Dagsbirtan seitlar inn í tröllaukið gímaldið. Hreyfing á köðlunum sýnir þá sverari en þeir eru í raun.
Dagsbirtan seitlar inn í tröllaukið gímaldið. Hreyfing á köðlunum sýnir þá sverari en þeir eru í raun.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þríhnúkagígur, stærsta þekkta hraunhvelfing í heimi og eitt merkasta náttúruundur á Íslandi, er falinn neðanjarðar við bæjardyr Reykjavíkur. Árni B. Stefánsson augnlæknir og hellakönnuður sem seig í gíginn fyrstur manna, leggur til að grafin verði göng inn í gíginn og reistur útsýnispallur til að gera almenningi kleift að skoða þessa stórfenglegu náttúrusmíð.

Þríhnúkagígur var ókannaður þar til á Jónsmessu 1974 að greinarhöfundur seig niður á botn gígsins. Vitað er um tilraun til þess að síga í gíginn 1958 en þeir sem að henni stóðu hættu við þegar slokknaði á ljóskeri sem þeir höfðu meðferðis. Var það talið bera vott um skort á heilnæmu andrúmslofti í gígnum.

Vorið 1973 heyrði ég fyrst af gímaldinu í Þríhnúkum. Einar Ólafsson hafði ári áður, fyrir eindregin tilmæli forsvarsmanna Ferðafélags Íslands, hafið að kynna þetta svæði og sýndi þar "hellana sína". Farið var um svæðið undir leiðsögn Einars. Hann hafði viðurnefnið, eða var nefndur manna í millum, Einar Bláfjallageimur. Var það virðingarheiti. Hann hafði í þessari ferð, aldraður maðurinn, ekki mikinn áhuga á mér. Ef til vill fannst honum áhugi minn full mikill. Ég hélt mig því til baka, en reyndi þó að halda mig nægilega nálægt til að heyra hvert orð sem af vörum hans féll. Að áliðinni ferðinni hvíslaði hann að jafnaldra sínum og benti: "Þarna vestur af, sjáðu þarna..., er opinn gígur og þar undir er botnlaust gímald.... Það hefur ekki verið kannað og enginn veit hvað það er djúpt." Þetta var ekki ætlað öðrum, en ég varð ekkert nema eyru. Gat þetta verið? Var svona til! Varð strax friðlaus. Þangað niður yrði ég að komast. Dýptin var aðeins óþægilegt aukaatriði, sem þurfti að takast á við. Þó það sé annað mál, kynntist ég Einari lítillega fáum árum síðar. Hann lá þá sína síðustu legu á Borgarspítalanum, ég aðstoðarlæknir. Hann var vel málhress og fróðlegt að tala við hann. Næm skynjun hans á hraunrennsli og tilurð hraunhella gerði mér ýmislegt ljósara en áður. Hann vissi greinilega um fleiri hella, en hann vildi láta uppi. Var mér það að mörgu leyti ánægjuefni og staðfesti mína eigin afstöðu.

Sumarið 1973 fór ég, ásamt Ólafi bróður mínum, og mældum við dýpt gígsins með það í huga að síga þar niður. Fyrst hentum við steini niður og heyrðum hann lenda 4½ sekúndu síðar. Þetta gátu verið allt að 160-180 metrar. Með línu mældum við dýpið um 120 metra. Það gat verið sylla svo dýptin var 120-180 metrar.

Ég notaði veturinn eftir til að lesa allt sem ég komst yfir um bjargsig og könnun lóðréttra hellisrása. Sá vandi fylgir spunnum köðlum að í frjálsu sigi snúa þeir ofan af sér og sigmaðurinn snýst með. Franskur hellamaður sagði best að loka augunum. Það tæki innan við 10 mínútur að jafna sig af svimanum, þegar niður kæmi! Þau frjálsu sig sem ég las um voru öll mun styttri en þeir 120 m, sem fyrirsjáanlegir voru í Þríhnúkum."

