Dóra Sína Jónsdóttir fæddist í Hafnarfirði hinn 28. júlí 1931. Hún andaðist á sjúkrahúsi í Rønne á Borgundarhólmi í Danmörku hinn 23. júní síðastliðinn. Hún var dóttir hjónanna Vilborgar Sigurrósar Þórðardóttur, húsmóður í Reykjavík, f. 19. maí 1909, d. 19. apríl 1997, og Jóns Pálssonar, bókbandsmeistara og síðar tómstundaráðunautar Reykjavíkurborgar, f. 23. apríl 1908, d. 22. ágúst 1979. Systur Dóru eru Edda Björg, f. 4. maí 1938, og Ragna Kristín, f. 12. nóv. 1945.

Dóra var gift Magnúsi Magnússyni, f. 24. mars 1927, d. 22. apríl 2001. Börn þeirra eru: 1) Erna, f. 14. júlí 1952, eiginmaður hennar er Ivar Espersen, f. 29. janúar 1951, og eiga þau tvö börn og eitt barnabarn. 2) Þór, f. 6. ágúst 1953, eiginkona hans er Svanhvít Ásmundsdóttir, f. 1. desember 1958, og eiga þau þrjú börn og þrjú barnabörn. 3) Rut, f. 7. júní 1956, eiginmaður hennar er Smári Magnússon, f. 29. des. 1953, og eiga þau þrjú börn og fjögur barnabörn. 4) Óðinn, f. 20. febrúar 1963, eiginkona hans er Agnieszka Szejnik, f. 10. ágúst 1974. Óðinn á fimm börn.

Dóra fæddist í Hafnarfirði en fluttist með fjölskyldu sinni vestur í Súðavík þar sem þau bjuggu í nokkur ár en síðan til Reykjavíkur. Eftir að hún gifti sig bjuggu þau hjón lengst af í Smáíbúðahverfinu. Árið 1984 fór Dóra ásamt manni sínum í siglingu á eigin skútu kringum hnöttinn en það ferðalag tók um sex ár samfellt. Síðustu árin bjó hún á Borgundarhólmi í Danmörku. Dóra hafði frá ungum aldri mikinn áhuga á aðhlynningarstörfum og hóf ung nám við hjúkrun. Hún lauk þó ekki námi því að hjónaband og barneignir urðu hlutskipti hennar næstu árin. Mörgum árum síðar tók hún upp þráðinn og kláraði sjúkraliðanám og starfaði við það í nokkur ár á Borgarspítalanum í Fossvogi.

Bálför Dóru fór fram á Borgundarhólmi en kveðjuathöfn verður í Bústaðakirkju í dag og hefst hún klukkan 13.30.

Elsku amma mín, ég kveð þig með söknuði. Núna þegar þú ert farin þá rifjast upp fyrir mér allar stundirnar sem við áttum saman. Áður en þið afi fóruð í siglinguna þá komum við oft í heimsókn í Hvammsgerðið þar sem þið bjugguð, og þó að ég hafi nú verið ung þá man ég svo vel eftir öllu, sérstaklega eru mér þó minnisstæð eldhúsáhöldin sem héngu fyrir ofan eldavélina þína og þú leyfðir mér alltaf að smakka í þykjustunni úr þeim öllum í hvert skipti sem ég kom. Þið áttuð stóran og fallegan garð með mikið af blómum sem mátti meira að segja tína og setja í vasa.

Þegar þið fóruð svo af stað í siglinguna hittumst við ekki oft, en alltaf mundir þú eftir afmælum barnanna þinna og afmælisdagurinn var aldrei liðinn án þess að það væri komið kort frá ykkur hvaðan sem var úr heiminum. Það var alltaf svo gaman að eiga ömmu og afa sem voru á siglingu um heiminn á skútu og ekki var það verra að skútan hét Dóra eins og við. Eftir siglinguna settust þið svo að á Borgundarhólmi og ég get ekki lýst því hvað ég er ánægð að hafa heimsótt þig sl. sumar með fjölskylduna mína og séð fallega húsið þitt og stóra garðinn, en þú hafðir yndi af gróðri og dýralífi.

Elsku amma, það var gaman að fá þig í heimsókn um jólin, ekki grunaði mig þá að það væri síðasta skiptið sem ég myndi hitta þig en svona er bara lífsins gangur. Núna ertu komin til afa sem þú saknaðir svo mikið og ég veit að þið eruð í góðum höndum.

Elsku amma mín, þú verður ávallt í minningunni.

Þín

Dóra Þórsdóttir.

Elsku amma.

Ég leit ávallt upp til þín og var alltaf mjög stolt af ykkur afa og hnattsiglingu ykkar á skútunni Dóru. Ég man vel þegar þið komuð til Íslands og bjugguð í skútunni, ég heimsótti ykkur á hverjum degi og fékk að heyra margar sögur frá þessum stóra heimi. Við skoðuðum margar fallegar skeljar, sem hver og ein hafði sína sögu. Oft fórum við í langar göngur um Elliðaárdalinn, eitt sinn kenndir þú mér að gera englakrans úr blómum sem ég á eftir að kenna dóttur minni. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið að vera hjá þér í fyrrasumar, með fjölskyldu mína, og Val og Dawn fengu að kynnast þér. Elsku amma mín, ég mun alltaf geyma minningu þína í hjarta mér.

Ég heyrði Jesú himneskt orð:

"Kom, hvíld ég veiti þér.

Þitt hjarta' er mætt og höfuð þreytt,

því halla' að brjósti mér."

Ég heyrði Jesú ástarorð:

"Kom, eg mun gefa þér

að drekka þyrstum lífs af lind,

þitt líf í veði er."

Ég leit til Jesú, ljós mér skein,

það ljós er nú mín sól,

er lýsir mér um dauðans dal,

að Drottins náðarstól.

(Stefán Thorarensen.)

Hulda Þórsdóttir, Oxford.

Um sumarsólstöður þegar íslensk náttúra skartar sínu fegursta kvaddi elskuleg systir mín Dóra Sína þennan heim, fjarri fósturlandinu sem hún unni svo heitt þrátt fyrir langa fjarveru erlendis.

Þegar ástvinur deyr hrannast minningarnar upp og maður reynir að fanga allt lífshlaupið á augnabliki. Dóra eða Dússý systir eins og ég kallaði hana ávallt var sjö árum eldri en ég, stóra systir sem ég bar takmarkalausa virðingu fyrir, mér fannst hún alltaf svo falleg og skynsöm. Hún bar mig á höndum sér og talaði oft um hve stolt hún hefði verið þegar hún sjö ára eignaðist systur. Við ólumst upp vestur við Ísafjarðardjúp þar til hún var 12 ára að við fluttum á stríðsárunum til Reykjavíkur. Þar var ekki ónýtt að hafa stóru systur til verndar þar sem hermenn og skriðdrekar sáust á götum.

Ég man Dússý sem hægláta og prúða en með ákveðnar skoðanir á hlutunum. Hún var dugleg í skóla og hafði frá barnæsku ætlað sér að verða hjúkrunarkona og eftir gagnfræðapróf hóf hún nám í Hjúkrunarskóla Íslands. Örlögin höfðu hins vegar valið henni aðra leið. Á Jónsmessuhátíð á Þingvöllum hitti hún Magnús lífsförunaut sinn. Þau eignuðust Ernu dóttur sína sumarið 1952 og síðan bættust við með stuttu millibili Þór, Rut og Óðinn. Hún valdi því að helga sig heimili og börnum. Þegar börnin voru orðin stálpuð fór hún í sjúkraliðanám og vann við þau störf á Borgarspítalanum árum saman. Ég man að ég spurði hana að því hvers vegna hún lyki ekki heldur hjúkrunarnáminu, hún svaraði mér því til að hana langaði bara til að hjúkra fólki, ekki vinna pappírsvinnu. Á þessum tíma var hún oft mjög þjáð í baki, aldrei kvartaði hún enda var það ekki hennar "stíll", hún vildi aldrei láta nokkurn mann vorkenna sér.

Dússý og Maggi voru samrýmd hjón og höfðu lengi haft siglingar sem áhugamál. Þau höfðu tekið þá ákvörðun að kaupa sér skútu og sigla um heiminn þegar börnin væru flutt að heiman. Þann draum létu þau rætast haustið 1984 er þau héldu af stað frá Reykjavík á fallegu skútunni sinni, "Dóru". Hringnum lokuðu þau svo í Reykjavíkurhöfn í byrjun júní 1990. Svona ferðir fara ekki nema hetjur, áhyggjur okkar hér heima voru oft miklar en þegar yndislegu bréfin hennar Dússýjar bárust hurfu áhyggjur út í veður og vind. Hún átti einstaklega gott með að skrifa og nú eru öll bréfin og sjóbækurnar þeirra mikill fjársjóður.

Dússý var mikið náttúrubarn og á ferðum sínum innan lands og utan tíndi hún steina og skeljar og skoðaði fugla og dýr. Bréfin hennar eru uppfull af frásögnum af fuglum sem fylgdu þeim langar leiðir yfir höfin, kembum á Galapagos, sæljónum sem sátu og sóluðu sig hjá þeim á dekkinu, öndinni "Stefaníu" sem hún brauðfæddi í Brisbane o.fl. o.fl. Þótt hún væri fjarri ættingjum og vinum svo lengi var hugurinn alltaf heima, hún vildi vita hvort ekki liði öllum vel og allt væri í lagi hjá okkur. Sjálf gerði hún aldrei neitt úr sínum veikindum eða erfiðleikum sem óhjákvæmilega hafa verið einhverjir í slíkri ferð.

Eftir hnattreisuna sigldu þau á skipaskurðum Suður-Evrópu til Torrevieja á Spáni þar sem þau dvöldu til ársins 1993 er þau keyptu sér hús á Borgundarhólmi ekki langt frá Ernu dóttur sinni og hennar fjölskyldu. Húsið sitt nefndu þau "Naust". Þarna undu þau hag sínum vel, rétt við skógarjaðarinn með útsýni út á sjóinn. Enn sem fyrr var það dýralífið sem heillaði Dússý. Það er ekki langt síðan ég talaði við hana og hún sagði mér frá dádýrunum sem stundum komu í heimsókn í garðinn hennar og fuglunum sem hún fóðraði í litlu fuglahúsunum sem Maggi smíðaði.

Fyrir tveim árum lést Maggi skyndilega og var það mikið áfall fyrir Dússý en hún bar harm sinn í hljóði eins og hennar var venja ef eitthvað bjátaði á. Hún gat ekki hugsað sér að flytja úr húsinu sínu og sagði við okkur um síðustu jól að þar vildi hún enda sitt æviskeið. Þá var hún orðin heilsulítil en sagði ævinlega: "Ég hristi þetta af mér." Þó fór það svo að hún hristi ekki lengur af sér veikindin og lést á sjúkrahúsinu í Rønne eftir stutta sjúkdómslegu.

Elsku Dússý, við Jón þökkum þér fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum saman og vitum að þú hefur siglt hvítum seglum inn í eilífðina þar sem Maggi bíður þín. Börnunum og fjölskyldum þeirra sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Edda Björg.

Það er svo sárt að missa þá sem manni þykir vænt um og nú hefur stórt skarð verið höggvið við fráfall Dússýjar systur minnar. Hugurinn reikar til liðinna ára og áratuga. Til tímans þegar ég var smástelpa að heimsækja hana stóru systur mína á Langholtsveginn á fyrstu búskaparárunum þeirra Magga og síðar í Hvammsgerðið. Það var líka gaman að fylgjast með þeim hjónum á ferðalagi þeirra þegar þau sigldu á skútunni Dóru í kringum hnöttinn. Nú hafa þau hins vegar bæði kvatt þessa jarðvist og lagt upp í lengri för en nokkru sinni. Nú síðustu árin eru það heimsóknirnar til Borgundarhólms sem eru ferskastar í minningunni en þar höfðu þau komið sér svo vel fyrir. Dússý dvaldi svo hér um sl. jól og áramót og var þá m.a. í nokkra daga hérna á Selfossi og skiptist þá á að vera hjá okkur systrunum sem nú söknum hennar sárt. Eftir á að hyggja gæti ég trúað að hún hafi sjálf vitað að það væri síðasta Íslandsferðin hennar.

