Það skiptir miklu máli fyrir íslenzku þjóðina hverjir eiga Flugleiðir. Fyrirtækið hefur grundvallarþýðingu fyrir samgöngur þjóðarinnar við önnur lönd.

Það skiptir miklu máli fyrir íslenzku þjóðina hverjir eiga Flugleiðir. Fyrirtækið hefur grundvallarþýðingu fyrir samgöngur þjóðarinnar við önnur lönd. Flugleiðir hafa gott af samkeppni eins og allir en samkeppnisaðilar Flugleiða hafa aldrei náð að verða þeir lykilaðilar í samgöngukerfi þjóðarinnar, sem félagið hefur verið frá upphafi. Þeir veita Flugleiðum aðhald og það skiptir vissulega máli.

Í fyrradag urðu eigendaskipti á ráðandi hlut í Flugleiðum. Eimskipafélag Íslands hafði verið aðili að flugsamgöngum Íslendinga fyrst sem stór hluthafi í Flugfélagi Íslands, þ.e. félaginu sem myndaði kjarnann í Flugleiðum ásamt Loftleiðum fyrir þremur áratugum. Afskiptum Eimskipafélagsins af flugmálum lauk sl. haust, þegar Íslandsbanki, eða fyrirtæki á vegum bankans, eignuðust hlutabréf Eimskips í Flugleiðum. Þar með var skorið á tengsl, sem höfðu verið þarna á milli í sex áratugi eða þar um bil. Ljóst var jafnframt, að félög á vegum Íslandsbanka hygðust ekki eiga þessi hlutabréf til frambúðar.

Nú hafa félög tengd Byggingavöruverzlun Kópavogs og þeirri fjölskyldu, sem er aðaleigandi þess fyrirtækis eignast stóran hlut í Flugleiðum.

Byggingavöruverzlun Kópavogs hefur verið afar farsælt fyrirtæki. Það hóf starfsemi sína í litlum skúr við Kársnesbraut í Kópavogi. Það hefur verið byggt upp smátt og smátt augljóslega í krafti þeirrar lífsspeki að sígandi lukka sé bezt. Á undanförnum árum hafa umsvif fjölskyldunnar, sem á þetta fyrirtæki, aukizt mjög. Það er traustvekjandi að þeir sem staðið hafa að uppbyggingu atvinnurekstrar með þeim hætti, sem eigendur Bykó hafa gert gerist aðaleigendur Flugleiða. Þeir hafa sýnt í verki hæfni til að eiga og reka fyrirtæki.

Í ljósi þeirra umræðna, sem hér hafa staðið um skeið, um að ekki væri heppilegt að örfáir aðilar eignist meira og minna þann atvinnurekstur, sem máli skipti á Íslandi, ber að fagna því, að þær tvær viðskiptasamsteypur, sem mest hafa látið að sér kveða síðustu mánuði koma ekki við sögu í þessum viðskiptum.

Kaup Bykó-fjölskyldunnar á stórum hlut í Flugleiðum þýða, að eignarhaldið í íslenzku viðskiptalífi er frekar að breikka.

Vissulega hefur viðskiptasamsteypan í kringum Bykó orðið æ umsvifameiri á undanförnum misserum. En með kaupum þeirra á stórum hlut í Flugleiðum hefur skapazt meira jafnvægi en ekki minna á markaðnum hér.

Þeir sem hlut eiga að máli í þessum viðskiptum hafa gefið til kynna, að þeir hyggist taka fleiri fjárfesta með sér inn í rekstur Flugleiða. Vonandi mun það stuðla að enn frekari breikkun eignarhalds og meira jafnvægi í viðskiptalífinu.

Það er mikil ábyrgð fólgin í því að taka að sér eignarhald á svo stórum hlut í Flugleiðum. Þeir Jón Helgi Guðmundsson og Hannes Smárason og fjölskyldur þeirra hafa sýnt að þeir eru til þess fallnir að standa undir slíkri ábyrgð.