Þetta vandamál varð að leysa. Ofnar siglínur voru farnar að koma á markað á þessum tíma, en voru stjarnfræðilega dýrar. Frændi minn og félagi, Páll Gunnlaugsson, hafði samband við Magnús Gústafsson forstjóra Hampiðjunnar, og útvegaði Magnús 200 metra langan 20 mm kaðal. Ég smíðaði létt stálkefli fyrir kaðalinn, hannaði öflugt sigbelti og það sem var mest um vert, segulnagla á beltið sem varnaði því að sigmaður snerist með þegar yndist ofan af kaðlinum. Mótorhjólahjálmur og bólstur á axlir var til varnar hugsanlegu hruni. Við æfðum okkur svo í Tintron á Gjábakkahálsi vorið 1974.

Með þetta í farteskinu, járnkarl, bjartsýni og tvær UHF-talstöðvar, héldum við af stað á Jónsmessunótt 1974, tíu frændur, vinir og kunningjar. Auk mín þeir Ólafur Stefánsson bróðir minn, Jón Ingi Haraldsson, Páll Gunnlaugsson, Gylfi Gunnarsson, Sveinbjörn Garðarsson, Bjarni Björnsson, Örn Magnússon og tveir félagar hans (að mig minnir). Við ókum upp í Bláfjöll og gengum í björtu veðri móti sólarlaginu þá 4-5 km sem eru að gígnum.

Ólýsanleg tilfinning

Upp úr miðnætti slökuðu þeir mér niður. Ýmislegt virkaði ekki sem skyldi. Við strekktum hliðarlínu með þungum steini í endann. Átti lína þessi að vera hald fyrir sigmann þegar sigkaðallinn yndi ofan af sér. Þó þrír metrar eða meira væru milli línanna og strekkt á báðum snerust þær saman. Reynist þetta hið mesta óráð og skárum við því á þessa stórhættulegu "hjálparlínu". Talstöðvarnar virkuðu ekki nema skammt. Það kom í ljós þegar félagar mínir höfðu slakað mér um 30-40 metra. Slógu þeir þá á ráðstefnu. Ég hékk þar á meðan og gafst dálítill tími til að horfa niður gosrásina í gímaldið. Afar sérkennileg tilfinning fyllti mig. Höluðu þeir mig síðan upp og ræddum við málin. Ákváðum við að þeir létu mig síga niður og gæfu mér 10 mínútur niðri. Við ákváðum að nota einfalt merkjakerfi, svipað því sem notað er í bjargsigi, með því að kippa í línuna. Einnig ákváðum við að þeir hífðu mig strax upp, gæfi ég ekki merki þegar í botn kæmi. Þar sem Þríhnúkagígur er gömul eldstöð var ekki óhugsandi að einhver koltvísýringur væri í botni. Botninn hafði ég séð, hann var þarna, en ansi langt niðri. Þóttumst við nú hafa sett fyrir alla leka. Sigbeltið var vandað og hélt manni sitjandi. Á brúninni höfðum við planka. Brúnahjól, eins og notað er í bjargsigi, hefði létt félögum mínum lífið.

Það var alveg ólýsanleg tilfinning að síga þarna niður. Einkennileg tómleikakennd fyllti mig neðarlega í gíghálsinum, tilfinning blönduð sérkennilegri gleði og eftirvæntingu þegar risavaxin gíghvelfingin opnaðist fyrir augum mér. Ef til vill ekki ósvipuð þeirri himnesku sælu sem þeir sem vaktir eru úr dái lýsa. Sálin svífur þá yfir eigin líkama, horfir á skrokkinn ofanfrá og er í þann mund að hverfa á vit eilífðarinnar og ljóssins. Ég varð bergnuminn í orðsins fyllstu merkingu. Dinglaði eins og dordingull úr hlöðulofti, á leið niður í þetta ótrúlega stóra gímald.

