Evrópa verður ekki fremst í forgangsröðinni takist Rússum að koma á og viðhalda sérstökum tengslum við Bandaríkin, segir greinarhöfundur m.a. Hér má sjá þá Vladimír Pútín Rússlandsforseta og George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, aka um búgarð þess síðarne
Evrópa verður ekki fremst í forgangsröðinni takist Rússum að koma á og viðhalda sérstökum tengslum við Bandaríkin, segir greinarhöfundur m.a. Hér má sjá þá Vladimír Pútín Rússlandsforseta og George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, aka um búgarð þess síðarne
INNRÁSIN í Írak undir forystu Bandaríkjanna hefur vakið spurningar um framtíð alþjóðlega skipulagsins sem við búum við. Þótt Bandaríkin nái sennilega ekki öllum markmiðum sínum í Írak hefur stríðið staðfest og aukið yfirburði þeirra í heiminum.
INNRÁSIN í Írak undir forystu Bandaríkjanna hefur vakið spurningar um framtíð alþjóðlega skipulagsins sem við búum við. Þótt Bandaríkin nái sennilega ekki öllum markmiðum sínum í Írak hefur stríðið staðfest og aukið yfirburði þeirra í heiminum. Hvernig eiga Rússar að bregðast við því? Hvar liggja hagsmunir þeirra og hvers konar stefnu eiga ráðamennirnir í Moskvu að móta? Og hvaða afstöðu eiga Rússar að taka í togstreitunni sem hafin er milli Evrópu og Bandaríkjanna?

Íraksmálið leiddi í ljós djúpstæðan ágreining milli Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu í málefnum sem varða pólitíska menningu og siðfræði. Deilt er um hvernig taka eigi á vandamálum sem steðja að heiminum og hvenær beita eigi hervaldi. Varla verða þessar deilur bandalaginu yfir Atlantshafið, sem byggist á sameiginlegum gildum og hagsmunum, að falli. En óhjákvæmilegt er að þær auki samkeppnina milli Evrópu og Bandaríkjanna, meðal annars samkeppnina um Rússland.

Stríðið í Írak afhjúpaði óeininguna sem ríkir um stefnu Evrópusambandsins í utanríkis- og varnarmálum. Tilraunirnar til að móta sameiginlega stefnu ESB hafa augljóslega misheppnast. Í ljósi jafnvel enn meiri ágreinings í kjölfar stækkunar Evrópusambandsins er ólíklegt að þessar tilraunir takist í náinni framtíð. Auk þess er líklegt að Bandaríkin hindri viðleitnina til að koma á sameiginlegri stefnu ESB-ríkjanna í utanríkis- og varnarmálum þegar togstreitan magnast. Án slíkrar sameiginlegrar stefnu verða Evrópusambandið og stærstu aðildarríki þess áfram í annarri deild pólitísku heimsleikanna í fyrirsjáanlegri framtíð.

Þegar þetta er haft í huga er ljóst að það voru mistök af hálfu Rússa að taka svo einarða afstöðu með Frökkum og Þjóðverjum gegn Bandaríkjamönnum. Þetta var ekki eins slæmt og á tímum Sovétríkjanna þegar við snerumst yfirleitt á sveif með þriðja heiminum gegn Bandaríkjunum og Evrópu, en það þjónaði samt ekki langtímahagsmunum Rússlands.

Að hætti de Gaulle höfðu Frakkar það að markmiði að auka eigin virðingu í heiminum með því að koma höggi á Bandaríkin og jafnvel auðmýkja þau. Kanslari Þýskalands hafði ekki heldur evrópsk markmið að leiðarljósi en lagðist gegn stríðinu til að greiða úr eigin vandamálum heima fyrir - veikri stöðu stjórnar sinnar - og höfða til friðarhyggju þorra Þjóðverja.

Viðleitnin til að viðhalda leifum mikilleikans kann að vera verðugt verkefni; Frakkland er auðugra ríki en Rússland og hefur ef til efni á því að setja sér slík markmið. En vilja Rússar virkilega fullnægja hégómagirndinni á kostnað langtímahagsmuna sinna þegar efnahagurinn er í kaldakoli? Rússneskir ráðamenn þurfa ekki heldur að koma til móts við friðarsinna heima fyrir þegar þeir móta stefnu sína þar sem friðarhreyfingar fyrirfinnast varla í Rússlandi.

