13. ágúst 2004 | Íþróttir | 800 orð | 2 myndir

Hafsteinn Ægir Geirsson keppir öðru sinni á Ólympíuleikum

Er tilbúinn að ýta úr vör í Aþenu

— Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HAFSTEINN Ægir Geirsson, 24 ára Reykvíkingur, tekur þátt í siglingakeppni Ólympíuleikanna í Aþenu, nánar tiltekið keppir hann á Laserbát. Þetta er í annað sinn sem Hafsteinn tekur þátt í Ólympíuleikum en hann var með í Sydney fyrir fjórum árum, þá sem viðbótarkeppandi frá smáþjóð. Að þessu sinni vann hann sér hins vegar þátttökurétt með frammistöðu sinni á mótum og slapp inn þegar ákveðið var að fjölga keppendum í Laserflokki fyrr í sumar.
Hafsteinn Ægir hefur stundað siglingar frá níu ára aldri en hann er fæddur og uppalinn í Skerjafirðinum, hefur búið þar í sama húsinu alla ævi, og sagði við Morgunblaðið að lokinni æfingasiglingu í Aþenu að sjórinn hefði alltaf togað í sig. "Ég byrjaði á að fara á námskeið hjá ÍTR í Nauthólsvíkinni árið 1989 og var þar í ungliðaklúbb allt sumarið. Síðan tók ég upp þráðinn af alvöru 15 ára gamall, fór þá að keppa fyrir siglingafélagið Brokey og hef síðan stundað íþróttina af fullum krafti."

Eins og aðrir hefur Hafsteinn prófað ýmsar aðrar íþróttir og hann er meira að segja núverandi Íslandsmeistari í fjallahjólreiðum.

"Hjólreiðarnar eru mikilvægur þáttur í þjálfun minni og ég stunda þær mikið. Ég æfði íshokkí í nokkur ár og reyndi að sjálfsögðu ýmislegt, eins og t.d. fótbolta, en með litlum árangri. Ég er ekkert inni í þessum hefðbundnu íþróttafélögum en held að sjálfsögðu með mínu hverfisfélagi, KR, og kíki alltaf í blöðin til að sjá hvernig gengur."

Í siglingunum keppir Hafsteinn hins vegar fyrir Þyt í Hafnarfirði en segja má að hann hafi þurft að flýja úr Reykjavík. "Ég hef verið þar frá árinu 2000. Málið var að kænustarfið lagðist eiginlega af hjá Brokey og þá var ekki um annað að ræða en að finna annan klúbb. Þytur varð fyrir valinu og þar er gott að vera, enda gerir Hafnarfjörður geysilega mikið fyrir sína íþróttamenn."

Neistinn kviknaði í Dubai

Hafsteinn segir að siglingarnar hafi verið sitt líf frá 15 ára aldri. "Alþjóðlegi ferillinn byrjaði þegar ég fór á heimsmeistaramótið í Dubai, aðeins 18 ára gamall. Mér var boðið þangað og gat að sjálfsögðu ekki neitt, en það var gríðarleg reynsla sem kveikti neistann og þetta hefur allt verið upp á við síðan. Frá þessum tíma hef ég stundað íþróttina af mikilli alvöru og farið á mikið af alþjóðlegum mótum. Meðal annars á Ólympíuleikana í Sydney árið 2000 og heimsmeistaramótin 2002 í Boston, 2003 í Cadiz og 2004 í Bodrum í Tyrklandi."

Það er erfitt að verða afreksmaður í siglingum á Íslandi og Hafsteinn hefur því dvalið eins mikið erlendis og mögulegt er. "Það er ekki hægt að sigla heima á veturna svo ég hef dvalið í mánuð og mánuð erlendis. Ég hef aðallega verið á Ile des Embiez, pínulítilli eyju rétt við Marseille í Suður-Frakklandi. Hún er minni en Viðey, en aðstæður þar eru frábærar."

Hafsteinn sækir 8-9 alþjóðleg mót á ári en þau hafa verið í færri kantinum í ár, aðeins fjögur til þessa. "Ég hef reynt að vera dálítið heima á sumrin og þá leikið mér með félögum mínum á stóru skútunum. Það hefur þroskað mig mikið sem siglingamann því á kjölbátunum hefur maður fengið meiri og víðari sýn á siglingasvæðið, haft meiri tíma til að hugsa um vindinn og straumana, sem maður hefur ekki á kænunum."

Hafsteinn segist vera reynslunni ríkari en í Sydney fyrir fjórum árum. "Þá var ég tiltölulega nýr í þessu, og það var ágætis skóli, gífurlega stór viðburður, og sú reynsla nýtist mér hér. Keppnin sjálf á Ólympíuleikum er ekki stór miðað við heimsmeistaramót en hér eru nokkurn veginn 44 þeir albestu en þátttakendur eru aftur á móti miklu fleiri á HM. Á leikunum er umhverfið líka allt annað, fullt af íþróttamönnum sem gaman er að umgangast í Ólympíuþorpinu. Þetta er skemmtilegt líf, frábær lífsreynsla sem maður gleymir aldrei."

Hann mætir til leiks með því hugarfari að njóta keppninnar eins og mögulegt er. "Ég ætla mér að hafa rosalega gaman af þessu og vera einbeittur allan tímann. Ef það tekst, þá er ég viss um að ég get náð góðu sæti. Þetta er langur tími, sex keppnisdagar á átta dögum, og þó ekki gangi vel einn daginn getur staðan verið allt önnur þann næsta. Þó maður byrji ekki vel, getur maður náð einni og einni góðri umferð þegar á líður. Vindurinn er breytilegur dag frá degi svo þetta er í raun alltaf ný keppni. Ég hef lagt mikið upp úr því að koma ferskur inn í keppnina, tók mér frí frá æfingum á föstudag og laugardag og ætla að vera þyrstur í að sigla þegar þetta fer af stað á sunnudaginn.

Aðstaðan hér er þokkaleg, vindurinn kemur yfirleitt ekki fyrr en um hádegi og keppnin byrjar því alltaf klukkan eitt á daginn. Það er geysilega heitt hérna en það hefur vanist ótrúlega vel. Ég er búinn að vera hérna síðan á fimmtudag í síðustu viku og hef vanist hitanum ágætlega, en þetta er það allra heitasta sem ég hef siglt í, sérstaklega þegar vindurinn dettur nær alveg niður. Það er verst að fá svitann í augun, en það glíma þá allir keppendur við það sama. Ég er tilbúinn til að takast á við þetta og bíð spenntur eftir því að keppnin hefjist á sunnudaginn - er tilbúinn að ýta úr vör hér í Aþenu," sagði Hafsteinn.

Víðir Sigurðsson skrifar frá Aþenu

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.