EINKAHLUTAFÉLÖGUM hefur fjölgað um 58% í Bolungarvík frá ársbyrjun 2001. Fjölgun á landinu öllu á sama tímabili er um 30%.

EINKAHLUTAFÉLÖGUM hefur fjölgað um 58% í Bolungarvík frá ársbyrjun 2001. Fjölgun á landinu öllu á sama tímabili er um 30%. Einar Pétursson, bæjarstjóri í Bolungarvík, segir að þessi fjölgun einkahlutafélaga hafi í för með sér verulegt tekjutap fyrir sveitarfélagið þar sem stærsti tekjustofn þess sé útsvar og það lækki af þessum völdum.

Eftir að tekjuskattur fyrirtækja lækkaði hafa margir sjálfstæðir atvinnurekendur stofnað einkahlutafélög í kringum rekstur sinn, en það getur haft umtalsverð áhrif á tekjur minni sveitarfélaga.

Í Bolungarvík hafa margir trillukarlar stofnað einkahlutafélög í kringum starfsemi sína. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands hefur einkahlutafélögum þar fjölgað um 58% frá árinu 2001, eða úr 59 í 93, um leið og þeim hefur fjölgað um 30% á landsvísu.

"Hérna í Bolungarvík er stór hluti íbúanna sjálfstæðir atvinnurekendur. Þegar þeir stofna einkahlutafélög utan um sinn rekstur lækka þeir hugsanlega launin sín og greiða því lægra útsvar," segir Einar Pétursson, bæjarstjóri Bolungarvíkur, og bendir á að þá geti einstaklingar tekið hagnaðinn út sem arð og greitt fjármagnstekjuskatt í staðinn. Einar segist halda að þetta verði verulegt tekjutap fyrir sveitarfélagið þar sem stærsti tekjustofn þess sé útsvar.

Einkahlutafélag í þriðja hverju húsi

Í Snæfellsbæ er mikið um einkahlutafélög en Kristinn Jónasson bæjarstjóri segir að þar séu einkahlutafélög í þriðja hverju húsi.

Kristinn bendir á að þeir einstaklingar sem voru skatthæstir í Snæfellsbæ í fyrra borgi mun minni skatt núna. "Nú geta þessir einstaklingar dregið svo marga þætti frá skatti sem þeir gátu ekki áður. Þannig myndast minni skattstofn til ríkis og sveitarfélags."

Kristinn segir aftur á móti að það verði að teljast jákvætt að einstaklingar sem borguðu lítinn eða engan skatt áður séu núna farnir að greiða skatt.

"Þetta hefur jákvæðar og neikvæðar hliðar. Ég hef það á tilfinningunni að vöxtur í okkar tekjum verði ekki sá sami og í mörgum öðrum sveitarfélögum. Félagakerfið skerðir verulega þennan þátt í tekjum sveitarfélaganna," segir Kristinn.