Án segulnaglans hefði ég spunnist í ómegin. Með honum gat ég ekki aðeins stöðvað snúninginn heldur líka stillt mig inn á hentug sjónarhorn til að gaumgæfa veggina. Finna hugsanlegar hellarásir, eða annað, sem máli skipti. Mikið óskaplega var ég lítill og mikið feiknalega var gímaldið stórt.

Söðullaga hrun var í botni, hallaði það niður til NA og SV og upp til NV og SA. Er það tilkomið vegna hruns úr langveggjum eldsprungunnar.

Vonbrigðin voru mikil. Að vísu eru efri 60-70 metrar gígrásarinnar fagurlega skreyttir með upprunalegri hraunhúð. Rauðleitt hraunfruss, sem lekið hefur niður í dropasteina sömu gerðar, skreytir lóðrétta hliðarrás, eða stromp, upp til NA og umhverfi hans. Í meginrásinni litlu ofan við strompinn opnaðist þröng hraunrás frá NA. Neðst í gígpyttinum voru aðeins berir klettaveggir, tugi metra upp, engar uprunalegar hraunmyndanir. Í botni var aðeins grjóturð. Þetta var hreinlega eins og grjótnám! Þvílík vonbrigði. Engin afrennslisrás, engar hraunmyndanir. Aðeins ómerkilegur risastór klettapyttur. Í mínum huga var þetta bara djúp ljót hola og alls ekki ferðarinnar virði. Engar myndir voru teknar, enda áttum við ekki myndavélar. Eitthvað spurðist þetta út, en við gerðum ekkert úr þessu. Það sem eftir sat og situr enn í huganum er tilfinningin einkennilega; eigin smæð og þessi hrikalega - hrikalega stærð.

Ástæður þess að við sögðum ekki frá ferðinni í fjölmiðlum á sínum tíma voru aðallega tvær. Mér var ljóst að umfjöllun, sérstaklega í fjölmiðlum, hafði leitt til ásóknar og stórkostlegrar eyðileggingar viðkvæmra myndana í öllum þekktum hraunhellum þess tíma. Vissi ég fjölda dæma þar um. Í öðru lagi olli Þríhnúkagígur miklum vonbrigðum, því ekkert sást af upprunalegum hraunmyndunum í gíghvelfingunni sjálfri og hún því ekki "falleg" í þeim skilningi. Okkur þótti ferðin því hálf misheppnuð og við ekki hafa frá miklu að segja. Við gerðum okkur enga grein fyrir því hve stærð hvelfingarinnar er merkileg, né því að sigið var mikið afrek í sjálfu sér. Sennilega með lengstu frjálsum sigum þess tíma. Daði Garðarsson, úr Hjálparsveit skáta í Vestmannaeyjum, seig svo í Þríhnúkagíg 17. júní 1977 og var greint frá því í Morgunblaðinu. Þá var talið að hellirinn væri ókannaður. Athugasemd var gerð við frétt Morgunblaðsins og þá fyrst sagt opinberlega frá ferðinni í hellinn 1974. Ferð Vestmannaeyinganna var ekki minna afrek þótt þeir hafi ekki orðið fyrstir til að síga í gíginn.

Önnur ferð í gíginn

Veturinn 1986 eða 1987 sagði yngri bróðir minn Einar (Everestfari) mér af rás niður til suðvesturs úr gígnum. Í grein í Hjálparsveitartíðindum 1989 lýsti Björn Ólafsson (Everestfari) strompi upp af þeirri rás. Ég var ákaflega argur sjálfum mér að hafa misst af þessu. Sjálfur hafði ég í ferðinni 1974 séð hliðarrás í gíghálsinum, sem enginn annar virtist hafa séð. Þegar Einar kom svo ásamt Birni úr fjallgönguferð til Sovétríkjanna 1990 fengu þeir engan frið. Ef einhver gat klifið strompinn, sveiflað sér út í gatið í gíghálsinum, hjálpað mér að mæla gíginn og fullkanna hann, þá voru það þeir. Reyndar hafði ég byrjað að róa í Einari áður og var þetta auðsótt mál. Hugmynd okkar var að flóðlýsa gímaldið og kvikmynda ferðina. Fengum við Einar Daníelsson kvikmyndagerðarmann í lið með okkur.

