Svisslendingurinn Roger Federer sigraði örugglega í einliðaleik á Wimbledon í gær.
Svisslendingurinn Roger Federer sigraði örugglega í einliðaleik á Wimbledon í gær.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ROGER Federer varð í gær fyrsti Svisslendingurinn til þess að sigra á Wimbledon-mótinu í einliðaleik karla. Í kvennaflokki sigraði Serena Williams systur sína Venus. Serena hefur nú sigrað á fimm af síðustu sex stórmótum. Hvorugur úrslitaleikjanna náði að verða spennandi og sigrar Rogers og Serenu voru aldrei í hættu.
Hinn 21 árs gamli Federer sem var að vinna sitt fyrsta stórmót sigraði Ástralann Mark Philippoussis. Federer sigraði öll þrjú settin, 7:6, 6:2 og 7:6. Federer var sigurreifur í leikslok: "Þetta er algjör draumur. Sem krakki grínaðist ég með að ég myndi einn daginn sigra á Wimbledon-mótinu. Sigurinn er ótrúlegur heiður og ég held að ég hafi leikið tvo bestu leiki ævi minnar í undanúrslitunum og í úrslitunum. Þetta var sérstaklega skemmtilegt því fjölskylda mín og vinir lögðu leið sína hingað og það er frábært að geta fagnað þessum sigri með þeim."

Mark Philippoussis bar sig vel þrátt fyrir tap. "Roger var of góður í dag og ég vil óska honum til hamingju. Hann var betri en ég á öllum sviðum leiksins. En ég er stoltur af frammistöðu minni og ég sný aftur að ári enn öflugri en ég var í þetta sinn."

Uppgangur Federers hefur verið ótrúlegur að undanförnu. Wimbledon-mótið er það fimmta sem hann sigrar á í ár. Fyrir ári lést þjálfari Federers í bílslysi og í kjölfarið hrapaði kappinn á heimslistanum en eftir að hafa náð að jafna sig á fráfalli gamla þjálfarans hefur nánst ekkert stöðvað Svisslendinginn unga.

Bandarísku Williams-systurnar mættust í úrslitaleik í einliðaleik kvenna á Wimbledon-mótinu annað árið í röð á laugardag og aftur hafði Serena vinninginn. Serena sigraði í þremur settum, 4:6, 6:4 og 6:2. Venus átti við meiðsli í læri og magafestingum að stríða og fóru þau að trufla hana í síðasta settinu. Sigur Serenu var aldrei í hættu þótt hún hafi ekki leikið vel að mati sérfróðra. Að leik loknum hrósaði Serena systur sinni fyrir góðan leik. "Ég vissi að leikurinn yrði erfiður þrátt fyrir að hún væri meidd. Venus er mikill harðjaxl. Við ræddum ekkert um meiðsli hennar fyrir leik en hún sagði mér þó að hún ætlaði ekki að láta neitt stöðva sig. Á heildina litið lék Venus best á mótinu en ég er hæstánægð með að hafa náð að sigra."

Venus Williams sagði að leik loknum að hefði ekki verið um að ræða úrslitaleik í Wimbledon hefði hún aldrei spilað sökum meiðsla. "Það hefði orðið mjög leiðinlegt ef það hefði þurft að fresta leiknum. En ég fór að finna virkilega fyrir meiðslunum þegar á leikinn leið, ég gat hvorki hlaupið hratt né slegið fast. Það er leiðinlegt að svona hafi farið því ég fann mig mjög vel í öllu mótinu. Nú ætla ég að taka mér smáfrí og ná mér af meiðslum mínum og mæta sterk til leiks á Opna bandaríska mótið."

Serena fagnaði sigrinum mjög en hún missti af sigri í Opna franska meistaramótinu í síðasta mánuði. Það er eina stórmótið af síðustu sex sem hún hefur ekki unnið.

Serena er í efsta sæti alþjóðaheimslistans en mun væntanlega ekki halda því lengi því hún leikur ekki í eins mörgum mótum og belgísku stelpurnar, Justine Henin- Hardenne og Kim Clijsters. "Þær belgísku taka þátt í öllum mótum og ná því að safna mun fleiri stigum en við systurnar. Ég skil ekki hvernig þær geta leikið á öllum þessum mótum því að líkami minn leyfir mér ekki að keppa um hverja helgi," sagði Serena Williams Wimbledon-meistari á laugardag.