Þórhallur Sigurðsson
Þórhallur Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höfundur: Joseph O'Connor. Þýðandi og höfundur leikgerðar: María Kristjánsdóttir. Leikstjóri: Þórhallur Sigurðsson. Hljóðvinnsla: Grétar Ævarsson.

Höfundur: Joseph O'Connor. Þýðandi og höfundur leikgerðar: María Kristjánsdóttir. Leikstjóri: Þórhallur Sigurðsson. Hljóðvinnsla: Grétar Ævarsson. Leikarar: Arndís Hrönn Egilsdóttir, Brynja Valdís Gísladóttir, Ellert Ingimundarson, Helga Elínborg Jónsdóttir, Ívar Örn Sverrisson, Guðmundur Ólafsson, Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Jóhann Sigurðarson, Pétur Einarsson, Ragnheiður Steindórsdóttir, Róbert Arnfinnsson, Stefán Karl Stefánsson, Valdimar Örn Flygering, Þórhallur Sigurðsson og Þröstur Leó Gunnarsson. Mánudagur 23. júní, þriðjudagur 24. júní, miðvikudagur 25. júní, fimmtudagur 26. júní, föstudagur 27. júní, mánudagur 30. júní, þriðjudagur 1. júlí, miðvikudagur 2. júlí, fimmtudagur 3. júlí, föstudagur 4. júlí, mánudagur 7. júlí, þriðjudagur 8. júlí, miðvikudagur 9. júlí, fimmtudagur 10. júlí og föstudagur 11. júlí.

ÞAÐ er nýjabrum að flutningi leikgerðar Maríu Kristjánsdóttur á þessari skáldsögu írska skáldsagnahöfundarins Josephs O'Connor. Í stað léttra og spennandi sakamálaleikrita er sjónum beint að skuggahliðum glæpalífsins og að góðra írskra höfunda hætti er skyggnst djúpt inn í sálarlíf persónanna og fylgst með hvernig það tekur breytingum eftir því sem sögunni vindur fram.

Joseph O'Connor virðist ekki eiga upp á pallborðið hjá íslenskum bókaútgefendum, sennilega vegna þess hve karakterstúdíur hans eiga lítið sameiginlegt með eiginlegum spennusögum. Sagan er vissulega mjög áhugaverð en þar sem hið óvænta í henni byggist á viðbrögðum persónanna við breyttum aðstæðum mætti ætla að finna mætti henni heppilegra form en í u.þ.b. korterslöngum bútum. Auk þess má búast við að sumum hlustendum hafi svelgst á hádegismatnum þegar mestu ódæðisverkunum var lýst. Á hinn bóginn gerist hún brot af broti á svo löngum tíma og þar að auki að mestu leyti í huga sögumannsins að erfitt væri að sjá hana fyrir sér á leiksviði. Joseph O'Connor mun um tíma hafa unnið að kvikmyndahandriti byggðu á sögunni en undirritaður hefur ekki fregnað meira af þeim bollaleggingum. Hið skefjalausa ofbeldi sem er lýst í sögunni hefur sennilega komið í veg fyrir frekari áform í þá veru. Útvarpsleikrit er því sennilega eina og besta lausnin til að snúa henni í leikritsform eftir allt saman.

Sagan gerist í höfuðborg Lýðveldisins Írlands, Dyflinni. Sögumaðurinn, Billy Sweeney, er sölumaður sem hefur á árum áður hrakið fjölskyldu sína frá sér með drykkjuskap. Hann hefur í upphafi sögunnar löngu sagt skilið við flöskuna og vinnur við sölu gervihnattadiska fyrir sjónvörp. Sagan hefst í réttarsal. Önnur dóttir hans, Maeve, hefur orðið fyrir hrottalegri árás fjögurra ungra manna við rán í bensínstöð þar sem hún starfaði og liggur í dái á sjúkrahúsi. Einn árásarmannanna, Donal Quinn, kemst undan og Billy Sweeney rekst af tilviljun á hann í strandbæ nálægt borginni. Hann tekur til sinna ráða og fær mann til þess að aðstoða sig við að handsama Donal og færir hann fjötraðan til heimilis síns í strjálbýlu úthverfi þar sem hann heldur honum föngnum. Þeir tveir þriðju hlutar sögunnar sem eftir eru lýsa samskiptum þeirra, allt frá því að Billy kvelur Donal í fuglabúri í garðinum, hvernig þeir kynnast betur og hvernig þeir ganga hvor öðrum ýmist í föður- eða sonarstað. Eins og sæmir sögu sem er máluð svo dökkum litum endar hún með skelfingu og Billy situr uppi með tvöfaldan missi, dóttir hans liggur fyrir dauðanum og Donal hefur verið tekinn af lífi á hrottafenginn hátt.

Það er áhugavert hvernig Maríu Kristjánsdóttur telst að halda stigmögnun harmleiksins sem á töluvert skylt við þau hryllingsverk sem sýnd voru á sviði í Englandi um svipað leyti og Shakespeare var upp á sitt besta. Þetta er athyglisvert verk þar sem sígildu viðfangsefni er fundinn staður í nútímanum á trúverðugan máta. Áhugaverðasta hliðin á verkinu er einmitt hvernig hinn hversdagslegi nútímamaður Billy Sweeney verður smátt og smátt að aðalpersónu í klassískum harmleik, leiksoppur örlaganna, og hvernig hefndin snýst í höndum hans og hittir hann sjálfan. Billy Sweeney leitar ekki hefnda vegna þess að þjóðfélagið sem hann er hluti af krefst þess heldur af því að hann trúir ekki lengur á lögregluna og dómskerfið. Hann vill fá útrás fyrir sársauka sinn og reiði og að ódæðismaðurinn þjáist jafnmikið og fórnarlambið. Hann gerir sér ekki grein fyrir því að með því að setja sig í spor ofbeldismannsins hefur hann endaskipti á veröldinni og kemur af stað atburðarás sem hann hefur enga stjórn á.

Þrátt fyrir að alls fimmtán leikarar komi fram í þáttunum snýst leikurinn nær einvörðungu annars vegar um það svartnætti sem Billy Sweeney í meðförum Jóhanns Sigurðarsonar á við að glíma og hins vegar um samskipti hans við Donal Quinn, sem leikinn er af Ívari Erni Sverrissyni. Öðrum leikurum, sumum í meira en einu hlutverki, bregður aðeins stuttlega fyrir.

Eftirminnilegastir eru Stefán Karl Stefánsson og Þröstur Leó Gunnarsson sem glæpamennirnir sem Billy fær til liðs við sig, enda hafa persónur þeirra beggja mikil áhrif á framvindu sögunnar. Jóhanni Sigurðarsyni tekst vel að túlka hinar ýmsu hliðar Billys þó að á stundum hefði hann mátt kafa dýpra.

Aðalpersónan er jafnframt sögumaður leiksins og fer oft með firnalangar ræður um atburði sögunnar þar sem orðum hans er beint að dótturinni, Maeve.

Þarna hefði leikstjórinn þurft að kalla á meiri fjölbreytni í tilfinningum til að forðast lestrartóninn og brjóta upp frásögnina. Ívar Örn Sverrisson gerði Donal Quinn firnagóð skil. Hann spilaði ýmist á ofsa hans og ofbeldishneigð eða sjálfsvorkunn og sjálfsbjargarviðleitni. Samleikur Jóhanns og Ívars gerði áheyrendum mögulegt að trúa hinu ómögulega, að eftir að hafa leikið hvor annan svo grátt gætu þessir tveir menn fundið hvor í öðrum föður og son.

Sveinn Haraldsson