SEM þátttakandi í svokallaðri Miðkvíslarsprengingu 1970 og gamall baráttufélagi Vigfúsar á Laxamýri las ég af athygli og undrun pistil hans í Morgunblaðinu 4. mars sl.

SEM þátttakandi í svokallaðri Miðkvíslarsprengingu 1970 og gamall baráttufélagi Vigfúsar á Laxamýri las ég af athygli og undrun pistil hans í Morgunblaðinu 4. mars sl. Enda hefur ekki farið fram hjá mér, fremur en öðrum, að enn og aftur er sótt að því svæði er friðað var í kjölfar nefndrar "sprengingar" með fyrstu íslensku umhverfisverndarlögunum um verndun Laxár og Mývatns 1974.

Eitt þótti mér sem burtfluttum Þingeyingi þó Siv Friðleifsdóttir, sem getið hefur sér frægð fyrir nýstárlegan skilning á umhverfisvernd, skuli skjóta sig í fótinn sem raun ber vitni í þessu máli. Annað að sjá fyrrum formann þess félags er starfað hefur undir kjörorðunum "Laxá og Mývatn verða varin" birtast á ritvellinum sem sérlegan verndara Laxárvirkjunar gegn óútskýrðum öfgamönnum hvers konar.

Söguskoðun og öfgamannahjal Vigfúsar kalla á fáeinar athugasemdir af minni hálfu. T.d. hverjir eru þessir öfgamenn og hverjar öfgarnar?

Vigfús lýsir hvernig hann sjálfur hafi orðið að "vaða elda Laxárdeilu frá upphafi til enda" og hvernig deilan hafi sökum tilstillis öfgamanna orðið að "þeirri ófreskju er raun varð á".

Hvað meinar maðurinn? Allavega þurfti hann ekki að vaða elda Miðkvíslarsprengingar, því þar var hann ekki á þingi mér vitanlega - hefur e.t.v. legið undir feldi líkt og Þorgeir Ljósvetningagoði og íhugað á þeirri stund öfgaleysi sitt og Laxárvirkjenda. Ég set því spurningarmerki við nefnt upphaf - og enn fremur spyr ég: Hver er dagsetning endisins? Því þótt friðunarlögin væru staðfest 1974 hefur Landeigendafélagið o.fl. stöðugt þurft að verjast einbeittum brotavilja iðnaðar- og orkuspekúlanta við þessi lög. Á orðið öfgamenn við um þá fugla?

Og hverjir voru þeir öfgamenn í röðum Þingeyinga er ábyrgð báru á einhverri "ófreskju" í Laxárdeilu? Voru það e.t.v. þeir félagar Vigfúsar sem ekki geta lengur lagt orð né atkvæði við söguskýringar hans, t.d. Hermóður í Árnesi, Starri í Garði og Eysteinn á Arnarvatni? Varla trúi ég slíkum þanka upp á Vigfús í ljósi lokaorða hans þar sem hann harmar gengna ástvini, þ.e. KÞ, Mjólkursamlagið og flugsamgöngurnar sem fallið hafi fyrir hendi öfgamanna. Þar mælir einlæglega hryggur maður og skorar á einhverja að láta nú ekki drepa Laxárvirkjun af sér í tilbót. Mér finnst að hann hefði átt að nefna Vaðlaheiðargöng í sömu andrá - ekki láta öfgaliðið komast upp með vélráð sem skert gætu verslunarhagsmuni sumra Þingeyinga meira en orðið er. Þetta hefði ekki verið vitlausara en margt annað í máli Vigfúsar. T.d. píslargöngu sinni í Landeigendafélaginu og Laxármálum yfirleitt er hann lýsir svo að helst minnir á orð biskupssonarins ógæfusama "Nauðugur gekk eg til þessa leiks." Hver neyddi Vigfús til þátttöku? Og hverjir eru viðkomandi þessu máli og hverjir ekki? Erum við landeignalausir Þingeyingar e.t.v. óviðkomandi? Ég spyr.

Að lokum Vigfús: Laxárdeilan hefur aldrei verið leyst eins og núverandi staða sýnir, enda pólitíkusar og peningaveldi séð tryggilega um viðhald hennar.

Enn fremur vegna samanburðar þíns á forsvarsmönnum Laxárvirkjunar og hinum kurteisu vinsemdarmönnum Landsvirkjunar vil ég benda þér á að fletta upp í hinni helgu bók, Matt. 7.15. hvar sagt er frá úlfunum er birtast oss í sauðargæru o.s.frv. Bara af því að þú fjallar sjálfur um öfgamenn er hrópi "úlfur, úlfur, þó enginn úlfur sé á ferðinni." Tilfellið er að þeir leynast víða og því vissara að fara að öllu með gát.

STEFANÍA ÞORGRÍMSDÓTTIR,

Sólvallagötu 64,

101 Reykjavík.

Frá Stefaníu Þorgrímsdóttur: