16. janúar 2004 | Fólk í fréttum | 363 orð | 5 myndir

Úrslit Stjörnuleitarinnar fara fram í kvöld

Hver verður næsta poppstjarna Íslands?

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í KVÖLD munu þrír síðustu keppendurnir í Stjörnuleitinni, þau Kalli Bjarni, Jón Sigurðsson og Anna Katrín berast á listrænum banaspjótum. Einn stendur svo uppi í lokin sem sigurvegari.
Í KVÖLD munu þrír síðustu keppendurnir í Stjörnuleitinni, þau Kalli Bjarni, Jón Sigurðsson og Anna Katrín berast á listrænum banaspjótum. Einn stendur svo uppi í lokin sem sigurvegari. Í kvöld munu þau syngja tvö lög hvert; eitt lag syngja allir - nýtt lag sem er samið af Jóni Ólafssyni og Stefáni Hilmarssyni en annað lagið hafa þau sjálf valið. Karl ætlar að syngja sálarslagarann "Mustang Sally", Anna Katrín mun syngja "Imagine" eftir John Lennon en Jón ætlar að reyna sig við lagið "Words" eftir þá Bee Gees-bræður.

Morgunblaðið fékk fjóra þjóðþekkta einstaklinga úr poppbransanum til að spá í spilin og geta sér til um sigurvegara.

Páll Óskar Hjálmtýsson

"Það lítur allt fyrir það að Kalli muni vinna. Hann er búinn að vera traustasti keppandinn til þessa. Upprunalega var ég að vonast til þess að Tinna Marína myndi vinna, mér fannst hún svona mesta poppstjarnan. Þó að Kalli muni líklega vinna finnst mér samt eins og það vanti aðeins upp á poppstjörnueiginleikana."

Jón Jósep Snæbjörnsson

"Ef Kalla Bjarna tekst að landa "Mustang Sally" með sóma þá á hann gríðarmikla möguleika. Anna Katrín valdi vel að taka "Imagine" en hún þarf að vanda raddbeitinguna. Ef hún nær því þá gæti hún orðið Kalla skeinuhætt. Helsti veikleiki Jóns er að hann er ekki sterkur í enskum framburði. En ef honum tekst vel upp þá er fjandinn laus. Þá getur allt gerst. En ef mér yrði stillt upp þá finnst mér Kalli spila þetta best."

Rúnar Júlíusson

"Kalli. Ég er alveg með það á hreinu. Hann vinnur þetta bara. Hann er jafnbestur, öruggur og hæfileikaríkasti söngvarinn."

Margrét Eir

"Mér líst mjög vel á þessi þrjú sem eftir eru. Ég held eiginlega með Önnu, mér finnst hún hafa einhvern neista. Gaman að Jóni en hann er enginn söngvari. Hann er þó sjarmerandi. Kalli hefur staðið sig rosalega vel og þess vegna ætti hann að vinna þetta. Anna er bráðefnileg; er með góðar hugmyndir í túlkun en hún er kannski aðeins of ung. Við eigum efalaust eftir að heyra meira í henni í framtíðinni."

Sigurvegari Stjörnuleitarinnar verður útnefndur poppstjarna Íslands í Vetrargarðinum í Smáralind lokakvöldið. Stjörnuleitin mun svo halda áfram næsta haust - og þá að sjálfsögðu með nýjum keppendum.

Stjörnuleitin er á dagskrá Stöðvar 2 klukkan 20.30.

arnart@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.