[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Samson

Björgólfur Guðmundsson, sonur hans Björgólfur Thor Björgólfsson, og félagi þeirra Magnús Þorsteinsson hafa komið víða við í íslensku viðskiptalífi á umliðnum misserum, saman undir merkjum Samsonar og hver í sínu lagi. Þeir eiga stóran þátt í þeim miklu breytingum sem orðið hafa í viðskiptalífinu á tiltölulega skömmum tíma. Viðskiptasamsteypan Samson er orðin ein sú öflugasta hér á landi en þeir Björgólfur, Björgólfur Thor og Magnús eru með víðtæk áhrif í fjármálum, flutningum, lyfjaframleiðslu og bókaútgáfu. Grétar Júníus Guðmundsson skoðaði umsvif Samsonar-hópsins.

UPPHAFIÐ að því viðskiptaveldi sem Samsonar-hópurinn er hér á landi má rekja til Rússlands eða jafnvel Akureyrar. Samstarf þeirra Björgólfs, Björgólfs Thors og Magnúsar hófst hjá gosdrykkjaverksmiðjunni Sanitas á Akureyri árið 1991. Pharmaco, sem átti verksmiðjuna, ákvað að hætta rekstrinum árið 1993, en það kom í hlut þeirra félaga, ásamt þremur öðrum Íslendingum, að koma vélum verksmiðjunnar í verð. Þá var stefnt til Sankti Pétursborgar í Rússlandi þar sem þeir settu gosdrykkjaverksmiðjuna Bravo International á fót í samstarfi við rússneska og breska aðila. Eftir rekstrarerfiðleika í byrjun tókst þeim að snúa rekstrinum til betri vegar. Þeir hófu jafnframt framleiðslu á áfengum gosdrykkum og bjór. Árið 1997 keypti Pepsi samsteypan gosdrykkjaverksmiðju Bravo.

Á miðju ári 1999 keyptu þeir félagar hlut í lyfjafyrirtækinu Balkanpharma í Búlgaríu, m.a. í samstarfi við Pharmaco. Árið 2002 seldu þeir síðan hollenska bjórfyrirtækinu Heineken bjórverksmiðju Bravo fyrir um 400 milljónir Bandaríkjadala, en á þeim tíma svaraði það til um 40 milljarða íslenskra króna. Þessi sala var grunnurinn að viðskiptaveldi Samsonar.

Þeir Björgólfur, Björgólfur Thor og Magnús eiga nú samtals um 51% hlut í Bravo International á móti Heineken, þar sem framleiddir eru áfengir gosdrykkir.

Verðmætasta félag á Íslandi

Pharmaco var fyrsta fyrirtækið sem Samsonar-hópurinn fjárfesti að einhverju marki í hér á landi, en þær fjárfestingar hófust á árinu 2000. Síðan þá hafa umsvif Pharmaco aukist mjög mikið og er það nú verðmætasta fyrirtækið í Kauphöll Íslands. Markaðsvirði félagsins er nú rúmir 130 milljarðar króna.

Gengi hlutabréfa Pharmaco hækkaði langmest allra bréfa á Aðallista Kauphallar Íslands á síðasta ári, eða um rúm 180%, sem var meira en tvöföld hækkun á gengi bréfa þess félags sem hækkaði næstmest. Og gengi hlutabréfa Pharmaco hefur haldið áfram að hækka því það er nú rúmum 5% hærra en um síðustu áramót.

Um þessar mundir er unnið að því að Pharmaco verði skráð á hlutabréfamarkað í London síðar á þessu ári. Þegar greint var frá þessum fyrirætlunum félagsins í lok síðasta árs kom fram hjá stjórnendum fyrirtækisins að markaðurinn á Íslandi væri að verða of lítill fyrir Pharmaco, sem hefði sett sér metnaðarfull markmið um áframhaldandi vöxt. Félagið ætlaði að vaxa með fjárfestingum og sameiningum við erlend fyrirtæki en til þess þyrfti gott aðgengi að fjármagni. Aðgengi að fjármagni yrði auðveldara ef félagið væri skráð á hlutabréfamarkaði í London.

Magnús og Björgólfur Guðmundsson seldu báðir þá hluti sem þeir áttu í Pharmaco á síðasta ári og er Björgólfur Thor því einn eftir af Samsonar-hópnum sem eigandi í því félagi. Hann er stærsti einstaki hluthafinn með samtals 36,2% hlut, sem skiptist á þrjú félög sem eru í hans eigu.

Pharmaco er skilgreint sem alþjóðlegt fyrirtæki í þróun, framleiðslu og sölu á samheitalyfjum og er með starfsemi í 17 löndum. Heildarfjöldi starfsmanna er um 7.300 talsins. Pharmaco rekur verksmiðjur og rannsóknarstofur á Íslandi, Möltu, í Búlgaríu og Serbíu.

Stærsta einkavæðingin

Á gamlársdag 2002 undirrituðu ráðherrar í ríkisstjórninni samning við Samson um kaup hópsins á tæplega helmingshlut í Landsbankanum. Salan var viðamesta einkavæðing Íslandssögunnar. Samson ehf. keypti 45,8% hlut í Landsbankanum fyrir 12,3 milljarða króna og er næsta víst að þessi viðskipti hafa haft hvað mest áhrif í íslensku viðskiptalífi af þeim fjárfestingum sem Samson hefur komið að.

Þeir félagar í Samson áttu í raun frumkvæðið að því að ríkið seldi hlut sinn í Landsbankanum í árslok 2002. Í júní það ár sendu þeir bréf til framkvæmdanefndar ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu þar sem þeir lýstu áhuga á að gerast kjölfestufjárfestir í bankanum. Segja má að þetta bréf hafi orðið til að ýta við þeirri einkavæðingu ríkisstofnana sem ríkisstjórnin hafði lýst yfir að hún stefndi að, en hafði verið í láginni um nokkurt skeið. Í kjölfarið lýstu fleiri yfir áhuga á að gerast kjölfestufjárfestir í Landsbankanum en ráðherranefnd um einkavæðingu ákvað að ganga til viðræðna við Samson. Landsbankinn hafði verið til sölu í Lundúnum í u.þ.b. ár. Stjórnvöld vildu fá erlenda fjárfesta að bankanum en það hafði ekki tekist. Eitt af því sem réð úrslitum með val á Samson sem kjölfestufjárfesti í Landsbankanum var einmitt sagt vera það að hópurinn lýsti því yfir að hann myndi greiða kaupverðið í Bandaríkjadölum.

Eftir söluna á hlut ríkisins í Landsbankanum seldi ríkið hlut sinn í Búnaðarbankanum, sem síðar sameinaðist Kaupþingi og úr varð KB banki.

Fjárfest á fleiri sviðum

Þeir Björgólfur, Björgólfur Thor og Magnús eiga í sameiningu Samson eignarhaldsfélag, sem á nú 44,3% hlut í Landsbankanum. Feðgarnir eiga jafn stóran hlut, 42,5% hvor, en Magnús á 15,0%. Þeir standa hins vegar ekki saman að öðrum fjárfestingum hér á landi en koma þó víða við.

Björgólfur Guðmundsson eignaðist tvo þriðju hluta í útgáfufélaginu Eddu útgáfu um mitt ár 2002. Edda útgáfa er stærsta bókaútgáfan hér á landi. Miklar breytingar hafa verið á rekstri þess fyrirtækis á umliðnum mánuðum og misserum. Tónlistardeild fyrirtækisins og tímaritadeild hafa verið seldar og einbeitir Edda útgáfa sér nú að útgáfu bóka. Fyrirtækið hefur nýlega haslað sér völl í Bretlandi í samstarfi við aðra.

Magnús Þorsteinsson keypti meirihluta í flugfélaginu Atlanta á árinu 2002 ásamt hópi fjárfesta. Aðrir hluthafar í félaginu nú eru stofnendur þess, þau Arngrímur Jóhannsson og Þóra Guðmundsdóttir. Atlanta hefur vaxið að jafnaði um 18% á ári á undanförnum árum og mun vera stefnt að því að skrá það á markaði.

