Þátttaka í Landsmótinu var góð og var hjólaröðin í hlaðinu á Njálsbúð mikilfengleg.
Þátttaka í Landsmótinu var góð og var hjólaröðin í hlaðinu á Njálsbúð mikilfengleg.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á ÞRIÐJA hundrað Sniglar komu saman á nítjánda landsmóti Bifhjólasamtaka lýðveldisins í Njálsbúð um helgina.
Á ÞRIÐJA hundrað Sniglar komu saman á nítjánda landsmóti Bifhjólasamtaka lýðveldisins í Njálsbúð um helgina. Fór mótið afar vel fram og þrátt fyrir suddaveður fór vel á með mönnum og mikil ánægja var með mótið þar sem Sniglarnir skemmtu sér í mesta bróðerni. Voru fákar þandir og var þarna saman kominn mikill fjöldi ólíkra mótorhjóla.

Landsmótið hófst á fimmtudag með óformlegum hætti með söngskemmtun þar sem Bjarni Tryggvason farandsöngvari skemmti.

Á föstudagskvöldið var boðið upp á kraftmikla fiskisúpu sem soðin var í heimatilbúnum 600 lítra súpupotti. Á laugardeginum var síðan keppt í ýmsum íþróttagreinum Snigla, þar á meðal "Snigli" þar sem keppst var um að aka hjólunum sem hægast. Einnig var keppt í reiptogi, þrífæti, tunnuveltu og hjólböruralli svo lítið eitt sé nefnt. Voru fagnaðarlætin mikil þegar Einar "Hestur" Rúnarsson, tónlistarmaður var krýndur Snigill ársins eftir gríðarlega tilburði í hægakstri. Fékk hann að verðlaunum forláta merktan bikar til eignar.

Bæði á föstudags- og laugardagskvöld voru dansleikir og skemmtu Sniglarnir sér fram undir morgun við undirleik hljómsveitanna Exizt og Moonboots, auk þess sem hljómsveitin Brain Police hélt tónleika á laugardagskvöldinu.

Slasaðist í dansi

Einn maður slasaðist á lokadansleik landsmótsins þegar hann brá á léttan leik, en féll illa á dansgólfið. Hann var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild Landspítalans - háskólasjúkrahúss (LSH) í Fossvogi.

Að sögn vakthafandi læknis á bæklunardeild hryggbrotnaði maðurinn við fallið. Betur fór þó en á horfðist og er líðan hans góð eftir atvikum og standa vonir til að hann nái sér að fullu. Að öðru leyti var lítið um meiðsl, en þó mátti sjá nokkra plástra á mönnum eftir akstursíþróttakeppni á laugardeginum.

Að sögn Axels Cortes í landsmótsnefnd Snigla fór mótið að öðru leyti slysalaust fram og fólk skemmti sér konunglega í veðurblíðunni sem var á fimmtudag og föstudag og lét síðan laugardagssuddann ekki bíta á sér. "Böllin voru stórgóð bæði kvöldin og mikið stuð á fólki, við dönsuðum fram eftir nóttu í hinu besta skapi. Fólk flykktist að úr öllum landshornum sem og frá útlöndum."

Sniglarnir hafa frá upphafi unnið að því markmiði að bæta öryggi ungra vélhjólaökumanna í umferðinni, meðal annars með því að brýna fyrir ungum knöpum nauðsyn hjálma og leðurgalla við akstur vélhjóla. Hafa Sniglar auk þess ætíð barist hart gegn ölvunarakstri og gerðu meðal annars gríðarlegt landsátak árið 1992 sem skilaði miklum árangri í forvörnum.