Elín Ebba Ásmundsdóttir
Elín Ebba Ásmundsdóttir
Elín Ebba Ásmundsdóttir skrifar um geðheilbrigðismál: "Ef við viljum auka atvinnuþátttöku geðsjúkra verður að skapa breiða fylkingu karla og kvenna."

AÐ vera í vinnu og félagslega tengdur hefur áhrif á heilsu og vellíðan. Því setur WHO þessa þætti á oddinn þegar skipuleggja á þjónustuúrræði fyrir geðsjúka. Rannsóknir sýna hins vegar að fagfólk hefur almennt litla trú á getu geðsjúkra og gerir sér ekki grein fyrir mikilvægi og batahvetjandi áhrifum atvinnuþátttöku og félagslegra tenginga því þeir nefna þessa þætti aldrei sem aðalmarkmið þjónustu sinnar. Bráðainnlögn á sjúkrahús á alltaf að vera síðasta úrræði, en er því miður stundum eini kosturinn þar sem fátt er um úrræði í samfélaginu sjálfu fyrir fólk sem leitar sér aðstoðar í bráðaveikindum. Eftir sjúkrahúsinnlögn er miklu erfiðara og kostnaðarsamara að ná einstaklingnum aftur út á vinnumarkaðinn og aðstoða hann við að öðlast á ný hlutverk í samfélaginu. Fólk þarf því stuðning á atvinnumarkaðinum sjálfum, í skólum, á heimilum og í hringiðu mannlífsins.

Geðræn vandkvæði eru algeng hér á landi ef miðað er við öll þau geðlyf sem innbyrt eru á degi hverjum. Tölfræðin segir okkur að einn af hverjum fjórum muni einhvern tíma á ævinni þurfa að kljást við geðræn vandamál. Þótt hægt sé að aðstoða flesta með hefðbundnum aðferðum eru alltaf einhverjir sem heltast úr hringiðu mannlífsins og ná ekki aftur tökum á lífinu. Geðsjúkir missa oft vinnuna, fjölskylduna, vinina, heimilið, ímyndina og enda sem öryrkjar og borgararnir líta á þá sem samfélaglega byrði. Ungu fólki sem orðið hefur öryrkjar af völdum geðsjúkdóma hefur fjölgað á síðustu áratugum. Margir þeirra verja mestum tíma einir og stefna ekki á að komast af örorkubótum. Þeir sem veikjast ungir upplifa fordóma, hafa litla möguleika á menntun, hvað þá vinnu sem höfðar til þeirra. Þrátt fyrir alls konar fræðslu og herferðir t.d. í Bretlandi virðast fordómar í garð geðsjúkra ekki dvína. Atvinnurekendur vilja ekki ráða þá til vinnu og fólk er enn hrætt við að segja frá því hvað hrjáir það. Ef geðsjúkir fá vinnu þá er hún oft illa launuð og reynir ekki á hæfileika þeirra eða reynslu. Ekki þarf heldur að afla mikilla tekna til að missa örorkubæturnar og fólk tekur ekki slíka áhættu. Ef menn eru á annað borð komnir á örorkubætur virðist nær ógerningur að snúa til baka til virkrar þátttöku í atvinnulífinu.

Ef sporna á við þessari þróun þarf sameiginlegt átak margra aðila. Ef við viljum auka atvinnuþátttöku geðsjúkra verður að skapa breiða fylkingu karla og kvenna. Málefnið er líka á ábyrgð borgaranna en ekki eingöngu geðheilbrigðisþjónustunnar. Geðheilbrigðisþjónustan hefur verið einangruð; með eigin markmið, menningu, reglur og gildi. Hún er sveipuð dulúð og fáir útvaldir fara með völdin, fjármagnið, hugmyndafræðina, þekkinguna, vísindin og sannleikann. Við borgararnir eigum að hætta að firra okkur ábyrgð í málefnum geðsjúkra og fara að horfast í augu við eigin fordóma og sýna að þetta varðar okkur öll og skiptir miklu máli. Stjórnmálamenn, atvinnurekendur, verkalýðsfélög, lífeyrissjóðir, Tryggingastofnun, einkaaðilar, fagfólk, aðstandendur og geðsjúkir í bata verða að taka þátt í stefnumótun ef eitthvað á að breytast. Ef auka á þátttöku geðsjúkra í samfélaginu í heild þarf nám, tómstundavinna og vinnustaðir geðsjúkra að flytjast frá geðheilbrigðisþjónustunni yfir í borgaralegt samfélag. Geðsjúkir verða alltaf á meðal okkar og engin lausn felst í því að útiloka þá frá heildinni. Við gætum líka sjálf þurft að berjast við geðræna sjúkleika. Þeir sem starfa við starfsendurhæfingu eiga að skapa störf innan síns geira til að sýna í verki að atvinnuþátttaka er möguleg fyrir geðsjúka. Ef þeir sjálfir geta ekki unnið við hlið geðsjúkra á jafnréttisgrundvelli hvernig er þá hægt að ætlast til að vinnumarkaðurinn sé tilbúinn til þess.

Hugarafl er samstarfshópur geðsjúkra í bata og iðjuþjálfa sem ætla að sýna fram á að geðsjúkir séu vannýtt vinnuafl. Hópurinn ætlar að skapa atvinnutækifæri fyrir geðsjúka í verkefnum sem hafa þýðingu og gildi fyrir þá. Hópurinn ætlar m.a. að gera sýnilegt hvað það er í umhverfinu og í einstaklingnum sjálfum sem er batahvetjandi og eflir færni fólks, atriði sem atvinnumarkaðurinn og stjórnvöld geta síðan nýtt sér í framtíðinni. Nauðsynlegt er að fá stuðning yfirvalda til að gera þetta að veruleika og Nýsköpunarsjóður námsmanna og heilbrigðisráðuneytið sýndu það í verki í sumar með því að styrkja tvo iðjuþjálfanema frá Háskólanum á Akureyri til að verkstýra nýsköpunarverkefninu "Notandi spyr notanda". Markmið verkefnisins var þríþætt og einn þátturinn var að skapa atvinnutækifæri fyrir geðsjúka sem gæðaeftirlitsmenn fyrir geðheilbrigðisþjónustuna. Sem gæðaeftirlitsmenn könnuðu þeir viðhorf geðsjúkra til þjónustunnar og fengu bæði fram það sem vel er gert og einnig það sem betur má fara. Afar mikilvægt er að reglulegar úttektir séu gerðar á þeim stofnunum sem almenningur heldur uppi með skattfé sínu s.s. þeim sem sjá um þjónustu við geðsjúka. Á það ekki síst við hér á landi þar sem fólk hefur lítið sem ekkert val um hvaða þjónustu það getur sótt.

Notendaúttektir munu skapa atvinnutækifæri fyrir geðsjúka og jafnframt koma á gagnvirku sambandi milli þjónustuaðila og notenda um það sem er árangursríkt í þjónustunni og það sem ekki stenst.

Elín Ebba Ásmundsdóttir skrifar um geðheilbrigðismál

Höfundur er forstöðuiðjuþjálfi geðsviðs LHS og lektor við HA.