Leiðangurinn var farinn vorið 1991. Nutum við stuðnings ýmissa fyrirtækja, félagasamtaka og einstaklinga. Jóhann Rönning hf. lagði til raflínur og ljósabúnað, Skátabúðin lánaði sigbúnað og mikill tækjabúnaður var fenginn að láni hjá Hjálparsveitum skáta í Reykjavík og Kópavogi. Fjöldi hjálparsveitarmanna úr fyrrnefndum sveitum hjálpuðu okkur. Ætlunarverkið tókst, að því undanskildu að ekki tókst að kvikmynda leiðangurinn sem skyldi, því hátt í 2,5 kW ljósabúnaðurinn dugði skammt til að lýsa gímaldið upp. Ólafur Stefánsson tæknifræðingur, Bragi Guðmundsson kortagerðarmaður og Sigmundur Einarsson jarðfræðingur hjálpuðu greinarhöfundi síðan við söfnun og vinnslu yfirborðsgagna.

Hellirinn vakti athygli erlendis

Nokkuð var fjallað um Þríhnúkagíg í fjölmiðlum 1991 í kjölfar ferðar þeirra félaga. M.a. birti Morgunblaðið grein um hellinn (7. júlí 1991). Gígurinn var og kynntur á fræðslufundi hjá Náttúrufræðifélaginu í nóvember sama ár og ítarleg grein um hann birtist í Náttúrufræðingnum 1992. Gígurinn var einnig kynntur á alþjóðlegum ráðstefnum um hraunhellafræði og í alþjóðlegum ritum um hellafræði, m.a. á alþjóðlegri hellaráðstefnu á Hawaii 1991 og stuttu síðar í NSS News, einu víðlesnasta riti um hellarannsóknir. Nokkrir amerískir hellamenn. sem komu hingað til lands með Kalmanshellisleiðangrinum 1993, sigu í gíginn og fannst allmikið um. Fleiri erlendir hellamenn hafa farið þarna niður og eins margir innlendir fjallamenn, aðallega hjálparsveitarfólk.

Fjölmargir hraunhellar hafa fundist frá 1991 um víða veröld og ýmsar aðrar gosmenjar, en ekkert líkt Þríhnúkagíg. Á Hawaii hafa á seinni árum fundist djúpir fallgígar, m.a. einn með botnrásum niður á tæplega 300 m dýpi. Þær rásir eru þó aðeins lóðrétt gosrör með frauðkenndum veggjum. Sumir þessara fallgíga eru enn ókannaðir vegna erfiðs aðgengis og tæknilegra örðugleika.

Vissulega virtist fólki þykja þetta merkilegt fyrirbæri, en viðbrögð voru afar lítil. Eitt bréf í Morgunblaðinu 27. nóvember 1991 undirritað af Sigurði með yfirskriftinni "Opnum Bláfjallageim". Náttúruverndarráð tók friðlýsingu Þríhnúka fyrir að beiðni greinarhöfundar og sendi t.d. Bláfjallanefnd bréf, þar sem farið var fram á, að nefnd Bláfjallafólkvangs fjallaði um friðlýsingu og aðgerðir. Hugmyndir komu fram um jarðgöng inn í gíginn. Þær voru óljósar og lítið ræddar við undirritaðan sérstaklega og skiluðu sér mest til hans á förnum vegi. Eftir að Sigurður Jónsson jarðfræðingur kom frá ráðstefnu um hraunhella á Azoreyjum 1992 voru hugmyndir um aðgengi Þríhnúkagígs ræddar á fundun Hellarannsóknafélags Íslands, þar með taldar um jarðgöng. Engin þeirra hugmynda var fýsileg.

