsingum og fara jafnframt ofan í saumana á ýmsum goðsögnum og leiðrétta ranghugmyndir. Svo reikna ég líka með að bókin mín seljist betur ef nemendur New York-háskóla þekkja nafn höfundarins."

Tískubylgju hrundið af stað

Yvonne Kristín nefnir nokkrar ástæður þess að pistlar hennar hafa vakið þjóðarathygli. Í fyrsta lagi séu þeir í spurningar-og-svör stílnum, sem ekki eigi sér hliðstæðu í öðrum skólablöðum. Pistlarnir byggist á raunverulegum spurningum nemenda, sem hún svari tæpitungulaust af einlægni og fullri alvöru, gagnstætt höfundum hátt í annars tugs kynlífspistla í skólablöðum, sem hafa skemmtanagildið í hávegum. "Ég er sú eina þeirra sem er sérfræðingur á þessu sviði, en fjölmiðlar hnykkja gjarnan á þeirri staðreynd, enda hafa sumir pistlahöfundarnir orðið uppvísir að ábyrgðarlausri umfjöllun. Fólk gerir í auknum mæli kröfur til þess að fjallað sé um kynferðismál af þekkingu og ábyrgð," segir hún.

Þann skyndilega áhuga, sem fjölmiðlar sýndu kynlífsumfjöllun hennar á liðnu ári, rekur Yvonne Kristín einnig til vinsælda sjónvarpsþáttanna Beðmála í borginni og stöðugrar viðleitni til að búa til "trend" eða tískubylgju. Í kjölfarið hefur fólk á öllum aldri alls staðar í Bandaríkjunum og Kanada leitað ráða hjá henni.

"Ég fæ spurningar af öllu mögulegu tagi og svara þeim öllum. Þeim sem ég hef áður svarað á síðum blaðsins, eða snúast um eitthvað sem háskólanemar hafa ekki áhuga á, til dæmis kynlíf eftir fæðingu og þess háttar, svara ég persónulega. Annars á ég mjög dyggan lesendahóp og því er lítið um að ég fái sömu spurningarnar aftur og aftur."

Er fólk eðlilegt?

Yvonne Kristín er treg að gefa upp skrítnustu spurninguna, sem hún hefur fengið. Kveðst líka forðast skilgreiningar eins og afbrigðilegur eða fáránlegur í þessu samhengi. Með slíku væri hún að setja sig í dómarasæti og vekja vantraust hjá þeim sem tryðu henni fyrir áhyggjum sínum. "Ein ástæðan fyrir óöryggi margra er einmitt sú að þeir óttast viðbrögð annarra og þora því aldrei að spyrja," segir hún og upplýsir að undirtónn flestra spurninga sé: "Er ég eðlileg/ur?"

Ekki er víst að lesendur The Hot Guide to Safer Sex fái endilega svör við þeirri spurningu, enda má ætla að viðmiðin, ef einhver eru, orki tvímælis. Um tildrög bókarskrifanna segir Yvonne Kristín: "Eftir að ég lauk meistaraprófi í kynlífsfræðum var ég í atvinnuleit. Ég sótti um vinnu við að skrifa kynlífspistla fyrir vinsæl tímarit, en varð lítt ágengt. Kvöld eitt hringdi þó ritstjóri "W" Magazine í mig. Hún sagðist daglega fá til sín fólk sem vildi skrifa slíka pistla, en ég væri sú fyrsta sem hún teldi að hefði eitthvað fram að færa. "Ef þú ætlar að komast áfram í þessum bransa, skrifaðu bók og láttu gefa hana út," ráðlagði hún.

Ég hafði alltaf hugsað mér að skrifa bók - seinna, ekki þegar ég væri aðeins tuttugu og þriggja ára. Samt sem áður fór ég daginn eftir út í bókabúð, sá að skortur var á bókum um öruggt kynlíf og ákvað að bæta úr því."

Ráð um öruggt kynlíf í farteskinu

Ekki stendur á svari þegar Yvonne Kristín er spurð hvað hún hafi helst fram að færa í bók sinni: "Miklu meira en bara hvernig eigi að nota smokka. Ég innræti fólki að öruggt kynlíf sé ekki leiðinlegt kynlíf, en margir setja samasemmerki þar á milli. Þvert á móti getur það verið mjög erótískt. Fólk áttar sig ekki á að ávinningurinn er miklu meiri heldur en bara að fyrirbyggja getnað og smitsjúkdóma og möguleikarnir eru óþrjótandi."

Yvonne Kristín hyggst hafa bókina í farteskinu og kynna hana fyrir landanum í Íslandsferð sinni síðar á árinu. Frá því hún fluttist héðan hefur hún haldið miklu sambandi við ættingja sína og margoft komið í heimsókn, stundum í nokkra daga, stundum í marga mánuði og þá m.a. verið barnapía hjá Eydísi, frænku sinni. Eitt sumarið vann hún líka hjá dr. Eiríki Erni Arnarsyni á geðdeild Landspítalans - háskólasjúkrahúss. "Ég hyggst gera eigindlega rannsókn fyrir doktorsritgerðina á Íslandi á næsta ári. "Hver er reynsla íslenskra kvenna á þrítugsaldri af mæðrum sínum sem kynfræðurum?" verður uppistaðan í þeirri vinnu."

Þangað til verður daglegt líf hennar í New York í svipuðum takti og verið hefur. "Lítill frítími, eilíf hlaup, endalaus lærdómur, kennsla og fullt af öðrum verkefnum," segir hún án þess að vera að kvarta. Hún segist vera ákafamanneskja í öllu sem hún taki sér fyrir hendur, vinnan sé skemmtileg og hreint ekkert streð í sínum augum. Þrátt fyrir annir stundar hún reglulega jóga, syndir og hittir annað slagið vini sína, einkum Íslendinga búsetta í borginni, yfir kvöldsnarli eða kaffibolla.

vjon@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.