Air Atlanta leigir m.a. flugvélar til annarra flugfélaga og ferðaskrifstofa vítt um heim ásamt áhöfnum, viðhaldi og tryggingum og er eitt stærsta flugfélag sinnar tegundar í heiminum.

Rúmu ári eftir að Magnús keypti meirihluta í Air Atlanta, í félagi við aðra, keypti félag sem hann á ásamt Ómari Benediktssyni, framkvæmdastjóra Íslandsflugs, 45% hlut í því flugfélagi. Hvort þessara flugfélaga á 2,5% hlut í Flugskóla Íslands en ekki mun standa til að sameina þau.

Stórviðskipti í september

Eftir mitt síðasta ár sýndu Landsbankinn og tengdir aðilar því áhuga að auka við hlut sinn í fjárfestingarfélaginu Straumi og í septembermánuði sendi Björgólfur Guðmundsson frá sér yfirlýsingu vegna kaupa bankans og tengdra aðila á hlutabréfum í félaginu. Þar sagði að það sem vekti fyrir bankanum með kaupum á hlutabréfum í Straumi væri að hleypa lífi aftur í verðbréfamarkaðinn hér á landi, rjúfa stöðnun sem verið hefði og láta fjárfestingar á markaði ráðast af von um hagkvæman rekstur og hámarks ávöxtun. Sagði Björgólfur að markmið bankans eða Samsonar væri að losa um flókin eignatengsl í félögum og auka arðsemi þeirra. Straumur átti á þessum tíma umtalsvert safn hlutabréfa en næsta víst er að eignarhlutur félagsins í Eimskipafélagi Íslands hafi haft einna mesta þýðingu.

Landsbankinn og tengdir aðilar höfðu einnig á miðju síðasta ári sýnt áhuga á því að eignast aukinn hlut í Sjóvá-Almennum tryggingum.

Aðfaranótt 19. september 2003 var gengið frá samkomulagi milli Landsbankans, Íslandsbanka, Straums, Samsonar, Sjóvár-Almennra trygginga, Burðaráss og Otec Investment Corporation um verðbréfaviðskipti. Íslandsbanki og Sjóvá-Almennar tryggingar áttu frumkvæðið að viðræðum milli aðila. Bankinn og tryggingafélagið höfðu komist að þeirri niðurstöðu að félögin gætu ekki haldið bæði Sjóvá-Almennum tryggingum og Eimskipafélaginu frá Landsbankanum og aðilum honum tengdum.

Uppskipti á félögum

Með samkomulaginu varð Landsbankinn ráðandi hluthafi og kjölfestufjárfestir í Eimskipafélagi Íslands, en þeir sem til þessa tíma höfðu verið stærstu hluthafarnir í félaginu, Straumur og Sjóvá-Almennar tryggingar, hurfu úr hópi hluthafa. Á móti seldi Burðarás, fjárfestingararmur Eimskipafélagsins, að fullu eignarhluti sína í Sjóvá-Almennum tryggingum, Íslandsbanka og Flugleiðum til Straums og Íslandsbanka. Þá seldi Landsbankinn og tengdir aðilar allan sinn hlut í Straumi. Alls námu þau viðskipti sem samkomulag varð um aðfaranótt 19. september á síðasta ári tæpum 26 milljörðum króna.

Rekstur Eimskipafélagsins var þríþættur þegar samkomulagið var gert í september, og að hluta óskyldur, þ.e. flutningastarfsemin í dótturfélaginu Eimskip, fjárfestingafélagið Burðarás, og sjávarútvegsstarfsemi í dótturfélaginu Brimi. Stjórnendur Landsbankans lýstu því yfir í kjölfar samkomulagsins að þeir teldu að meiri verðmæti væru í hverri einingu Eimskipafélagsins en í þeim öllum saman. Og nú hefur sjávarútvegsstarfsemin í Brimi öll verið seld.