Göng og útsýnispallur

Í gegnum tíðina hef ég og fleiri oft leitt að því hugann hvernig gera má hellinn aðgengilegan svo almenningur og ferðamenn geti notið þessarar einstæðu myndunar án skaða á hellinum eða mynduninni sjálfri. Við ritun orðanna "að hanga þar eins og dordingull" fæddist raunhæf hugmynd sem hér er kynnt. Að setja þar, á 56-60 m dýpi, útsýnispall á hellisvegginn. Aðgengi að honum yrði um jarðgöng upp á yfirborð jarðar. Pallurinn yrði úr stálgrind og kleift að horfa niður í gegnum grindina og af grindinni niður og upp. Á þessum stað, í miðju eldgígsins, er upplifun þessa tröllaukna gímalds svo sterk, að með ólíkindum er. Hæðin niður á urðarsöðulinn er svipuð og séð niður úr Hallgrímskirkjuturni, eða af þaki 20 hæða háhýsis. Er hæðin meiri til hliðanna. Gígrásirnar beint upp eru álíka. Eða eins og að horfa af Skólavörðuholti upp á útsýnissvalir kirkjunnar.

Vídd gígrásarinnar er á þessum stað nægileg til að rúma töluverðan fjölda fólks. Upprunalegar hraunmyndanir eru þarna hvað sérstæðastar. Engin hætta er að fólk skaði þarna viðkvæmar myndanir. Jarðgöngin, eitt eða tvö pínulítil 3-4 metra op á gígveggnum, skaða gíginn ekki miðað við stærðargráðu hans, svalirnar ekki heldur. Frá þessu sjónarhorni nýtur lokaði strompurinn upp af NA hluta hvelfingarinnar sín afar vel. Hann er skreyttur rauðleitu hraunfrussi sem hangir fagurlega niður í stuttum dropasteinsdrönglum á stóru svæði. Hvergi í veröldinni er hægt að horfa upp um gosrásir af þessari stærðargráðu. Þó stærri hvelfingar finnist í kalksteinshellum er þetta aldeilis engu líkt. Nákvæmlega á þessum stað er gígurinn svo magnaður að vart verður með orðum lýst. Upplifunin slík, að ólíklegt er að nokkur, sem af fréttir, muni vilja láta slíkt fram hjá sér fara, hafi hann færi á.

Frágangur á yfirborði jarðar

Ekki má raska norðaustasta Þríhnúknum, eða upprunalegum hraunmyndunum í gígrásunum, á nokkurn hátt, ef undan eru skilin jarðgangaopin og svalirnar í gíghálsinum. Satt að segja þarf að lagfæra nokkuð. Hreinsa þarf til á yfirborði og girða kringum opið. Gera þarf stíg á hnúkinn að norðan og afmarka hann með stikum, línum eða keðjum. Sjá þarf til þess að viðkvæmur gróður í hlíðum hnúksins jafni sig. Setja þarf upp skilti með helstu upplýsingum um gíginn á viðeigandi stað. Útsýn frá Þríhnúkum til Reykjavíkur og Snæfellsness er hreint frábær. Rétt er að geta þess að þarna er á takmörkuðu svæði mikið af skoðunarverðum náttúruminjum, eldgígum, hrauntröðum og fleiru. Gosminjarnar eru margar hverjar innan við 1000 ára, eða frá því eftir landnám.

Mikið aðdráttarafl

Að standa inni í miðjum eldgíg af þeirri stærðargráðu sem Þríhnúkagígur er, er einfaldlega með ólíkindum. Líklegt er að mikill fjöldi Íslendinga og stór hluti erlendra ferðamanna muni heimsækja tröllaukna gíghvelfinguna. Með nálægð sinni við Reykjavík er gígurinn innan seilingar. Líklegt er að bæði gíghvelfingin sjálf og það afrek sem framkvæmdin í raun er, muni hafa ófyrirséð áhrif á íslenska ferðaþjónustu. Þetta fyrirbæri gæti mögulega haft meira aðdráttarafl en nokkuð annað náttúrufyrirbrigði á landinu. Varðveisla myndunarinnar verður að sitja í fyrirrúmi og mannvirki að standast ýtrustu kröfur um öryggi og útlit.

