"Það hlýtur þess vegna að verða eitt af verkefnum endurskoðunarnefndar félagsmálaráðherra að finna leiðir til að ná kostnaðinum aftur niður í það sem vilji löggjafans stóð til við samþykkt laganna."

ÞEGAR frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof var til umræðu á Alþingi fyrir þremur árum var bent á að lögunum myndi fylgja mikill kostnaður. Í athugasemdum með frumvarpinu var gert ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs myndi hækka úr rúmum 2 milljörðum króna í rúman 31/2 milljarð króna og einhverjir vöruðu við að þetta væri varlega áætlað. Síðan hefur komið á daginn að þetta var ekki aðeins varlega áætlað heldur víðs fjarri raunveruleikanum. Í stað þess að kostnaðurinn vegna laganna verði rúmur 31/2 milljarður króna á ári eftir að ákvæði laganna hafa á þessu ári að fullu tekið gildi stefnir í að kostnaðurinn verði um 51/2 milljarður króna á ári. Og verði nýjasta kröfugerðarhópnum að ósk sinni um að orlof verði greitt ofan á orlofið verður kostnaðurinn kominn yfir sex milljarða króna á ári.

Þetta þýðir að í stað þess að lögin auki útgjöld ríkisins vegna málaflokksins um ríflega 2/3eins og alþingismenn gátu gert ráð fyrir miðað við forsendur frumvarpsins munu þau þrefalda útgjöldin. Nú er það svo að reynslan sýnir takmarkaðan áhuga þingmanna - og þeirra sem þrýsta á þingmenn ef út í það er farið - á að sýna mikið aðhald í ríkisfjármálum. Engu síður verður að gera ráð fyrir að útgjöld séu einn þeirra þátta sem litið er til við afgreiðslu laga, enda væri varla verið að eyða fé og tíma í útreikninga á kostnaði vegna laganna ef svo væri ekki. Það má þess vegna ætla að ef kostnaður vegna fæðingar- og foreldraorlofslaganna hefði verið rétt reiknaður og þingmenn hefðu vitað að kostnaðaraukinn yrði þrefaldur en ekki 2/3 hefði afgreiðsla málsins verið með öðrum hætti.

Það má líka halda í þá von að ef þingmenn hefðu gert sér fulla grein fyrir þeim möguleikum til misnotkunar sem lögin bjóða upp á hefðu þeir farið vandlegar yfir frumvarpið áður en þeir samþykktu það.

Þetta gerðist hins vegar ekki, enda lá svo mikið á að koma frumvarpinu í gegnum þingið að hraðamet voru í hættu - og voru sennilega slegin þegar litið er til umfangs málsins og kostnaðar vegna þess. Lögin voru samþykkt á vorþingi árið 2000 eftir að hafa einungis verið rædd í 31/2 klukkustund á þeim fjórtán dögum sem liðu frá því að frumvarpinu var útbýtt og þar til lögin voru endanlega samþykkt. Slík flýtimeðferð er með ólíkindum þegar um er að ræða svo stórt mál, og ekki er síður sérkennileg sú samstaða sem þingmenn náðu um málið. Aldrei þessu vant gekk hnífurinn ekki á milli manna í félagsmálanefnd og við afgreiðslu málsins samþykktu það allir viðstaddir þingmenn, utan einn sem greiddi ekki atkvæði.

Sá þingmaður, Einar Oddur Kristjánsson, hafði varað við háum kostnaði vegna frumvarpsins og hvatt til þess að samþykkt þess yrði látin bíða haustsins svo að hægt væri að fara betur yfir efnahagslega þætti. Það væri enda engin ástæða til að keyra málið í gegn, lögin ættu ekki að taka gildi fyrr en um næstu áramót. Allt kom þó fyrir ekki og í óðagoti voru lögin samþykkt umræðulítið og með hraði á vorþinginu.

Þegar þessi málatilbúnaður er hafður í huga og þegar litið er til þess að kostnaðurinn hefur farið algerlega úr böndum er ástæða til að fagna því að félagsmálaráðherra hefur nú sett af stað vinnu við að endurskoða fæðingarorlofslögin. Raunar var bæði í athugasemdum með frumvarpinu og í nefndaráliti félagsmálanefndar gert ráð fyrir endurskoðun laganna þegar reynsla væri komin á þau. Þetta á sérstaklega við um ákvæði laganna um bindingu tiltekins fjölda mánaða við hvort foreldri. Af athugasemdunum má draga þá ályktun að nú, þegar reynslan sýnir að feður nýta sér fæðingarorlofið, þá verði bindingin lögð af og foreldrum leyft að ákveða sjálfum hvaða skipting hentar þeim og börnum þeirra best.

Annað sem nauðsynlegt er að endurskoða eru þær háu félagslegu bætur sem ríkið greiðir sumum foreldrum en öðrum ekki, ekki síst í ljósi þess að þessar bætur eru þeim mun hærri sem foreldrarnir hafa minna við þær að gera og þurfa síður á félagslegri aðstoð að halda við að ala upp börn sín.

Eins og kunnugt er þá eru reglurnar nú svo furðulegar, að því hærri tekjur sem menn hafa, þeim mun meiri bætur fá þeir frá ríkinu. Og ef svo "illa" vildi til að einhver íbúi hér á landi yrði um hríð verulega tekjuhár og eignaðist barn í framhaldi af því myndi hann um leið höggva stórt skarð í ríkissjóð. Vegna þess hve undarleg lögin eru verður að þakka fyrir að hér á landi búa ekki auðmenn á alþjóðlegan mælikvarða enda yrði þá væntanlega að skera niður vítt og breitt í heilbrigðis- og menntakerfi landsmanna til þess að greiða auðmönnunum 80% tekna þeirra í félagslegar bætur í fæðingarorlofinu.

Líkt og áður sagði hafa útgjöld vegna fæðingar- og foreldraorlofs aukist margfalt á við það sem Alþingi ætlaði sér þegar lögunum var hraðað í gegnum þingið. Það hlýtur þess vegna að verða eitt af verkefnum endurskoðunarnefndar félagsmálaráðherra að finna leiðir til að ná kostnaðinum aftur niður í það sem vilji löggjafans stóð til við samþykkt laganna. Það hlýtur einnig að verða verkefni nefndarinnar að leggja af þá bindingu fæðingarorlofsins sem nú er við foreldra. Loks má gera ráð fyrir að nefndin leiti leiða til þess að draga úr misnotkun kerfisins, þótt aldrei verði hægt að koma að fullu í veg fyrir hana í þessu félagslega kerfi frekar en öðrum slíkum.

Eftir Harald Johannessen haraldurj@mbl.is