14. júní 2004 | Minningargreinar | 1398 orð | 1 mynd

GUÐNÝ HÖDD HILDARDÓTTIR

Guðný Hödd Hildardóttir fæddist 29. desember 1992. Hún lést 31. maí síðastliðinn. Móðir hennar er Hildur Árdís Sigurðardóttir, f. 27.6. 1961. Faðir Guðnýjar Haddar er Brynjar Einarsson. Móðuramma og afi eru Guðný Egilsdóttir og Sigurður Einarsson. Föðuramma er Marý Hörgdal, fósturafi Sigurður Hallgrímsson. Eftirlifandi bróðir Guðnýjar er Einar, f. 2.3. 1990. Móðursystur hennar eru Oddný Þóra, maki Hrafn S. Melsted, Eva Guðfinna, Erna Guðrún, og Anna Signý, maki Kamel Benhamel. Börn þeirra eru Örn Calvin, Sigurður Már, Sigursteinn Orri, Sólon og Embla Signý.

Guðný Hödd verður jarðsungin frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Elsku hjartans Guðný Hödd, þú átt svo stóran og dýrmætan stað í hjarta mínu.

Þú og ég, vinkonurnar. Ég á enn litlu tuskudúkkuna sem þú gafst mér fyrir svo löngu síðan. Líka uppskriftina að skólaeldhússúpunni góðu sem þú gaukaðir að mér í vetur.

Við sem sváfum ótal næturnar saman. Fórum saman með bænirnar okkar. Faðir vorið og Jesú bróðir besti og þú kenndir mér litlu fallegu bænina þína:

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson.)

Við sofnuðum saman vinkonurnar og faðmlag þitt finn ég enn svo sterkt. Hlýja faðmlagið sem þú gafst mér alltaf. Síðasta gjöfin mín til þín var vinarengill og ég veit að hann er hjá þér og hjá mér og hjá okkur öllum.

Ég elska þig svo heitt, heitar en nokkur orð fá lýst.

Þúsund kossa ég kyssi þig, Guðný mín.

Þín frænka

Erna.

Elsku Guðný Hödd mín.

Sem eitt sinn litin yndis-sjón

í ástarhug fær geymst,

sem indælt sönglag eitt sinn heyrt

fær aldrei síðan gleymst.

Svo varstu mér, hið væna sprund,

mín vera greip við þér,

og göfug, fögur, góð og blíð

þú gleymdist aldrei mér.

Og því var það, mér brá í brún,

er barst sú fregnin þung

sem þytur lofts úr þrungnum geim,

að þú varst dáin ung.

Því einnig eg fann tregans til,

þó tungan mælti fátt,

ég syrgði þig af hjarta og hug

sem hefði' eg geð þitt átt.

(Steingr. Thorst.)

Þúsund kossar.

Þín frænka

Anna Signý.

Elsku, elsku Guðný Hödd. Minningarnar um allar okkar stundir ætla ég að geyma eins og dýrmæta gimsteina. Mér fannst ég eiga svo mikið í þér. Ég sagði þér oft frá fæðingu þinni og alltaf færðist fallega brosið yfir andlitið og augun þín ljómuðu þegar ég sagði að þú hefðir verið ósköp stutt hnáta og svolítið þybbin, eiginlega pínulítil, sæt rúsína. Þá var alhvít jörð og dúnmjúkum snjónum kyngdi niður og fegurðin var engu lík. Frá þeim degi áttir þú þér þinn stað í hjarta mér.

Ég þrái að finna hlýja faðmlagið og alla kossana þína. Ég þrái að sjá fallega brosið og björtu augun. Ég þrái að heyra röddina þína og að sjá alla þína drauma rætast.

Elsku Guðný mín, ég veit að ljósið þitt lifir en ég sakna þín bara svo sárt að mér finnst hjartað í mér vera að springa.

Þúsund, þúsund kossar til þín frá mér.

Þín frænka

Eva.

Látin er lítil stúlka. Minningin um þessa litlu stúlku, Guðnýju Hödd, er ljóslifandi í hugum þeirra sem hana þekktu. Við minnumst hennar á góðum stundum í afmælum, fjölskylduboðum og heimsóknum hjá Oddnýju frænku sinni, Hrafni og strákunum. Litla hnátan með fínu flétturnar, fallega hárskrautið, bleikir og rauðir litir og blíða brosið kemur upp í hugann. Hún var eins og lítið blóm, sem við sáum vaxa upp. Stóri bróðir, hann Einar, var alltaf skammt undan og síðar frændurnir Sigurður Már og Sigursteinn Orri. Hafþór Snær naut sín vel í þessum félagsskap og margt var brallað. Stundum dró daman sig út úr hópnum og var þá til í að ræða málin á sinn hæværska hátt, hvað hún væri að hugsa og hvað hún væri að gera á hverjum tíma. Málfar, svipmót og fas ömmu og afa kom þá einatt fram og minntu á hin nánu samskipti við þau. Síðast þegar við hittumst var leiklist, dans og söngur ofarlega í huga hennar.

Þessi ljúfa stúlka mun ekki framar dansa né syngja.

Erfiðar spurningar koma upp í hugann. Af hverju var neyðarköllum fjölskyldunnar ekki svarað? Af hverju stóð barátta hennar svona lengi? Því þarf að svara.

