Elín Ebba Ásmundsdóttir
Elín Ebba Ásmundsdóttir
Heilbrigðisstéttirnar verða að fá að sitja við sama borð og eiga allar að þurfa að sanna sig.

MÉR verður oft hugsað til geðsjúkra; valda- og áhrifaleysis þeirra í heilbrigðiskerfinu, ekki síst nú þegar sparnaðaraðgerðir ríða yfir. Áhrifaleysi bitnar á heilsunni og þegar framlag okkar eða skoðanir hafa lítið sem ekkert að segja getur það leitt til streitu sem birst getur í ýmsum myndum s.s. máttleysi, doða, kvíða, svefntruflunum og alls kyns líkamlegum verkjum. Geðsjúkir hafa brotist úr álögum eigin fordóma, orðið talsmenn eigin málaflokks; tekið málin í sínar hendur, og þannig getað bent á bresti í þjónustunni við þá. Hugarafl er hópur geðsjúkra á batavegi sem ætlar sér að hafa áhrif á geðheilbrigðisþjónustuna hér á landi. Afrakstur sjálfseflingar geðsjúkra víða erlendis er nýsköpun í þjónustu þar sem reynsla þeirra og áherslur eru í forgrunni. Þeir hafa skapað sér mikilvægt hlutverk með því að aðstoða aðra, svipað og AA-fólk hefur gert í hálfa öld hér á landi. Kannski þurfa þær stéttir sem sinna svokallaðri stoðþjónustu að losna úr álögum minnimáttarkenndar gagnvart úreltu valdakerfi sem ríkir innan heilbrigðiskerfisins og vera tilbúnar að taka málin í eigin hendur og sinna sjálfar á eigin forsendum stoðþjónustunni utan spítalanna.

Heilbrigðisyfirvöld gera enn á ný kröfu um sparnað. Sem dæmi setti yfirstjórn Landspítala - háskólasjúkrahúss fram þá stefnumörkun við sameiningu spítalanna að forgangsröðunin væru bráðaveikir, kennsla heilbrigðisstétta og rannsóknir. Starfsemi LSH er orðin of yfirgripsmikil og sannarlega tími til kominn að einfalda hana. Geðsviðið er dæmi um vettvang sem þurft hefur að sinna öllum þörfum geðsjúkra, ekki bara bráðaþættinum. Geðsviðið valdi þetta ekki sjálft á sínum tíma heldur stóð eitt uppi með vanda geðsjúkra því að enginn annar vildi sinna þessum hópi. Stór hluti starfseminnar sem nú fer fram innan spítalans ætti frekar heima utan sjúkrahúss, nær vettvangi í hringiðu mannlífsins. Í nýútkominni áfangaskýrslu um starfsendurhæfingu er talið að ein helsta orsök þess að fleiri ungir örykjar eru hér á landi, miðað við hin Norðurlöndin, sé skortur á starfsendurhæfingu.

Fjármagn til heilbrigðis- og tryggingamála mun ekki verða aukið, því nú þegar verjum við sem nemur 40% af fjárlögum ríkisins til þeirra mála. Það verður að grannskoða í hvað peningarnir fara, hvaða þjónusta sé dýrust, og hver sé hin raunverulega uppskera. Ef ungum öryrkjum fjölgar þrátt fyrir betra aðgengi að sérfræðingum og betri lyfjameðferð þá ætti það að duga til að hringja viðvörunarbjöllum. Engin þjónusta á LSH er óþörf en ákveðnir þættir væru betur settir í umsjá annarra utan spítalans. Of mikið snýst um að halda forræði, fjármagni, völdum og áhrifum en ekki um bestu og skilvirkustu þjónustuna fyrir samfélagið í heild. Viðhorfsbreyting hjá geðsjúkum, sem verður til þess að þeir geti í auknum mæli tekið þátt í samfélaginu og borið ábyrgð á eigin lífi, er fyrst og fremst til komin vegna umhverfisþátta; umhverfis sem hefur trú á þeim, styður þá í mikilvægum hlutverkum, veitir þeim tækifæri til að deila áhrifum og völdum. Töfralausnir verða þá ekki lengur markmið né heldur að finna sökudólga. Engin lyf, töfralausnir né stjórnmálamenn geta hjálpað LSH, stoðstéttum né öðrum heilbrigðisstofnunum í núverandi þrengingum heldur viðhorfsbreyting. Viðhorfsbreyting getur þó aðeins orðið þar sem raunverulegt jafnrétti er, menn verða að fara að takast á við hugmyndafræði, vinna út frá áhrifavöldum í heilsu og bata og gera kröfur um árangur án þess að vera blindaðir af sérhagsmunum. Forsendur, væntingar, mannafla og fjármagn til ýmissa þátta innan heilbrigðis-, trygginga- og félagsmálakerfisins þarf því að endurskoða. Ef lög og reglugerðir hamla því að nútíma stjórnunarhættir geti þrifist innan heilbrigðiskerfisins er það hlutverk stjórnmálamanna að breyta reglugerðum til að komast upp úr hjólförunum.

Heilsugæsluna þarf að efla en það verður ekki gert með því að auka fjárstreymi til heilbrigðisgeirans heldur með því að flytja til það fjármagn sem við þegar höfum. Það kostar endurskoðun á því hvar þjónustan eigi að vera, hvort mannaflinn spegli sett markmið, t.d. um aukna þátttöku í samfélaginu og að fyrirbyggja örorku. Eigum við bara að eyða fjármunum í sjúkdómseinkenni eða viljum við koma í veg fyrir að fólk verði það veikt að það þurfi bráðaþjónustu? Með ráðningu fleiri stétta innan heilsugæslunnar myndu starfskraftar þeirra heimilislækna sem þar vinna nýtast betur. Það getur reynst snúið að færa til fjármagn og þeir sem eru við völd þurfa að hafa þverfaglega heildarsýn þannig að hún kristallist í allri ákvarðanatöku. Ákvarðanir og starfsemi heilsugæslunnar miðast ekki við þverfaglega sýn.

Viðhorfsbreyting verður á löngum tíma og meðan á þeirri gerjun stendur er mikilvægt að veita nýsköpun í heilbrigðismálum brautargengi til að efla frjóa hugsun. Það þarf að skapa samkeppni svo karlar og konur nýti orkuna í að finna nýjar lausnir í stað þess að notast alltaf við þær gömlu af því að öll orka fer í endalausa vörn. Tryggingastofnun hefur riðið á vaðið og gert samninga við fleiri stéttir en sérfræðilækna og því ber að fagna. Það er engri stétt hollt að hafa forréttindi og vera hafin yfir gagnrýni. Heilbrigðisstéttirnar verða að fá að sitja við sama borð og eiga allar að þurfa að sanna sig. Forsenda áframhaldandi fjárstreymis á að byggjast m.a. á notendarannsóknum sem sýna að þjónustan skili sér. Notendarannsóknir byggjast á reynslu þeirra sem nýta þjónustuna og er oft samvinnuverkefni notenda og fræðimanna. Að setja fjármagn í notendarannsóknir myndi flýta fyrir viðhorfsbreytingum hjá almenningi, heilbrigðisstéttum og stjórnmálamönnum, því þær sýna fram á hvað það er í þjónustunni sem ber árangur.

Elín Ebba Ásmundsdóttir skrifar um heilbrigðismál

Höfundur er forstöðuiðjuþjálfi geðsviðs LSH og lektor við HA.