TINNA Lind Hallsdóttir ætlaði að fermast í hvítum kjól en ekki í upphlut. En ekki er allt fyrirsjáanlegt, hvorki í þessum málum né öðrum. "Þegar Magnea Lena, sem er konan hans pabba míns, spurði hvort ég vildi fermast í upphlut sem hún á, þá leist mér sko ekkert á það. En þegar ég mátaði hann, fannst mér hann æðislegur á mér og ég vildi sko alveg fermast í honum. Svo er líka svo falleg saga á bakvið þennan upphlut. Móðursystir Magneu Lenu saumaði hann sjálf á sig þegar hún var um þrítugt, fyrir nærri fimmtíu árum, í tilefni þess að hún fór til Danmerkur til að heimsækja ættingja sína. En hún eignaðist engin börn og því erfði nafna hennar búninginn þegar hún dó."
Silfrið á upphlutnum er mikil völundarsmíð og gefur Tinnu Lind hátíðlegt yfirbragð og húfan minnir á gamla tíma og sögu búningsins.