Þýska leikkonan Veronica Ferres í hlutverki sínu í Jedermann.
Þýska leikkonan Veronica Ferres í hlutverki sínu í Jedermann.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BORGIN Salzburg í Þýskalandi er þessa dagana vettvangur árlegrar listahátíðar sem efnt er til á hverju sumri og vakið hefur athygli víða um heim.

BORGIN Salzburg í Þýskalandi er þessa dagana vettvangur árlegrar listahátíðar sem efnt er til á hverju sumri og vakið hefur athygli víða um heim. Hátíðin er tileinkuð óperu- og leikritaflutningi, sem og tónleikahaldi og krefjast stjórnendur hátíðarinnar þess jafnan að þeir viðburðir sem þar eru í boð séu í hæsta gæðaflokki. Salzburg sjálf er að mestu byggð í stíl barokk-arkitektúrs sem þykir veita sérlega viðeigandi bakgrunn fyrir hátíðarhöldin.

Salzburgar-hátíðin hófst á föstudag og taka að venju fjöldi söngvara, leikara og stjórnenda þátt í flutningnum, auk hljómsveita á borð við fílharmóníusveit Vínar og fílharmóníusveit Berlínar. Meðal þeirra verka sem sett verða upp þetta sumarið eru óperurnar Don Giovanni og Samson og Delilah og leikritið Jedermann eftir Hugo von Hofmann þar sem hin þekkta, þýska leikkona Veronica Ferres fer með eitt hlutverkanna. Það má segja að leikritið sé í vissum skilningi á heimavelli, en það er einmitt Hofmann sjálfur sem á heiðurinn að Salzburgar-hátíðarinni.

Að sögn stjórnenda hafa viðtökur að þessu sinni verið mjög góðar og hefði til að mynda verið hægt að selja um fjórum sinnum fleiri miða á sýningarnar á Jedermann en húsrúm leyfir.

Raphael áfram í Englandi

LISTUNNANDI Bretar anda léttar þessa stundina eftir að breska lottóið ákvað að veita 11,5 milljónum punda, eða rúmlega 1,4 milljörðum króna til að aðstoða stjórnendur National Gallerys við að kaupa verkið Madonna í bleiku eftir ítalska endurreisnarlistamanninn Raphael. Verkið hefur verið í vörslu National Gallerys frá því 1991, en myndin hefur verið í eigu fjölskyldu hertogans af Northumberland frá því um miðja 19. öld. Fyrr á árinu ákvað hertoginn hins vegar að selja myndina til að fjármagna nauðsynlegar viðgerðir á ættaróðalinu, Alnwick Castle. Að sögn breska dagblaðsins Guardian höfðu safnayfirvöld áður farið fram á 20 milljón punda styrk, en ákváðu að lækka upphæðina um tæpan helming í þeirri von að lottósjóðurinn yrði viljugri til að veita styrkinn. Sú ákvörðun virðist hafa borgað sig og eru safnayfirvöld nú mun bjartsýnni en áður á að takast muni að halda myndinni í landinu. National Gallery þarf þó á næstunni að safna digrum sjóðum til viðbótar við styrkinn frá lottósjóðnum, því Getty-safnið í Kaliforníu hefur boðið 29 milljónir punda í verkið.