Iðjuþjálfun er kennd við Háskólann á Akureyri og er fjögurra ára nám. Námið er bæði bóklegt og verklegt og markmiðið með því er að búa nemendur undir að gegna margvíslegum störfum sem tengjast iðjuþjálfun innan heilbrigðis- og félagsþjónustukerfisins.

Iðjuþjálfun er kennd við Háskólann á Akureyri og er fjögurra ára nám. Námið er bæði bóklegt og verklegt og markmiðið með því er að búa nemendur undir að gegna margvíslegum störfum sem tengjast iðjuþjálfun innan heilbrigðis- og félagsþjónustukerfisins.

Fagið er fjölbreytt og iðjuþjálfar geta valið um mörg svið; að starfa með börnum, fólki með geðræn vandamál, meta þörf og útvega hjálpartæki, eða vinna að heilsueflingu á vinnustöðum, svo fátt eitt sé nefnt.

"Góður iðjuþjálfi vinnur með skjólstæðingi sínum, finnur út hvað hann leggur áherslu á og hvað honum finnst mikilvægt. Sú iðja sem við stundum og samskipti okkar við aðra hafa áhrif á sjálfsmynd okkar og líðan. Þess vegna er iðjan og þátttaka fólks í samfélaginu alltaf í forgrunni hjá iðjuþjálfum. Nútímaendurhæfing er pólitísk, því taka verður tillit til umhverfisþátta; á hvern hátt þeir hindra eða styðja við heilsu. Þar koma til álita þættir eins og aðgengi, viðhorf og fordómar. Góður iðjuþjálfi vinnur að hagsmunabaráttu fatlaðra. Hann vinnur að því að auka hlutdeild og áhrif þeirra, er jafnréttissinni og upptekinn af því að allir geti tekið þátt í verðmætasköpun í samfélaginu. Það mun eflaust taka einhvern tíma fyrir ráðamenn að átta sig á að þessa sýn iðjuþjálfa á að nýta í stefnumótun heilbrigðisþjónustunnar," segir Elín Ebba Ásmundsdóttir.

Elín Ebba kennir sálfélagslega nálgun við Háskólann á Akureyri, en þar er skoðað hvernig erfiðleikar, áföll eða andlegt álag geta raskað venjum fólks og hindrað það í að stunda sína daglega iðju. "Iðjuþjálfar nýtast best þegar þeir vinna með skjólstæðingum sínum í þeirra eigin umhverfi, hvort sem það er á heimili, í skóla eða á vinnustað."

Í starfi sínu sem forstöðuiðjuþjálfi á geðsviði LSH og lektor við HA segist Elín Ebba leggja metnað sinn í að fylgjast með því besta á þessu sviði erlendis, miðla því til samstarfsmanna og nema og aðstoða sitt fólk við að hrinda nýjungum í framkvæmd. Hún heldur fyrirlestra og námskeið fyrir almenning og segir markmið sitt vera að fólk geri sér grein fyrir á hvern hátt dagleg iðja hefur áhrif á sjálfstraust, líðan og heilsu.

Elín Ebba hefur sótt sér þekkingu á erlendar ráðstefnur, en miðlar jafnframt eigin þekkingu og reynslu. Í haust mun hún til dæmis verða með tvö erindi á Evrópuráðstefnu iðjuþjálfa í Aþenu. Í erindunum kynnir hún rannsókn sína, "geðrækt geðsjúkra", og könnun sem hún gerði á viðhorfum geðfatlaðra til atvinnuþátttöku. Þá mun hún stýra vinnuhópi á ráðstefnunni, þar sem hún fjallar um á hvern hátt samvinna notenda þjónustunnar og iðjuþjálfans skilaði sér í forvarnarverkefninu "geðrækt", sem Héðinn Unnsteinsson, fyrrverandi notandi geðheilbrigðisþjónustunnar, kom á laggirnar með því markmiði að efla geðheilsu og minnka fordóma.