Eitt af markmiðum utanríkisstefnu Evrópuríkjanna hefur alltaf verið að koma í veg fyrir að Bandaríkin og Rússland sættist heilum sáttum og tengist of sterkum vináttuböndum. Góð tengsl milli Bandaríkjanna og Rússlands geta hins vegar eflt bæði ríkin, einkum Rússland. Sumir Rússar - þeir sem aðhyllast hefðbundna rússneska vinstrihyggju og spilltir embættismenn sem óttast opnara stjórnkerfi - nota hvert tækifæri til að hrakyrða Bandaríkin. En stefna sem byggist á andúð á Bandaríkjunum er ekki skynsamleg fyrir Rússland, sem getur aðeins hagnast á bandalagi við voldugasta ríki heims.

Auðvitað skipta góð tengsl við Evrópuríkin miklu máli fyrir Rússland, einkum á sviði efnahagsmála og almennra samskipta. Rússar hafa einnig hag af samstarfi í utanríkismálum við stærstu lönd Evrópusambandsins. Bandalag við Evrópusambandið í utanríkis- og öryggismálum er hins vegar hvorki raunhæfur né vænlegur kostur. Líklegast er að Evrópa haldi áfram að veikjast, fremur en styrkjast, á þessu sviði. Þess vegna verður Evrópa ekki fremst í forgangsröðinni takist Rússum að koma á og viðhalda sérstökum tengslum við Bandaríkin.

Rússar geta einnig gegnt því hlutverki að miðla málum í hinum ýmsu deilum milli Bandaríkjanna og Evrópu. Rússar henta augljóslega betur í þetta hlutverk en til dæmis Pólverjar sem hafa reynt að gegna því. Þá geta Rússar ef til vill gegnt svipuðu hlutverki hvað Kína og Indland áhrærir og ættu að reyna að styrkja tengsl sín við þau lönd eins og kostur er.

En náin tengsl við Bandaríkin þýða ekki að Rússar þurfi að vanrækja eigin hagsmuni, pólitíska og efnahagslega. Hvað varðar Írak, til dæmis, ættu Rússar að taka virkan þátt í endurreisn landsins þótt ekki hafi enn verið óskað eftir því. En þótt Rússar styðji nýja stjórn Íraks ættu þeir ekki að rjúfa tengslin við hófsama menn í Baath-flokknum, fyrirfinnist þau enn, þar sem hugsanlegt er að margir þeirra komist aftur til áhrifa. Þegar öllu er á botninn hvolft geta fáir aðrir tekið við völdunum í Írak, líkt og í Rússlandi eftir 1991 þegar aðeins kommúnistar voru í yfirstéttinni.

Gefist færi til þess ættu Rússar að taka þátt í því að koma á friði í Írak og endurreisa landið, fremur en bregða fæti fyrir Bandaríkjastjórn. Ólíkt Kosovo, þar sem Rússar hafa ekki mikilla hagsmuna að gæta og ættu að draga sig út úr friðargæslunni, er mikið í veði fyrir Rússa í Írak. Við þurfum að vernda hagsmuni okkar, einkum þá efnahagslegu: heimta skuld Íraka við Rússland, tryggja að staðið verði við gerða samninga um nýtingu olíulinda og að Rússar fái að taka þátt í byggingaframkvæmdum.

Í heimsmálunum almennt þurfa Rússar að spila út olíutrompinu sem hefur reynst þeim vel á alþjóðavettvangi, einkum í ljósi óstöðugleikans í Mið-Austurlöndum. Rússar munu hafa miklar tekjur af olíu í marga áratugi og geta einnig gegnt því hlutverki að tryggja stöðugleika í orkumálum sem verður mikilvægt til að viðhalda friði í heiminum. Skynsamleg nýting olíuauðlindanna leggur ekki aðeins grunn að varanlegri hagsæld í Rússlandi heldur eykur hún einnig áhrif landsins á alþjóðavettvangi.

Eftir Sergei Karaganov

Sergei Karaganov er formaður Utanríkis- og varnarmálaráðs Rússlands.