Þess misskilnings gætir meðal ofmargra stjórnmálamanna að frétta- og fræðimenn hafi pólitísk markmið að leiðarljósi með skrifum sínum.

Þess misskilnings gætir meðal ofmargra stjórnmálamanna að frétta- og fræðimenn hafi pólitísk markmið að leiðarljósi með skrifum sínum. Þessir stjórnmálamenn eru sannfærðir um að fræðimenn og fjölmiðlafólk stjórnist af pólitískri hugsjón eða hollustu við tiltekna stjórnmálaflokka. Þetta gengur svo langt að blaðamenn sem fjalla um embættisverk ráðamanna liggja ítrekað undir ámæli fyrir að vera handbendi stjórnmálaafla og fræðimönnum, einkum í hug- og félagsvísindum, er stundum ætlað að vilja koma höggi á valdastéttina.

Í nágrannalöndum okkur þykir ekkert sjálfssagðra en að fjallað sé um embættisverk stjórnmálamanna á vettvangi fjölmiðla og í fræðiheiminum án þess að menn þurfi stöðugt að sitja undir því að vera áskaðir um að vera handbendi tiltekinna pólitískra afla. Fjölmiðlafólk á virtum fjölmiðlum í Bretlandi gengur til dæmis miklu lengra í greiningu sinni á stjórnmálaástandinu og stöðu einstakra stjórnmálamanna án þess að það hvarfli að nokkrum manni að tilgangurinn sé að koma höggi á tiltekna stjórnmálaflokka eða stjórnmálamenn.

Frétta- og fræðimenn eru einfaldlega að sinna skyldu sinni með því að spyrja gagnrýnna spurninga og þeim ber skylda til að líta gagnrýnum augum á samfélagið. Markmið frétta- og fræðimanna er að reyna að greina athafnir og orð þeirra sem stjórna landinu. Hvers vegna sitja þá íslenskir fræðimenn og blaðamenn undir stöðugu ámæli stjórnmálamanna?

Til að svara þessari spurningu þurfum við annars vegar að huga að því hvað skilur að stjórnmálamenn frá þessum tveimur fagstéttum og hins vegar þurfum við að líta til þess þjóðfélags sem mótað hefur pólitíska umræðu hér á landi.

Þessi misskilningur að ætla fjölmiðla- og fræðimönnum að breiða út pólitískan boðskap sprettur meðal annars af þeirri einföldu ástæðu að stjórnmálamenn hafa fyrst og fremst pólitísk markmið í huga með opinberum gjörðum sínum. Stjórnmálamenn eru oft eldheitt hugsjónarfólk sem vill breyta heiminum til hins betra. Þeir stjórnast af hugsjónum og flokkshollustu. Greinaskrif þeirra, ræður og framkoma í fjölmiðlum markast af því sem þeir trúa á og því sem flokkurinn stefnir að. Margur stjórnmálamaðurinn er því ekki lengi að álykta sem svo að allir aðrir stjórnist af hugsjónum eða hollustu við stjórnmálaflokka. Maður þarf ekki lengi að ræða við hugsjónarfólk sem starfar í stjórnmálaflokkum til að átta sig á því að það sér andstæðinga hvarvetna sem það telur hafa það eitt að markmiði að bregða fyrir það fætinum. Af þessum sökum verða fræði- og fjölmiðlamenn oft fyrir barðinu á stjórnmálamönnum.

Þessu fagfólki er hins vegar sérstaklega uppálagt í fræðum sínum að vinna á óhlutdrægan hátt og fá sérstaka þjálfun hvað þetta varðar bæði í námi og starfi. Við þetta bætist síðan að stór hluti fólks er einfaldlega ekki haldið þeim eldmóði að breyta umhverfi sínu eins og margan stjórnmálamanninn dreymir um. Vissulega fellur einstaka fræði- og fjölmiðlamaður í þá gryfju að breiða út pólitískan boðskap í skjóli fagmennsku en ég þori að fullyrða að hér um algjörar undantekningar að ræða. Flestir fræði- og fjölmiðlamenn reyna allt hvað þeir geta að vinna sína vinnu eins fagmannlega og þeim er mögulega unnt.

Hitt atriðið sem skýrir síendurtekin áhlaup íslenskra stjórnmálamann á þessar fagstéttir lítur að því pólitíska umhverfi sem við búum við hér á landi. Íslenskir stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn héldu miklu lengur í skipulagt afskiptakerfi af daglegu lífi landsmanna en í nágrannalöndunum. Þetta skipulagða afskiptakerfi hefur haft áhrif á pólítiska umræðu í landinu og áhrif þess kristallast í þremur þáttum.

