[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á síðustu 15 árum hafa orðið miklar breytingar í íslensku viðskiptalífi. Eitt einkenni þessara breytinga er aukin útrás fyrirtækja á erlenda markaði. Sú útrás felst í auknum útflutningi á vöru og þjónustu og kaupum íslenskra fyrirtækja á erlendum, að sögn Árna Zophoniassonar. Meðal fræðimanna eru kaup og samrunar fyrirtækja umdeild leið til vaxtar. Þessi leið virðist þó henta íslenskum fyrirtækjum vel til útrásar.

Reglulega birtast fréttir af kaupum Íslendinga á erlendum fyrirtækjum. Á þessu hausti má nefna kaup Össurar á fyrirtækinu Generation II fyrir 2,4 milljarða, kaup Kaupþings Búnaðarbanka á 30% hlut í finnska fjármálafyrirtækinu Norvestia á 5,5 milljarða, kaup Kaupþings Búnaðarbanka á tæplega 10% hlut í breska fjármálafyrirtækinu Singer & Frielander fyrir rúmlega 5 milljarða, kaup Samskipa á hollenska flutningafyrirtækinu Van Dieren Maritime og að lokum kaup Baugs og fleiri aðila á Oasis tískuverslanakeðjunni fyrir 19,6 milljarða. Viðskiptasagan geymir einnig dæmi um kaup á erlendum fyrirtækjum sem hafa ekki gengið sem skyldi. Sem dæmi má nefna kaup Útgerðarfélags Akureyringa á austur-þýska sjávarútvegsfyrirtækinu Meclenburger Hochseefisherei árið 1993. Á sínum tíma var litið á þessi kaup sem tímamót í íslenskum sjávarútvegi og glæsilegt dæmi um útrásarmöguleika Íslendinga. Í þessari grein er litið yfir viðskiptasöguna hvað varðar kaup íslenskra fyrirtækja á erlendum fyrirtækjum og fjallað er um aðferðir við slík kaup. Markmiðið er að vekja athygli einstaklinga og fyrirtækja á þeim möguleikum sem felast í að stækka markaði og vinna ný lönd með kaupum á erlendum fyrirtækjum.

Yfirleitt í sömu grein

Fyrirtæki eru keypt af mörgum ástæðum. Algengt er að kaupandinn telji sig með kaupunum geta styrkt núverandi rekstur. Slík styrking getur verið af ýmsum toga, s.s. kaup á fyrirtæki sem er í sömu viðskiptum, kaup á fyrirtæki sem er í sömu virðiskeðju eða kaup á fyrtækjum sem veita aðgang að tiltekinni tækni eða framleiðsluleyfum.

Algengust eru kaup á fyrirtækjum sem starfa í sömu grein og kaupandinn. Kaupþing Búnaðarbanki kaupir fjárfestingabanka á Norðurlöndunum vegna þess að bankinn hefur skilgreint Norðurlönd sem sinn heimamarkað. Erfitt eða útilokað er fyrir bankann að ná viðlíka árangri með því að stóla á innri vöxt fyrirtækisins. Íslensku flutningafyrirtækin Eimskip og Samskip hafa með kaupum á umboðsfyrirtækjum sínum erlendis keypt fyrirtæki í sömu virðiskeðju. Össur keypti fyrr á þessu ári lítið sænskt fyrirtæki, Linea Orthopedics, til að öðlast aðgang að tækni í tengslum við stoðtæki. Íslensk fyrirtæki og íslenskir fjárfestar hafa einnig í vaxandi mæli keypt fyrirtæki erlendis sem fjárfestingu án allra sjáanlegra tengsla við núverandi starfsemi. Dæmi um slíkar fjárfestingar eru kaup nokkurra íslenskra fjárfesta á tískufyrirtækinu Karen Millen og kaup íslenskra fjárfesta á sjávarútvegsfyrirtækinu Larsen Group í Danmörku.

