4. október 2004 | Innlendar fréttir | 247 orð | 1 mynd

Síðasta smölun á Lokinhömrum

"Fyrir mér var þetta allt lífið," segir síðasti ábúandinn í dalnum

— Morgunblaðið/RAX
SIGURJÓN Jónasson, bóndi á Lokinhömrum í Arnarfirði, er síðasti ábúandinn í Lokinhamradal. Öllu sauðfénu var smalað saman um helgina og það leitt til slátrunar, um 60 kindur.
SIGURJÓN Jónasson, bóndi á Lokinhömrum í Arnarfirði, er síðasti ábúandinn í Lokinhamradal. Öllu sauðfénu var smalað saman um helgina og það leitt til slátrunar, um 60 kindur. Hann ætlar að halda eftir nokkrum kindum og geyma þær hjá vinum sínum á Hrafnseyri. "Fyrir mér var þetta allt lífið. Mér þótti vænt um kindurnar og ég kvíði vorinu að fá ekki að taka á móti nýjum lömbum," segir Sigurjón, en þegar mest lét var hann með 270 kindur á bænum,

Heimildir eru fyrir sauðfjárbúskap í Lokinhamradal allt frá landnámi. Þóttu Lokinhamrar með betri bújörðum á þeim tímum þegar vegasamgöngur voru ekki til staðar og nálægðin við sjó skipti öllu máli.

Sigurjón býr nú á Tjörn, dvalarheimili aldraðra á Þingeyri, á 79. aldursári. Síðustu tvö árin hefur hann búið á Lokinhömrum að sumri til en flyst nú endanlega þaðan. Dalurinn er afskekktur og ábúendur gátu einangrast mánuðum saman sökum fannfergis. Frá 1981 voru þau einu ábúendurnir í dalnum; Sigurjón og Sigríður Ragnarsdóttir á Hrafnabjörgum. Sigríður lést árið 1998, en hún var með álíka stórt sauðfjárbú og Sigurjón. Vegur í Lokinhamradal kom ekki fyrr en árið 1974 og sveitasíminn var í notkun þar allt til 1989. Sjálfvirki síminn leysti þá af hringinguna "ein löng og tvær stuttar" á Lokinhömrum.

Á myndinni horfir Sigurjón á eftir kindunum á fjárbílnum, á sinni hinstu leið úr dalnum. Við hlið hans er Kristján Gunnarsson frá Miðbæ og fyrir aftan hann er ungur smali, Hjörleifur Högnason. Tóku þeir þátt í smöluninni ásamt fleiri góðum vinum og ættingjum Sigurjóns./4

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.