Tilfinning sú sem hver uplifir við gígopið og í gígnum mun gera þann sama næmari fyrir eigin smæð og forgengileik. Hún mun um leið auka virðingu hans fyrir þeirri jörð sem hann byggir. Náttúruvernd er ekki alltaf fólgin í því að gera ekkert, þó slíkt geti vissulega átt við, í völdum tilvikum. Náttúruvernd er að sýna náttúrunni virðingu og skilja ætíð svo við, að hún og þeir sem landið erfa, njóti.

Á heima á heimsminjaskrá

Sú hugmynd sem hér er sett fram um aðgengi Þríhnúkagígs byggist á persónulegri reynslu við könnun gígsins og er ávöxtur áratugapælinga. Vinir höfundar, frændur hans, kunningjar og fjöldi annarra lagði hönd á plóg. Þeim sé þökk. Án þeirra hefði þessi hugmynd ekki orðið til. Mér fannst rétt að varpa hugmyndinni fram á þann hátt sem raun ber vitni og án þess að vinna henni fyrst fylgis á annan hátt. Hún hefur verið kynnt í handriti fyrir einstaklingum í Hellarannsóknafélagi Íslands, við Náttúrurfræðistofnun, Norrænu Eldfjallastöðina og hjá Bláfjallanefnd og þeir beðnir um athugasemdir. Fróðlegt verður að fá viðbrögð, sérstaklega þeirra sem eru tilbúnir að koma að framkvæmdinni, stuðla að fjárveitingum eða koma að málinu á annan hátt. Þetta er vel framkvæmanlegt. Verði af framkvæmdum er rétt að geta þess að höfundarréttur gildir um myndir, teikningar og þær hugmyndir sem hér eru settar fram. Varðveisla gígsins sjálfs og umhverfis hans er í fyrirrúmi. Þannig og aðeins þannig má njóta hans til fullnustu. Sé fyrir þessu pólítískur vilji og fáist grænt ljós á lagningu vegar og rafmagns er undirritaður ásamt félögum sínum tilbúinn að koma að þessu. Hann hefur ásamt þeim, næga þekkingu til að koma að verkefni sem þessu og ljúka því. Alþjóðleg tengsl í hellarannsóknum og varðveislu hella eru fyrir hendi. Hafa þarf samvinnu og samráð við Náttúruvernd Ríkisins, Hellarannsóknafélag Íslands, sem höfundur er auðvitað meðlimur í, og fjölda annarra aðila.

Þríhnúkagígur og nánasta umhverfi hans á fullt erindi á heimsminjaskrá. Mikilvægi hans nær langt út fyrir landsteinana. Okkur Íslendingum ber að varðveita hann í þágu mannkyns. Varðveisla gígsins og aðgengi almennings að þessu stórkostlega náttúruundri fer vel saman í þeim hugmyndum sem hér hafa verið kynntar.

Nokkrar heimildir

Morgunblaðið. Þríhnúkagígur. Stórbrotið náttúruundur. 07.07.1991, bls. c 15-16.

Borges, X., Y. Silva and Z Pereira 1991. Caves and pits of the Azores etc. Angra Do Heroismo 1991. 6th. International Symposium on Vulcanospeleology Hilo-Hawai, USA.

Árni B. Stefánsson 1991, Þríhnúkagígsferðin. Surtur ársrit 1991, 10-15, 1991.

Árni B. Stefánsson 1992, Þríhnúkagígur. Náttúrufræðingurinn 61. ár 3-4 hefti 229-242, 1992

Árni B. Stefánsson 1992, The Þríhnúkagígur Pit of southwest Iceland. NSS News vol 50, no 8, 202-208, August 1992.

Höfundur er augnlæknir og hellakönnuður.