Aflaheimildir tryggðar

Ekki eru nema rúmlega 10 ár síðan íslensk fyrirtæki fóru að kaupa fyrirtæki erlendis í þeim tilgangi að vaxa og vinna nýja markaði. Augljós skýring á því er höft á fjármálamörkuðum og almenn þröng viðskiptaleg sýn á árunum fyrir 1990. Fyrstu viðskiptin af þessu tagi tengdust sjávarútvegi. Markmiðið í fyrstu var ekki beinlínis útrás heldur fólust kaupin upphaflega í að tryggja tiltekna hagsmuni s.s. að kaupa fyrirtæki til að komast inn fyrir tollamúra eða kaupa fyrirtæki til að tryggja aðgang að aflaheimildum. Sem dæmi um slík kaup má nefna kaup SÍF á franska fyrirtækinu NordMorue 1990 sem höfðu að markmiði að tryggja hagsmuni varðandi innflutning á saltfiski til Evrópu. Árið 1992 keypti Grandi hlut í Friosur - sjávarútvegsfyrirtæki í Chile. Árið 1993 keypti Útgerðarfélag Akureyringa austur-þýska sjávarútvegsfyrirtækið Meclenburger Hochseefisherei og tveimur árum síðar keypti Samherji Deutsche Fishfang Union sem einnig er austur-þýskt sjávarútvegsfyrirtæki. Meginmarkmið kaupanna hjá Granda, Útgerðarfélagi Akureyringa og Samherja var að tryggja aðgang að aflaheimildum. Undir lok aldarinnar hefst nýtt tímabil hvað varðar fjárfestingar íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja í erlendum fyrirtækjum. Kaupendur líta meira til fyrirtækja sem starfa við fullvinnslu sjávarafurða og í framhaldi af því til fyrirtækja í matvælavinnslu almennt. Markmiðið með kaupunum er ýmist að lengja virðiskeðjuna, þ.e. að kaupa fyrirtæki sem geta fullunnið og selt afurðir íslensku sjávarútvegsfyrirtækjanna eða að útvíkka markaði með því að kaupa fyrirtæki í skildri starfsemi. Fyrstu fjárfestingar af þessu tagi eru kaup SÍF á franska fyrirtækinu Delpierre árið 1998. Ári síðar kaupir Bakkavör sænska fyrirtækið Lysikil og árið 2000 kaupa hluthafar Samherja þýska fyrirtækið Hussman & Hahn. Bakkavör fjárfestir í fyrirtækjum óháðum sjávarútvegi - fyrst í breska fyrirtækinu Vine & Dine árið 2000 og síðan í "stærstu fyrirtækjakaupum Íslandssögunnar" kaupir Bakkavör breska fyrirtækið Katsouris Fresh Food árið 2001. Nýjustu kaup af þessu tagi eru kaup SÍF á Lyons Seafood í Bretlandi síðastliðið sumar og kaup nokkurra fjárfesta á Larsen Group í Danmörku fyrir nokkrum vikum.

Áhugi fjármálafyrirtækja vaknar

Sjávarútvegsfyrirtæki riðu á vaðið hvað varðar kaup á erlendum fyrirtækjum. Í kjölfar þeirra koma þjónustu- og iðnfyrirtæki með tengsl við sjávarútveg. Sem dæmi um slík fyrirtæki má nefna Marel, Hampiðjuna, Sæplast, Eimskip og síðar Samskip. Líklega eru kaup Marel á danska fyrirtækinu Carnitech árið 1997 meðal fyrstu fyrirtækjakaupa íslensks iðnfyrirtækis erlendis. Frá árinu 1999 kaupa Hampiðjan og Sæplast nokkur fyrirtæki víða um heiminn og styrkja þannig markaðsstöðu sína. Eimskip og síðar Samskip keyptu upp fjölmörg umboðsfyrirtæki sín erlendis og önnur flutningafyrirtæki með það að markmiði að ná fram lækkun kostnaðar og auknum tekjum á erlendum mörkuðum.

Á sviði heilbrigðismála hafa íslensk fyrirtæki verið nokkuð stórtæk. Fremst í flokki fer Össur sem kaupir Flex Foot, Century XXII, Pi Medical og Karlsson & Bergström árið 2000, Capod Systems árið 2002 og Linea Orthopedics og Generation II árið 2003. Auk þess má nefna kaup Iconsjóðsins og síðar Pharmaco á Balkanpharma 1999, kaup TölvuMynda á hlut í ítalska fyrirtækinu Exper Automation árið 2000, kaup Flögu á Medcare árið 2002, og kaup Íslenskrar erfðagreiningar á bandaríska fyrirtækinu MediChem 2002.

Með auknum umsvifum íslenskra fyrirtækja í útlöndum jókst áhugi íslenskra fjármálafyrirtækja á að hasla sér völl erlendis - til að þjóna íslenskum viðskiptavinum sínum og til að afla nýrra markaða. Fyrstu sporin voru stigin með stofnun dótturfélaga í Luxembourg - fyrsta slíka félagið var stofnað af Kaupþingi 1998. Árið 2000 var atburðaríkt í bankaheiminum þegar Landsbanki Íslands keypti hlut í Heritable Bank og Íslandsbanki (FBA) keypti R. Raphael & Sons - hvort tveggja breskir bankar. Það var hlutverk Kaupþings og síðar Kaupþings Búnaðarbanka að leiða útrás íslensku bankanna. Kaupþing hefur skilgreint Norðurlönd sem sinn heimamarkað og markvisst keypt upp fyrirtæki á Norðurlöndunum - sænsku fyrirtækin Aragon og JP Nordiska 2002, finnska fyrirtækið Sofi 2002, ráðandi hlut í finnska fyrirtækinu Norvestia 2003 og lítið norskt fjármálafyrirtæki, Tyren Holding 2003. Nýjustu fjárfestingar Kaupþings Búnaðarbanka eru í Singer & Frielander sem er breskur fyrirtækjabanki - þar á Kaupþing nú tæplega 10% hlut.

