26. janúar 2004 | Fasteignablað | 722 orð | 3 myndir

Átthagar byggja 86 leiguíbúðir

Þessi mynd er tekin inni í einni íbúðinni við Berjavelli 4 í Hafnarfirði. Í þessu húsi eru 8 tveggja herb. íbúðir og 18 þriggja herb. íbúðir, sem flestum hefur verið ráðstafað.
Þessi mynd er tekin inni í einni íbúðinni við Berjavelli 4 í Hafnarfirði. Í þessu húsi eru 8 tveggja herb. íbúðir og 18 þriggja herb. íbúðir, sem flestum hefur verið ráðstafað.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
NÚ er í gangi sérstakt átak til fjölgunar leiguíbúða og Íbúðalánasjóður hefur heimild til þess að lána árlega 1,5 milljarða kr. vegna þessa átaks á árunum 2002-2005. Samtals er því um að ræða 6 milljarða kr.
NÚ er í gangi sérstakt átak til fjölgunar leiguíbúða og Íbúðalánasjóður hefur heimild til þess að lána árlega 1,5 milljarða kr. vegna þessa átaks á árunum 2002-2005. Samtals er því um að ræða 6 milljarða kr., sem bætast við hefðbundnar lánsfjárveitingar vegna leiguíbúða. Vextir á lánum fyrir íbúðir byggðar í þessu sérstaka átaki eru 4,5%.

Gert er ráð fyrir, að byggðar verði 600 leiguíbúðir á þessum fjórum árum til viðbótar almennum heimildum Íbúðalánasjóðs vegna leiguíbúða og stefnt að því að byggja hagkvæmar íbúðir. Þá er áherzla lögð á að auka framboð minni íbúða.

Sextíu íbúðir við Gvendargeisla

Þeir Bergþór Jónsson og Fritz H. Berndsen í Mótási stofnuðu á sínum tíma sérstakt fasteignafyrirtæki til þess að eiga og reka leiguíbúðir. Það nefnist Átthagar ehf. og 1. september sl. voru fyrstu leiguíbúðirnar, sem fyrirtækið hefur látið byggja í austurhluta Grafarholts, teknar í notkun.

"Mótás byggði alls sextíu íbúðir fyrir Átthaga í Grafarholti samkvæmt þessu sérstaka átaki til fjölgunar leiguíbúðum og þær eru í þremur fjölbýlishúsum við Gvendargeisla 17, 19 og 21," segir Bergþór Jónsson, framkvæmdastjóri Mótáss hf. "Af íbúðunum eru 30 tveggja herbergja, 18 þriggja herbergja og 12 fjögurra herbergja. Allar þessar sextíu íbúðir hafa þegar verið leigðar út."

"Til viðbótar eru Átthagar langt komnir með að byggja 26 leiguíbúðir í fjölbýlishúsi við Berjavelli 4 í Vallahverfi í Hafnarfirði," heldur Bergþór áfram. "Í þessu húsi eru 8 tveggja herbergja og 18 þriggja herbergja íbúðir. Þær verða teknar í notkun nú í mars. Flestum þeirra hefur verið ráðstafað nú þegar."

Bergþór segir það skrítið, hve lítið hefur verið um gott leiguhúsnæði á íbúðamarkaði hér á landi undanfarna áratugi og bætir við: "Í flestum vestrænum löndum hefur fólk getað leigt öruggt húsnæði til lengri tíma. Það er mjög algengt, að Evrópubúar nýti sér þennan kost. Þannig eru t.d. einungis um 10% sænskra íbúða í fjölbýli í einkaeigu.

Af einhverjum ástæðum hafa Íslendingar heldur kosið að kaupa húsnæði en leigja, jafnvel þótt leigan geti verið mun hagkvæmari kostur fyrir marga. Líkleg ástæða fyrir þessu er óöryggi á leigumarkaði, þar sem erfitt hefur reynzt að gera langtímaleigusamninga fram til þessa. Þessi óvissa á ekki við um íbúðir Átthaga. Fólk getur treyst því að fá að vera í þeim eins lengi og það vill á meðan staðið er í skilum með húsaleigu og gengið er vel um íbúðirnar."

Mismunandi hvað hverjum hentar

Bergþór segir augljóst, að það er mismunandi, hvað hverjum hentar. Sumir vilja eiga sitt íbúðarhúsnæði, öðrum hentar betur að leigja. "Vaxtabætur og húsaleigubætur ráðast af fjölskyldustærð, eignastöðu og tekjum," segir hann. "Margt þarf að skoða ef meta á til fjár hvað borgar sig að gera og í mörgum tilfellum eru það sennilega tilfinningar frekar en útreikningar, sem ráða því, hvorn kostinn fólk velur.

Oft er það bæði heppilegra og þægilegra að leigja en kaupa. Eftir kaup á íbúð þarf í langflestum tilfellum að standsetja hana, sem getur kostað töluverðar fjárhæðir í beinhörðum peningum. Ef leigt er flytur fólk hins vegar yfirleitt inn án nokkurar fyrirhafnar og aukakostnaðar.

Íbúðarkaupum fylgir venjulega skuldbinding langt inn í framtíðina. Sú staða getur komið upp, að fólk þarf að flytja búferlum vegna t.d. náms, veikinda eða af öðrum ástæðum. Stærð fjölskyldu getur líka breytzt. Barneignir, börn sem flytja að heiman, skilnaðir og fráföll geta breytt aðstæðum með skömmum fyrirvara. Ef sölutregða er á markaði þá skapast vandamál, sem ekki er fyrir hendi, ef leigt er. Engir fjötrar fylgja íbúðum Átthaga. Þeim má segja upp kvaðalaust með þriggja mánaða fyrirvara."

Góður valkostur fyrir marga

Bergþór segir leigjendur vera þverskurð af þjóðinni. "Þetta er greinilega góður valkostur fyrir marga, eldri sem yngri," segir hann og tekur sem dæmi þriggja herb. íbúð við Berjarima 4 í Hafnarfirði, sem er 80 ferm.

Leigjandinn þarf að leggja fram tryggingu, sem nemur þriggja mánaða leigu og síðan er húsaleigan, sem í þessu tilfelli er 84.000 kr. á mánuði, dregin út af Visakorti viðkomandi.

Við þetta bætist hússjóður, sem er 5.000 kr. á mánuði, en inni í því er allur kostnaður við sameign, eins og rafmagn, þrif og hirðingu lóðar. Leigjendur þurfa einungis að borga rafmagnsnotkunina í sinni íbúð.

"Viðhald íbúðar kostar peninga og sama máli gegnir um daglega umhirðu sameignar og lóðar. Hún kostar fé og fyrirhöfn. Þennan kostnað og umstang eru leigjendur lausir við," segir Bergþór.

Öllum íbúðum Átthaga fylgir ísskápur, örbylgjuofn, uppþvottavél, þvottavél, þurrkari, gardínur og öll ljós. "Þar sparast leigjendum líka verulegur kostnaður," segir Bergþór Jónsson að lokum.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.