Til þeirra sem eftir lifa og syrgja hefur eftirfarandi ritningarvers verið sterkt í huga: "Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist." (Jh.14.27)

Elsku hjartans Einar okkar, þú veist hve sárt við finnum til með þér. Kæru vinir og frændfólk, Einar, Guðný, Siggi, Oddný, Hrafn og strákarnir, Eva, Erna, Anna og fjölskylda, ykkar kross er þungur að bera. Við biðjum góðan Guð að varðveita ykkur og styrkja í sorginni og á þeim erfiðu tímum sem framundan eru.

Við Hafþór Snær og Þór kveðjum með söknuð í huga.

Þórdís Tómasdóttir.

Kveðja fá Melaskóla

Í dag fylgjum við til grafar kærum nemanda skólans, Guðnýju Hödd Hildardóttur.

Guðný Hödd var nemandi í 6. bekk A, hún hafði verið hér alla sína skólagöngu og var þetta því sjötti veturinn hennar í Melaskóla.

Guðný Hödd var afar eftirminnanlegur nemandi og sérstök stúlka. Hún var ein af þessum einstaklingum sem varðveitti í sér einlægt barn en var jafnframt þroskuð og fullorðinsleg á margan hátt. Hún var ljúf og glaðleg og hafði afskaplega fallegt bros, þó með alvarlegu ívafi og svolítið órætt.

Þá var hún skemmtileg stúlka og gat verið uppátækjasöm, sjálfstæð var hún einnig og fór líka sínar eigin leiðir - í jákvæðri merkingu hugtaksins.

Guðný Hödd söng vel og var ágætur leikari.

Þegar við að leiðarlokum kveðjum afbragðs stúlku rifjum við upp allar góðu minningarnar sem við eigum um hana. Það hafa bekkjarsystkin hennar líka gert svo vel og fallega þessar síðustu vikur. Þær minningar verða okkur dýrmætur fjársjóður.

Að undanförnu höfum við í Melaskóla fundið mikinn hlýhug í okkar garð, bæði nær og fjær. Það hefur verið okkur mikils virði.

Megi allur sá hlýhugur umvefja fjölskyldu Guðnýjar Haddar í sorg þeirra.

Guð veri með þeim.

Ragna Ólafsdóttir skólastjóri.

Í skólanum eru það ekki bara kennararnir sem kenna - og ekki bara nemendurnir sem læra. Guðný Hödd var í bekknum okkar og hún kenndi okkur margt. Í skólastarfinu var hún sérstök og við eigum margar góðar minningar um hana. Yfirleitt var bros á andlitinu og glettni í augunum. Þegar hún horfði á okkur var hún oft kankvís á svipinn.

Hún var dýravinur. Einn daginn kom hún í skólann, bretti upp ermarnar á peysunni sinni og sýndi brosandi útklóraðan handlegginn. Hún var búin að eignast kettling. Eftir þetta kom hún oft útklóruð.

Guðný Hödd var iðin og dugleg. Hún var góð í marki í fótbolta. Hún var blíð en gat líka verið ákveðin og fylgin sér. Hún íhugaði málin vel. Þegar hún hafði ákveðið eitthvað gat verið erfitt að fá hana til að skipta um skoðun. Hún sá oft aðrar hliðar á viðfangsefnum en við hin og kom þá gjarnan með óvæntar og skemmtilegar athugasemdir. Sjónarhorn hennar var stundum öðruvísi en okkar hinna og við lærðum að það eru margar hliðar á málunum.

Hún hafði gaman af að skrifa og teikna. Guðný Hödd orti falleg ljóð og sögurnar hennar voru skemmtilegar. Hún sagði líka skemmtilega frá og var fyndin. Sögurnar hennar fjölluðu gjarnan um ferðalög á framandi slóðum og um dýr. Þegar hún las þær var þögn í bekknum og allir hlustuðu með athygli. Hún hafði unun af að syngja og leika.

Minning okkar frá síðustu bekkjarskemmtun er skýr. Hún stendur ein á sviðinu í salnum í skólanum okkar með míkrafón í hendinni og syngur fyrir bekkinn og fjölskyldur okkar.

Í lífinu kenndi hún okkur margt og við andlát hennar sjáum við lífið í nýju ljósi. Við vitum að með ástúð, dugnaði og glaðlyndi gerum við veröldina betri og sköpum um leið góðar minningar. Það kenndi Guðný Hödd okkur. Blessuð sé minning hennar.

María Sophusdóttir

og 6. bekkur A í Melaskóla.

Elsku hjartans Guðný Hödd. Okkur langar að skrifa þér lítið bréf. Í staðinn fyrir að finna réttu orðin grátum við. Við vitum samt að við grátum vegna allra fallegu minninganna sem við eigum um þig og erum svo þakklát fyrir. Þú varst alltaf og verður alltaf yndislega góð og falleg. Við gleymum þér aldrei.

Ég heyri í fjarska villtan vængjaþyt.

Um varpann leikur draumsins perluglit.

Snert hörpu mína, himinborna dís,

og hlustið, englar Guðs í Paradís.

(Davíð Stefánsson.)

Megi englar himinsins taka þig í faðm sér, færa þig upp í birtuna og ljósið eilífa.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum.)

Ó, Jesú bróðir besti

og barna vinur mesti,

æ, breið þú blessun þína

á barnæskuna mína.

(P. Jónsson.)

Mörg hundruð þúsund kossar og knús.

Sigurður Már, Sigursteinn Orri, Oddný og Hrafn.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.