Stærð skiptir ekki öllu

Flest félög sem hér eru nefnd til sögunnar eru stór og öflug. Þó eru mikilvægar undantekningar sem sýna að stærðin skiptir ekki öllu máli heldur stjórnunarlegur ásetningur og styrkur. Áhugavert er að skoða sögu Sæplasts í þessum efnum. Fyrirtækið var tiltölulega lítið og starfaði á þröngum markaði við framleiðslu á plastkerjum fyrir sjávarútveg. Að mörgu leyti var fyrirtækið hefðbundið íslenskt iðnfyrirtæki með lítinn markað og takmarkaða afkomumöguleika. Árið 1999 byrjaði Sæplast að kaupa önnur fyrirtæki og á nú verksmiðjur á Íslandi, Noregi, Indlandi, Kanada, Spáni og Hollandi. Flest eru þetta fyrirtæki sem Sæplast hefur keypt og sameinað rekstri félagsins á Íslandi. Hjá félaginu starfa nú u.þ.b. 300 manns - þar af um 40 á Íslandi. Annað áhugavert dæmi um möguleika lítilla fyrirtækja til að vaxa með kaupum á erlendum fyrirtækjum er Nordic Photos. Fyrirtækið er stofnað með þaðað markmiði að selja norrænt myndefni með rafrænum hætti. Nordic Photos á takmarkaða markaðsmöguleika á Íslandi enda stofnað með það markmið í huga að starfa á Norðurlöndunum. Þetta litla fyrirtæki hefur þegar keypt tvö fyrirtæki í sambærilegum rekstri í Svíþjóð. Uppkaup á fyrirtækjum eru ekki einungis verkfæri stórra fyrirtækja á hlutabréfamarkaði heldur áhugavert tæki fyrir öll fyrirtæki sem hafa fjárhagslegan og stjórnunarlegan styrk.

Aðferðir við kaup og yfirtökur

Áður en hafist er handa við kaup á erlendu fyrirtæki er mikilvægt að fyrir liggi raunhæfar viðskiptaáætlanir, markmiðasetning og stefnumótun. Í framhaldi af samruna Íslandsbanka og Fjárfestingabanka atvinnulífsins (FBA) árið 2000 var Íslandsbanki eigandi að einkabanka í Bretlandi, var meðal fjárfesta í nýjum Internet-banka í Danmörku og átti í viðræðum um kaup á banka í Lettlandi. Líklegt er að svo fjölþætt stefna sé erfið í framkvæmd.

Mikilvægt er að kaupandinn geri sér grein fyrir fjárhagslegri og stjórnunarlegri getu til að takast á við verkefnið og miði væntingar og markmið kaupanna við það. Kaup á fyrirtæki erlendis tekur mikinn stjórnunartíma frá hæfum stjórnendum - slíkur tími þarf að vera fyrir hendi hjá kaupandanum. Á tímabili sinnti Baugur stórviðskiptum beggja vegna Atlantshafsins. Slíkt stórvirki hefði vafist fyrir mun stærri fyrirtækjum enda hefur félagið nú beint meginsókn sinni erlendis að Bretlandsmarkaði með góðum árangri.

Í ljósi menningar, tungu og fjarlægðar ættu íslensk fyrirtæki fyrst og fremst að leita kauptækifæra á Norðurlöndum og í Bretlandi. Aðrir markaðir henta íslenskum fyrirtækjum síður vegna fjarlægðar, tungumálaerfiðleika og ólíkrar viðskiptamenningar. Fyrsta skrefið við kaup á fyrirtækjum er að afla upplýsinga um fyrirtæki sem starfa á viðkomandi mörkuðum. Mikilvægt er að hafa heildarmynd af starfsviðinu á því markaðssvæði sem um ræðir. Safna þarf öllum aðgengilegum upplýsingum um viðkomandi fyrirtæki sem fáanlegar eru. Val á fyrirtæki tekur tillit til viðskiptaáætlana og markmiða kaupandans ásamt upplýsinga sem safnað hefur verið um markaðinn og einstök fyrirtæki. Rétt er að velja og vinna með fleiri en eitt fyrirtæki á sama tíma. Þegar búið er að velja fyrirtæki sem koma til greina þarf að opna viðræður. Á því stigi er mikilvægt að hafa aðgang að ráðgjafa sem þekkir viðkomandi markað og starfssvið. Æskilegt er að öll samskipti við fyrirtækin sem ætlunin er að ræða við fari fram með tilstilli slíkra ráðgjafa. Viðræður um verð og uppbyggingu viðskiptanna eru vandasamar og krefjast þess að fagfólk leiði viðræðurnar. Kaupendur ættu að hafa sem minnst samskipti við seljendur á meðan á kaupferlinu stendur önnur er félagsleg samskipti sem hafa að markmiði að byggja upp gagnkvæmt traust aðila.

