Öryggisverðir komu Kadírov til hjálpar andartaki eftir að sprengjan sprakk.
Öryggisverðir komu Kadírov til hjálpar andartaki eftir að sprengjan sprakk. — Reuters
FORSETI rússneska sjálfstjórnarhéraðsins Tétsníu, Akhmad Kadírov, og að minnsta kosti 20 aðrir létust í sprengjutilræði á leikvangi í höfuðborginni Grozníj í gærmorgun, þar sem fram fóru hátíðahöld í tilefni af Sigurdeginum, er minnst var loka síðari...

FORSETI rússneska sjálfstjórnarhéraðsins Tétsníu, Akhmad Kadírov, og að minnsta kosti 20 aðrir létust í sprengjutilræði á leikvangi í höfuðborginni Grozníj í gærmorgun, þar sem fram fóru hátíðahöld í tilefni af Sigurdeginum, er minnst var loka síðari heimsstyrjaldar. Um 50 manns særðust.

Talið er að um jarðsprengju hafi verið að ræða, og hafði henni verið komið fyrir undir stúku heiðursgesta á hátíðahöldunum. Embættismenn í téténska innanríkisráðuneytinu sögðu að leitað hefði verið vandlega á leikvanginum áður en hátíðahöldin hófust í gær, en sprengjan sem sprakk hefði verið vandlega falin í steinsteyptum stöpli.

Rússnesk stjórnvöld hafa í fimm ár barist við aðskilnaðarsinnaða uppreisnarmenn í héraðinu, og að undanförnu hafa Rússar haldið því fram að friður væri að komast þar á. Vladimír Pútin forseti sagði eftir tilræðið í gær "óhjákvæmilegt" að svara af hörku.

Heiðursstúkan á leikvanginum hrundi er sprengjan sprakk, og gaus upp mikill reykur. Á sjónvarpsmyndum mátti sjá fólk forða sér í ofboði, og einkennisklædda menn bera á Kadírov á brott. Talsmaður rússneska neyðarástandsráðuneytisins sagði að önnur sprengja hefði fundist skammt frá heiðursstúkunni, en hún hefði verið gerð óvirk.

Strax eftir tilræðið hófu her og lögregla umfangsmikla leit að tilræðismönnum, en strax var talið fullvíst að aðskilnaðarsinnar hefðu verið að verki. Að sögn fjölmiðla höfðu að minnsta kosti fimm manns verið handteknir síðdegis í gær.

Grozníj. AP, AFP.