Leikin verða verk eftir Svein Lúðvík Björnsson í 15:15-röðinni.
Leikin verða verk eftir Svein Lúðvík Björnsson í 15:15-röðinni.
Á TÓNLEIKUM Caput-hópsins kl. 15:15 á Nýja sviði Borgarleikhússins á morgun, laugardag, verða fluttar fimm Egófóníur eftir Svein Lúðvík Björnsson.

Á TÓNLEIKUM Caput-hópsins kl. 15:15 á Nýja sviði Borgarleikhússins á morgun, laugardag, verða fluttar fimm Egófóníur eftir Svein Lúðvík Björnsson.

Egófóníurnar eru einleiksverk þar sem einleikarinn leikur á móti margrödduðum upptökum af eigin hljóðfæraleik.

Egófónía nr 1 fyrir selló var frumflutt í fyrra en hinar fjórar, sem voru samdar á síðustu mánuðum, verða frumfluttar á þessum tónleikum. Þær eru samdar fyrir Caput með styrk frá Nýsköpunarsjóði tónlistar, Musica Nova. Flytjendur eru Pétur Jónasson, gítar, Eydís Franzdóttir, óbó, Guðni Franzson, klarinetta, Sigurður Halldórsson, selló og Kolbeinn Bjarnason, flauta.

Geisladiskur, þar sem Caput flytur tónlist Sveins,var gefinn út af Smekkleysu fyrir nokkrum árum. Af því tilefni skrifaði Atli Heimir Sveinsson m.a.:

"Verk Sveins ...eru alltaf stutt, ekki sekúndu lengur en þau þurfa að vera.

Nóturnar eru ekki margar, en sérhver nóta er á réttum stað í tíma og rúmi. Að baki hverrar hendingar býr innblástur. Og ef hann er ekki til staðar, þá er ekkert skrifað. Hann hefur skapað sér sérstöðu meðal íslenskra tónskálda með örstuttum og hnitmiðuðum tónverkum og mætti kalla hann ljóðskáldið í hópi tónskálda. Að vísu hafa verk hans lengst dálítið með árunum og hugsanlega má líkja egófóníunum við smásögur, sagðar í fyrstu persónu eintölu."