Ef samningar takast um kaup á fyrirtæki þarf að framkvæma áreiðanleikakönnun og ganga frá samningum um viðskiptin. Í ólíkum löndum gilda mismunandi reglur og hefðir um bókhald, fjármögnun, starfsmannamál, umhverfismál o.fl. Þess vegna er sjálfsagt að nota þarlenda endurskoðendur og lögfræðinga þegar gengið er frá kaupum á erlendum fyrirtækjum. Við frágang verður að ganga vel frá tryggingarákvæðum samninga og tryggja að áreiðanleikakönnun sé unnin af fagmennsku. Fjármögnun viðskiptanna þarf að tryggja með lánsfjármögnun eða eiginfjármögnun. Möguleikar til fjármögnunar eru margir og sjálfsagt er að vinna náið með sérfræðingum á því sviði í kaupferlinu. Einnig er mikilvægt að hafa fjármögnun kaupanna í huga við val á fyrirtæki - efnahagsreikningur félagsins sem keypt er ræður miklu um mögulega fjármögnun kaupanna - einnig er oft mögulegt að selja tilteknar eignir eftir kaupin eða hluta starfseminnar sem ekki fellur að starfsemi kaupandans.

Takmarkaður vöxtur

Ísland er lítill markaður með takmarkaða vaxtarmöguleika fyrir fyrirtæki og fjárfesta. Framsækin fyrirtæki eiga að leita leiða til að kaupa fyrirtæki erlendis. Áhugaverð leið er að skilgreina Norðurlönd sem sinn heimamarkað líkt og Kaupþing, Opin Kerfi og Nordic Photos hafa gert. Í slíkri stefnumótun fyrirtækja felast mikil tækifæri en jafnframt skynsamleg takmörkun. Stærð íslenska markaðarins takmarkar umsvif íslenskra fjármálafyrirtækja og umbreytingasjóða. Á Norðurlöndum eru fyrirsjáanlegar miklar breytingar í atvinnulífi vegna kynslóðaskipta í fyrirtækjum og samruna fyrirtækja milli landa - ný fyrirtæki verða mynduð sem þjóna öllum Norðurlöndunum sem einum markaði. Íslensk fjármálafyrirtæki í samvinnu við íslensk fyrirtæki og stjórnendur eiga að koma að þessum umbreytingum með virkri þátttöku og fjarfestingum. Það er löngu tímabært að íslensk fjármálafyrirtæki, önnur en Kaupþing Búnaðarbanki, opni starfsstöðvar á Norðurlöndunum. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa mörg hver öðlast verulega reynslu af fjárfestingum erlendis. Jafnframt hafa þjónustufyrirtæki sjávarútvegsins, s.s. bankar, iðnfyrirtæki og flutningafyrirtæki verðmæta reynslu af alþjóðlegum viðskiptum. Í ljósi þessarar reynslu og þekkingar eiga íslensk fyrirtæki sem starfa í sjávarútvegi og annarri matvælavinnslu að hafa metnað til að verða leiðandi fyrirtæki á sínu sviði í Evrópu. Íslensk fyrirtæki og einstaklingar hafa mikla möguleika til að stækka markaði og hasla sér völl í alþjóðlegum viðskiptum með kaupum á erlendum fyrirtækjum. Í mörgum tilfellum er útrás af því tagi nauðsynleg fyrirtækjum sem náð hafa þroska og mikilli markaðshlutdeild á örmarkaðinum Íslandi. Reynslan sýnir að jafnvel lítil fyrirtæki með öfluga bakhjarla og einbeitta stjórnendur geta náð góðum árangri í að stækka fyrirtækin og stækka markaðssvæði með kaupum á erlendum fyrirtækjum. Efasemdir fræðimanna um ytri vöxt fyrirtækja virðast ekki eiga við ef litið er yfir sögu íslenskra fyrirtækjakaupa á erlendum mörkuðum.

Höfundur starfar við kaup og samruna fyrirtækja hjá Michelsen & Partners í Kaupmannahöfn.