Ég held ég hafi aldrei kynnst jafnsterkri persónu og hún Dússý var. Hún var lágvaxin og fíngerð og svo hlý í viðmóti, en hún var mjög hörð af sér og ósérhlífin. Hún lauk því sem hún tók sér fyrir hendur. Hún fór t.d. í sjúkraliðanám þegar hún var orðin talsvert fullorðin og gerði sér lítið fyrir og var hæst á því prófi. Þegar þau hjónin ákváðu síðar að sigla skútu í kringum heiminn þá kom auðvitað ekki annað til greina hjá henni, sem þá var rúmlega fimmtug, en að fara í Sjómannaskólann og taka þar tilskilin próf til þess að vera nú með allt á hreinu á siglingunni. Þau stóðu svo vaktirnar jafnt og þegar seglin rifnuðu í fárviðrum þá saumaði hún þau saman í höndunum, oft við erfið skilyrði. Það lýsir því vel hvað hún var hörð af sér, að hún fékk mikla ígerð í fótlegginn eftir skordýrabit og ígerðin vildi ekki gefa sig með þeim lyfjum sem hún hafði yfir að ráða á siglingunni, þá gerði hún sér lítið fyrir og skar sjálf meinið í burtu og saumaði sárið. Já svona var Dússý. Bara gerði hlutina án þess að hafa mörg orð þar um og aldrei kvartaði hún yfir nokkrum hlut. Hún skrifaði mjög greinargóða skipsbók allan tímann sem þau voru á siglingunni og þar las maður í fyrsta skipti um ýmsar hetjudáðir þeirra hjóna og ótrúlegar kringumstæður sem þau lentu í á ferðalaginu. Þessi bók hefði getað orðið metsölubók hefði hún verið gefin út, en hún sagði alltaf að þessi ferð væri bara þeirra ævintýri en ekki söluvara. Þetta lýsir henni. Hún gumaði aldrei af neinu sem hún tók sér fyrir hendur og aldrei hnýtti hún í náungann heldur tók ætíð upp hanskann ef einhverjum var hallmælt. Henni fannst öll ytri umgjörð léttvæg en hafði yndi af fallegri náttúru og dýralífi. Hún elskaði að vera á sjónum og þegar þau settust að á Borgundarhólmi eftir margra ára siglingar sagðist hún vel geta hugsað sér að halda áfram að búa í skútunni.

Dússý var dul á líðan sína, bæði andlega og líkamlega. Það skyldi enginn sjá að hún væri veik eða að henni liði illa og aldrei mátti vorkenna henni. Hinsvegar var henni mjög umhugað um líðan annarra og valdi sér það lífsstarf að hlúa að öðrum.

Nú er hún Dússý mín öll. Nú koma ekki fleiri símtöl frá Borgundarhólmi sem byrja þannig: "Æ, mig langar svo til að kvabba svolítið á þér. Heldurðu nokkuð að þú gætir sent mér smá saltkjöt og rófur, seytt rúgbrauð og kindakæfu?" Svo hringdi hún venjulega eftir nokkra daga og sagðist hafa verið að borða svo góðan mat og þá vissi ég að sendingin hafði komist til skila.

Elsku Erna, Þór, Rut, Óðinn og fjölskyldur ykkar, ég bið góðan Guð að hjálpa ykkur að vinna úr sorginni og gefa ykkur styrk á þessum erfiða tíma. Dússý minni þakka ég samfylgdina.

Ragna Kristín (Didda).