Elín Ebba Ásmundsdóttir
Elín Ebba Ásmundsdóttir
Elín Ebba Ásmundsdóttir skrifar um geðheilbrigðismál: "Því þurfa geðsjúkir að geta haft val hvort sem þeir þurfa á starfsþjálfun eða bráðainnlögn að halda."

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO setur aukna þátttöku geðsjúkra í samfélaginu á oddinn og að þjónustan þróist í samráði við þá og með þátttöku þeirra. WHO hefur verið að þróa mælingartæki ICIDH-2 þar sem gengið er út frá athöfnum og þátttöku og áhersla lögð á umhverfisþætti og persónulegar aðstæður. Hefðbundin endurhæfing er einnig að þróast frá því að skoða eingöngu skerðingu og áhrif hennar í það að efla þátttöku, sjálfsákvörðunarrétt og jöfn réttindi einstaklinga. Íslenska heilbrigðisáætlunin 2010 vill fjölga meðferðarúrræðum hér á landi. Vaxandi örorka á Norðurlöndum hefur kallað á sértækar aðgerðir með aukinni áherslu á starfsendurhæfingu og eftirfylgd. Fjármunir, sem varið er til starfsendurhæfingar í Svíþjóð, hafa skilað sér margfalt til þjóðarbúsins og hagfræðilegir útreikningar þar sýna að hver króna sem varið er til starfsendurhæfingar skili 9 krónum til baka til þjóðfélagsins. Í áfangaskýrslu sem gerð var af starfshópi um starfsendurhæfingu á Íslandi, útg. 5.2. 2004, er lagt til að starfsendurhæfingarúrræði hér á landi verði stórefld. Í skýrslu WHO 2003 þar sem færð eru rök fyrir mikilvægi samfélagsþjónustu til að bæta færni og lífsgæði fyrir geðsjúka kemur fram að hagsmunahópar geðsjúkra, aðstandendur og notendur setja iðju- og starfsþjálfun í forgang. Nýútgefin skýrsla efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, OECD, byggist á rannsókn á stefnu 20 aðildarríkja í málefnum fatlaðra og skoðar samspil örorkulífeyris og atvinnuþátttöku. Annað aðalmarkmið þessara ríkja er að tryggja virka þátttöku fatlaðra í þjóðfélaginu, sérstaklega þátttöku í launaðri vinnu.

Að eiga val hefur áhrif á heilsu og líðan. Því þurfa geðsjúkir að geta haft val hvort sem þeir þurfa á starfsþjálfun eða bráðainnlögn að halda. Verði hægt að velja þjónustu er komin samkeppni milli þjónustuaðila. Eins og málin standa hafa geðsjúkir takmarkað val á því hvert þeir geta leitað. Þar af leiðandi skiptir álit þeirra á þjónustunni engu máli; þeir hafa enga aðra kosti í veikindum sínum. Slík einokun gerir það að verkum að þjónustan hefur engan hvata til að breytast því hún á ekki í samkeppni við neinn. Enginn þrýstingur er á að þjónustan lagi sig að þörfum notandans.

Heimilisdeildir, hreyfanleg teymi sem sinna bráðaveikum, heimiliseiningar, crisis/respite houses, sem einnig sinna bráðaveikum og bráðadagdeildir gætu t.d. verið mótvægi hefðbundinnar sjúkrahúsþjónustu. Í ofangreindri skýrslu WHO 2003 er bent á að hátt í þriðjungur þeirra sem leggjast inn á bráðasjúkrahús gætu nýtt sér bráðadagdeildir í staðinn. Heimiliseiningar gætu þjónað fjórðungi þeirra sem leggjast inn á dag- og bráðadeildir. Hreyfanleg teymi, sem aðallega þekkjast í Bandaríkjunum og Bretlandi, sýna að þau ná meiri árangri og eru ódýrari í rekstri ef eftirfylgni er góð og þjónustan einskorðast ekki við heilbrigðisþætti heldur tekur jafnframt á félags- og færniþáttum.

Iðjuþjálfun við Eiríksgötu LSH hefur sinnt iðju- og starfsþjálfun frá 1981. Eftirspurn eftir þessari þjónustu fer sívaxandi og biðlistar myndast. Á síðustu fimm árum hefur fjöldi sjúklinga sem nýta þessa starfsemi og umfang starfseminnar tvöfaldast en starfsfólki deildarinnar fjölgar ekki að sama skapi. LSH stefnir á að sinna fyrst og fremst bráðaveikum og að önnur starfsemi flytjist af spítalanum. Miðað við stefnu LSH þarf hluti af starfsemi iðjuþjálfunarinnar að færast frá spítalanum. Iðjuþjálfun á Íslandi hefur að mestu verið tengd stofnunum, en í öðrum löndum fer mest af þjónustu iðjuþjálfa fram í samfélaginu enda byggist hugmyndafræði greinarinnar á að aðstoða fólk í nærumhverfi þeirra; í vinnunni, skólanum og á heimilunum.

Er ekki komið nóg af skýrslum og rökum fyrir því að auka þurfi iðju- og starfsþjálfun, að þjónustan þurfi að færast í nærumhverfið og að notendur þurfi að hafa eitthvað um það að segja hvert þeir leita?

Hugarafl er hópur geðsjúkra á batavegi og iðjuþjálfa sem komið hafa fram með athyglisverðar hugmyndir sem tengjast iðju- og starfsþjálfun. Hugmyndirnar byggjast m.a. á notendarannsóknum, geðræktarsjónarmiðum og stefnu WHO og OECD. Markmið og framtíðarsýn er sú að auka virkni einstaklinga, m.a. þeirra sem haldnir eru geðsjúkdómum, svo nýta megi þann fjársjóð sem í þeim býr og að fleiri taki virkan þátt í samfélaginu og snúi frá sjúklingshlutverkinu. Þótt fjárskortur hamli því að hugmyndin verði að veruleika hefur stuðningur og hvatning haldið voninni lifandi. Stuðningur hefur m.a. komið frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, félagsmálaráðneytinu, iðnaðarmálaráðuneytinu og Nýsköpunarsjóði námsmanna, Hugmyndasamkeppni Landsbankans, auk stuðnings og hvatningar sem birtist í áhuga borgaranna á opnum kynningarfundi í vor og fleiri aðilum. Ef stefnan á að vera sú að auka þátttöku fólks í hinu borgaralega samfélagi þarf þjónustan að breytast. Nóg er komið af gögnum og rökum, tími er kominn á aðgerðir.

Elín Ebba Ásmundsdóttir skrifar um geðheilbrigðismál

Höfundur er forstöðuiðjuþjálfi geðsviðs LHS og lektor við HA.