Myndir af líkum þeirra Uday og Qusay Hussein, sonum Saddams Hussein er féllu í skotbardaga í borginni Mosul fyrr í vikunni, hafa vakið upp sterkar tilfinningar og mikla umræðu víða um heim.

Myndir af líkum þeirra Uday og Qusay Hussein, sonum Saddams Hussein er féllu í skotbardaga í borginni Mosul fyrr í vikunni, hafa vakið upp sterkar tilfinningar og mikla umræðu víða um heim.

Á ritstjórnarskrifstofum fjölmargra dagblaða hefur verið rætt og deilt um hvort birta ætti myndirnar og þá jafnframt hvort birta ætti þær í lit og með hversu áberandi hætti. Niðurstaða flestra blaða hefur verið sú að rétt væri að birta myndirnar. Þetta væri ekki spurning um hvort birta ætti myndirnar, fréttagildi þeirra var hreinlega of mikið, heldur hvernig þær yrðu birtar. Þótt vissulega verði að fara varlega í að birta myndir af limlestum líkum geta fjölmiðlar ekki horft fram hjá þeirri skyldu sinni að þeir verða að endurspegla heiminn eins og hann er en ekki eins og menn vildu kannski að hann væri. Þannig verður ekki hjá því komist að birta myndir af vettvangi styrjalda, slysa eða myndir af svæðum þar sem hungursneyð ríkir, hversu hrikalegar sem þær kunna að vera. Fjölmiðlar eiga hins vegar ekki að velta sér upp úr slíkum myndum til þess eins að vekja upp óhug hjá fólki. Stundum hafa nær allir fjölmiðlar tekið ákvörðun um að tilteknar myndir hefðu ekkert upplýsinga- eða fréttagildi. Það átti til dæmis við um myndir af aftöku hryðjuverkamanna í Pakistan á bandaríska blaðamanninum Daniel Pearl fyrir rúmu ári. Aðrar myndir hafa vakið upp mikla reiði, ekki vegna þess að þær hafi verið birtar, heldur vegna þeirra atburða er þær sýna. Þekkt dæmi eru myndir af ungum palestínskum drengi er lét lífið í fangi föður síns er þeir lentu í miðjum skotbardaga á hernumdu svæðunum.

Oft eru fréttamyndir þess eðlis að þær hljóta að vekja upp sterkar tilfinningar hreinlega vegna þess að þeir atburðir sem þær endurspegla eru skelfilegri en orð fá lýst. Það átti til dæmis við um myndir frá Rúanda í kjölfar fjöldamorðanna þar á síðasta áratug. Það má segja að það hafi jafnframt átt við um myndir er birtar voru frá Monróvíu, höfuðborg Líberíu fyrr í vikunni, m.a. á forsíðu Morgunblaðsins, er sýndu hvernig líkum óbreyttra borgara er fallið höfðu í sprengjuárásum hafði verið safnað saman í hrúgu fyrir utan bandaríska sendiráðið í borginni.

Það má einnig velta fyrir sér birtingu myndanna af þeim Uday og Qusay út frá öðrum forsendum. Markmið Bandaríkjamanna með því að sýna lík þeirra opinberlega er að sannfæra almenning í Írak og arabaheiminum um að þeir hafi í raun fallið. Að fréttir þess efnis séu ekki uppspuni til að blekkja fólk. Fjölmargir Írakar óttast enn að Saddam og samstarfsmenn hans komist aftur til valda. Svo virðist sem jafnvel myndirnar af líkum þeirra bræðra hafi ekki orðið til að sannfæra alla um að þeir séu í raun látnir. Vissulega hlýtur ákvörðun um að birta myndir og halda sýningu á líkum ávallt að vera umdeilanleg. Í ljósi aðstæðna í Írak að stríðinu loknu er sú niðurstaða að gera það engu að síður skiljanleg.