Verðlaunahafar Effie-verðlaunanna ásamt Valgerði Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem afhenti verðlaunin, og Boga Pálssyni, formanni dómnefndar, sem er annar frá hægri.
Verðlaunahafar Effie-verðlaunanna ásamt Valgerði Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem afhenti verðlaunin, og Boga Pálssyni, formanni dómnefndar, sem er annar frá hægri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FRAMSÓKNARFLOKKURINN og auglýsingastofan Hér&Nú hlutu í gær fyrstu verðlaun í Effie-verðlaunasamkeppninni í flokki þjónustu, fyrir auglýsingaherferð flokksins fyrir Alþingiskosningarnar síðastliðið vor. P.
FRAMSÓKNARFLOKKURINN og auglýsingastofan Hér&Nú hlutu í gær fyrstu verðlaun í Effie-verðlaunasamkeppninni í flokki þjónustu, fyrir auglýsingaherferð flokksins fyrir Alþingiskosningarnar síðastliðið vor. P. Samúelsson og Íslenska auglýsingastofan hlutu fyrstu verðlaun í flokki vöru fyrir auglýsingaherferðina Yaris Mobile.

Íslenska auglýsingastofan hlaut einnig önnur og þriðju verðlaun í flokki þjónustu. Hlaut stofan önnur verðlaun ásamt Flugfélagi Íslands fyrir herferðina Taktu flugið, og þriðju verðlaun ásamt Rekstrarfélagi Kringlunnar fyrir herferðina Kringlan er. Engar herferðir hlutu önnur eða þriðju verðlaun í flokki vöru, því einungis ein herferð náði lágmarksfjölda stiga í þessum flokki frá dómnefnd.

Fyrstu Effie-verðlaunin hér á landi

Effie-verðlaunin voru í fyrsta skipti veitt hér á landi í gær en þau eru upprunnin í Bandaríkjunum þar sem þau hafa verið veitt frá árinu 1968. Verðlaunin eru veitt í 23 löndum í fjórum heimsálfum fyrir auglýsinga- og kynningarefni, sem skara þykir fram úr. Effie-verðlaunin skera sig úr öðrum viðurkenningum sem veittar hafa verið á þessu sviði hér á landi, þar sem til grundvallar úrskurði dómnefndar keppninnar liggur greinargerð um markmið, leiðir og framvindu, ásamt staðfestum tölulegum upplýsingum um árangur.

Samband íslenskra auglýsingastofa (SÍA) hefur ásamt Ímark haft forgöngu um að efna til Effie-verðlauna hér á landi og notið til þess stuðnings frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Gallup, Íslands-pósti og Morgunblaðinu.

Alls bárust 29 innsendingar í þá fjóra flokka sem ætlunin var að dæma í. Einungis voru þó veitt verðlaun í tveimur flokkum því fjöldi herferða í öðrum flokkum var ekki nægjanlegur. Í dómnefnd voru 25 manns, stjórnendur fyrirtækja og markaðsfólk.

Djúpt hugsuð tilfærsla á ímynd

Bogi Pálsson, formaður Verslunarráðs Íslands og formaður dómnefndarinnar, tilkynnti verðlaunahafana á hádegisfundi í gær. Fram kom í máli hans að í innsendum gögnum til keppninnar varðandi herferð Framsóknarflokksins, hafi verið eftirfarandi samantekt: "Framsókn vann stórkostlegan varnarsigur í síðustu kosningum við erfiðar aðstæður. Með djúpt hugsaðri tilfærslu á ímynd flokksins skilaði markaðssamskiptaherferð hans tilætluðum árangri, auknu fylgi meðal kvenna og yngra fólks, ásamt góðri samningsstöðu og Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherrastólinn."

Í samantekt í innsendum gögnum P. Samúelssonar og Íslensku auglýsingastofunnar til keppninnar vegna fyrstu verðlauna í flokki vöru fyrir auglýsingaherferðina Yaris Mobile sagði: "Strax á fyrsta ári sínu var Yaris söluhæsti bíllinn í sínum flokki og í lok árs 2001 var hlutdeildin orðin 39,2%. Erfitt var að halda þessari hlutdeild vegna mikillar samkeppni frá öðrum smábílum, auk þess að útlit bílsins var orðið þriggja ára gamalt og hlutdeild Yaris á árinu 2002 var því komin niður í 36%. Gripið var til sérstakra aðgerða sem miðuðu að því að koma hlutdeildinni aftur í 39%, ekki með því að lækka verðið heldur með því að bjóða virðisaukandi pakka, handfrjálsan búnað, álfelgur og vindskeið, auk þess sem nafni bílsins var breytt í Yaris Mobile. Að herferðinni lokinni var hlutdeild Yaris komin í 50% innan mánaðar og 42% innan ársins sem var framar björtustu vonum."