LÍFSLÍKUR fyrirbura sem eru undir einu kílói við fæðingu, eða fjórum mörkum, hafa aukist mjög undanfarin ár. Þessar niðurstöður koma fram í nýrri skýrslu rannsóknar um þetta efni sem unnin var af hópi íslenskra sérfræðinga.

LÍFSLÍKUR fyrirbura sem eru undir einu kílói við fæðingu, eða fjórum mörkum, hafa aukist mjög undanfarin ár. Þessar niðurstöður koma fram í nýrri skýrslu rannsóknar um þetta efni sem unnin var af hópi íslenskra sérfræðinga. Niðurstöðurnar eru birtar í nýju hefti Læknablaðsins.

Rannsóknin náði annars vegar til barna sem fæddust árin 1982 til 1990, og vógu innan við 1 kg við fæðingu, og hins vegar barna sem fæddust árin 1991 til 1995, bæði þau sem vógu innan við 1 kg og fullburða börn sem heilbrigð samanburðarbörn. Um 1990 varð notkun lungnablöðruseytis almenn, en það hjálpar til við þroska lungna barnanna. Leitað var upplýsinga um meðgöngu, fæðingu, sjúkdóma á nýburatíma og síðari heilsufarsvandamál samkvæmt sjúkraskrám.

Greinilega auknar lífslíkur

Um fimmtungur fyrirbura sem fæddust 1982 til 1990 lifði við 5 ára aldur, en rúmur helmingur fyrirbura sem fæddust 1991 til 1995 var á lífi við 5 ára aldur. Hóparnir voru svipaðir hvað varðar heilsufar á meðgöngu, fæðingu og sjúkdóma eftir meðgöngu. Sömuleiðis var hlutfall barna með fötlun svipað á báðum tímabilum.

Í rannsókninni má sjá ýmsar áhugaverðar samanburðartölur. Þar má nefna að 37% mæðra fyrirburanna á fyrra tímabili, og 46% mæðra á því seinna reyktu á meðgöngu. Hins vegar reyktu aðeins 13% mæðra barna sem fæddust fullburða.

Við fimm ára aldur reyndust flestir fyrirburanna vera komnir yfir heilsufarsvanda fystu æviáranna. Hins vegar var marktækur munur milli fyrirbura og fullburða barna hvað varðar tíðni asma, krampa og næringarerfiðleika hjá fyrirburum.

Í skýrslunni er lagt til, að fylgst sé lengur með vexti og þroska fyrirbura, þar sem auðsýnt sé að margir þeirra glími við langvinnan heilsuvanda og þroskaröskun.