Nýlega var húsnæði Eimskipafélagsins í Pósthússtræti einnig selt en þar er fyrirhugað að opna hótel. Skrifstofur Eimskipafélagsins hafa verið þar frá því það var tekið í notkun árið 1921.

Landslagið í íslensku viðskiptalífi er gjörbreytt eftir samkomulagið frá því í september. Til viðbótar við breytt eignarhald í Eimskipafélaginu og því að Sjóvá-Almennar tryggingar eru nú komnar í eigu Íslandsbanka þá hafa nýir aðilar komið að Flugleiðum. Eimskipafélagið, sem um langt skeið hafði ráðið mestu í því félagi er nú komið þar út og nýir menn orðnir stærstu hluthafarnir. Þeir Jón Helgi Guðmundsson í Byko og Hannes Smárason, aðstoðarforstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, eiga nú tæpan 40% hlut í Flugleiðum en þeir áttu ekkert í upphafi þessa árs. Þá á KB banki nú Skeljung, sem væntanlega verður einungis til skamms tíma. Því er ljóst að losað hefur verið um eignatengsl í félögum hér á landi, eins og Björgólfur Guðmundsson sagði að væri markmið Landsbankans og tengdra aðila þegar þeir hófu að kaupa hlutabréf í Straumi á síðasta ári.

Frekari fjárfestingar í Búlgaríu

Nýjustu fjárfestingarnar sem tengjast Samsonar-hópnum og greint hefur verið frá eru í Búlgaríu. Félag sem Björgólfur Thor á meirihluta í og nefnist Carrera er í hópi fjárfesta sem samkomulag hefur náðst um að kaupi 65% hlut í búlgarska símafyrirtækinu Bulgarian Telecommunication Company, BTC, síðar í þessum mánuði af búlgarska ríkinu. Carrera mun kaupa fjórðung af þeim hlut sem búlgarska ríkið selur. Bandaríska fjárfestingafélagið Advent International mun einnig kaupa fjórðungshlut en um helmingur hlutarins verður í eigu sjö annarra aðila, þar á meðal Þróunarbanka Evrópu, þjóðarbanka Grikklands, Swiss Life auk fjögurra annarra fjárfesta.

Að Carrera standa níu aðilar. Auk Björgólfs Thors eru m.a. Straumur, Síminn og Buraðrás aðilar að félaginu.

Björgólfur Guðmundsson, Björgólfur Thor Björgólfsson og Magnús Þorsteinsson eru þátttakendur í fleiri félögum og fjárfestingum en hér hefur verið greint frá. Eitt félag hefur þar komið nokkuð við sögu hér á landi, en það er Samson Global Holding, sem til að mynda fjárfesti í Straumi á sínum tíma, hefur fjárfest í Eimskipafélaginu og víðar. Þetta er ekki sama félagið og Samson eignarhaldsfélag, sem á 44,3% hlut í Landsbankanum. Það félag var stofnað til að fara eingöngu með hlut Samsonar-hópsins í Landsbankanum. Fjármálaeftirlitið hafði gert þá kröfu í tengslum við sölu ríkisins á hlut sínum í Landsbankanum að tilgangur þess félags væri takmarkaður við það eignarhald en tæki ekki þátt í öðrum fjárfestingum.

Um önnur verkefni sem Björgólfur, Björgólfur Thor og Magnús hafa komið að má til að mynda nefna framleiðslu á kvikmynd. Björgólfur Guðmundsson hefur komið að Vesturfarasetrinu á Hofsósi og sjónvarpsstöðinni Skjá einun, en hann er ekki lengur þátttakandi í þeirri sjónvarpsstöð.

Hvað framundan er hjá Samsonar-hópnum liggur að sjálfsögðu ekki fyrir. Ef mið er hins vegar tekið af umfangi fjárfestinga þeirra Björgólfs, Björgólfs Thors og Magnúsar á allra síðustu misserum má gera ráð fyrir því að ekki verði langt að bíða frekari frétta af þeim.

gretar@mbl.is