Í fyrsta lagi hefuríhlutun stjórnmálamanna í viðskipalífi landsmannabirst með skýrum hætti og ekki eru nema nokkrir mánuðir síðan að skipulögðum afskiptum stjórnmálamanna af daglegri stjórn banka var afnumin. Viðskipamenn bankanna áttu lengi allt undir því að geta fengið pólitíska fyrirgreiðslu hjá bönkunum til þess að geta byggt upp verslun og viðskiptasambönd. Stjórnmálamenn hér á landi drógu það einnig lengur en flest ef ekki nær öll vestræn ríki að gefa Seðlabankanum aukið frelsi, þó að pólitískar ráðningar bankastjóra viðgangis enn, og stjórnmálamenn halda enn í úrelt kerfi pólitískrar fyrirgreiðslu hjá Byggðastofnun. Mörgum stjórnmálamanninum virðist það nánast ómögulegt að láta viðskiptalífið í friði og flokksgæðingar reyna enn allt hvað þeir geta til að hlutast til um kaup og sölu fyrirtækja á frjálsum markaði með það að markmiði að tryggja ítök flokksins í viðskipalífi landsmanna.

Í öðru lagi hefur gengið hægt að þróa sjálfstæðar rannsóknarstofnanir hér á landi sem hafa það að markmiði að skoða þjóðfélagið með gagnrýnum en uppbyggilegum hætti. Við erum langt á eftir öllum nágrannaríkjum okkar hvað þetta varðar. Þar styðja ríki og sveitarfélög með beinum hætti sjálfstæðar rannsóknastofnanir sem hafa það að markmiði að rannsaka og greina þjóðfélagið. Íslenskir stjórnmálamenn hafa sýnt afskaplega lítið frumkvæði að því að byggja upp rannsóknarstofnanir. Þeir huga að kennslu á mismunandi skólastigum en virðast hafa allan vara á sér þegar kemur að því að styðja rannsóknarstofnanir og fræðimenn sem reyna að greina þjóðfélagsástandið. Kennsla í félagsvísindum hófst til dæmis ekki fyrr en í upphafi 8. áratugarins og einungis fáar öflugar rannsóknarstofnanir með ofangreind markmið eru hér starfandi.

Í þriðja lagi virðist sem íslenskir stjórnmálamenn eigi erfitt með að sleppa hendinni af skoðanaskiptum landsmanna. Flokksblöðin voru hér alls ráðandi fyrir ekki svo margt löngu og frjáls fjölmiðlum kom ekki til fyrr en eftir miðjan 9. áratuginn. Forystumenn stjórnmálaflokkanna réðu ferðinni í fréttaflutningi flestra dagblaða og afskipti stjórnmálamanna af ríkisútvarpinu vara enn.

Hefðin hér á landi hefur verið sú að stjórnmálamenn hafi tögl og haldin, með afskiptum eða afskiptaleysi, á flestum sviðum samfélagsins hvort sem litið er til viðskipta, rannsókna eða fjölmiðla. Margir stjórnmálamenn eru einfaldalega hræddir við að gefa almenningi lausan tauminn. Þeir óttast að missa völd og áhrif. Óttast að takast á við nýjar aðstæður sem þeir þekkja ekki. Margt hefur þokast í frjálsræðisátt á undanförnum árum og hið gamla úrelta afskiptakerfi stjórnmálamanna heyrir smám saman sögunni til en það eimir enn eftir að þessu kerfi. Við sjáum leifar afskiptakerfisins enn í viðskiptalífinu og í því ámæli sem fræðimenn og blaðamenn sitja undir ef skrif þeirra eru ekki stjórnmálamönnum þóknanleg. Margir stjórnmálamenn virðast enn telja að þeir eigi að geta sagt fræði- og fjölmiðlamönnum fyrir verkum.

Hættan er að leifar þessa afskiptakerfis hafi áhrif á vinnu þessa fagfólks. Hættan er að fjölmiðlafólk spyrji stjórnmálamenn ekki gagnrýnna spurninga og að fræðimenn líti ekki gagnrýnum augum á samfélagið. Hættan er að leifar þessa úrelta afskiptakerfis endurspegli rannsóknir og fréttaflutning og að þessar fagstéttir láti orrahríð stjórnmálamanna hafa áhrif á þá gagnrýnu sýn sem á að ríkja í umfjöllun um þjóðfélagsmálefni. Daglega þurfa fræðimenn og fjölmiðlafólk að vega og meta hvort láta eigi undan óskum stjórnmálamanna þ.e. að fjalla ekki um tiltekin málefni eða fjalla um þau á þann máta að þau styggi engan. Þetta er freisting sem erfitt er að standast en það að standast hana er hins vegar grunnforsenda þess að við fjarlægjumst gamla afskiptakerfið og stuðlum að upplýstri umræðu í landinu.

BALDUR ÞÓRHALLSSON