NEYSLA orkudrykkja og áfengis samfara hreyfingu getur valdið hjartsláttartruflunum og jafnvel leitt til skyndilegs dauða.

NEYSLA orkudrykkja og áfengis samfara hreyfingu getur valdið hjartsláttartruflunum og jafnvel leitt til skyndilegs dauða. Umhverfisstofnun varar neytendur við því að blanda þessu þrennu saman í kjölfar rannsóknar sem gerð var í Svíþjóð, en þar hafa nokkur dauðsföll orðið vegna þessa.

Jóhanna Torfadóttir, næringarfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir að viðvörunin, sem stofnunin gaf út í gær, eigi við um orkudrykki sem innihalda koffín, taurín eða glucuronodeltalacton. Hún segir að flestir orkudrykkir sem eru til sölu hér á landi innihaldi koffín og margir taurín. Það sé mikilvægt að fólk skoði innihaldslýsingar drykkjanna og forðist að blanda orkudrykkjum sem innihaldi þessi efni saman við áfengi. Margir drykkir í dag séu auglýstir sem koffín- og taurínlausir. Hún segir að einnig séu svokallaðir íþróttadrykkir til sölu, sem innihaldi ekki koffín heldur eingöngu sykur og kolvetni.

Rannsökuð voru tengsl neyslu orkudrykkja og áfengis samfara hreyfingu á tíu heilbrigðum einstaklingum í Svíþjóð og kom í ljós að þessi blanda hafði slæm áhrif á hjartsláttartíðni við hreyfingu. Jóhanna segir að í Svíþjóð sé miklu meira magn af koffíni leyft en hér á landi í orkudrykki. Á Íslandi sé leyfilegt hlutfall koffíns 135 mg í lítra en hlutfallið fari upp í 320 mg í Svíþjóð. Svíar og Danir hafa einnig varað neytendur við þessari blöndu í kjölfar sænsku rannsóknarinnar.

Nokkur dauðsföll í Svíþjóð

"Það er allt í lagi að drekka þetta eitt og sér, mesta áhyggjuefnið er ef fólk blandar saman orkudrykkjum og áfengi og hreyfir sig mikið eins og t.d. að dansa á útihátíð eða sveitaballi. Það getur farið að valda þessum hjartsláttartruflunum sem geta verið stórhættulegar. Það hafa orðið nokkur dauðsföll í Svíþjóð, ég held núna í sumar," segir Jóhanna.

Hún segir að í landskönnun Manneldisráðs sem gerð var hér á landi árið 2002 hafi komið í ljós að 15-19 ára unglingspiltar séu helstu neytendur orkudrykkja hér á landi. Jóhanna segir að þörf sé á frekari rannsóknum og að viðvörunin sé öryggisráðstöfun. Hún segir að jafnframt sé ekki mælt með því að fólk slökkvi þorsta með orkudrykk sem innihaldi mikið af koffíni og þess háttar efnum, íþróttafólk eigi frekar að nota vatn til að slökkva þorsta.