4. október 2004 | Dagbók | 449 orð | 1 mynd

Kirkjan | Þrjátíu ár liðin frá því að fyrsta konan hlaut prestvígslu á Íslandi

Hljótum að ryðja okkur til rúms

Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1937. Hún lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1956 og embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 1962. Séra Auður Eir hlaut prestvígslu 29. september árið 1974, fyrst kvenna á Íslandi. Hún tók formlega við embætti 1. október og fór fyrst til þjónustu á Suðurey í Súgandafirði. Séra Auður Eir er gift Þórði Erni Sigurðssyni og eiga þau fjórar dætur. Tvær þeirra eru prestar.
Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1937. Hún lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1956 og embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 1962. Séra Auður Eir hlaut prestvígslu 29. september árið 1974, fyrst kvenna á Íslandi. Hún tók formlega við embætti 1. október og fór fyrst til þjónustu á Suðurey í Súgandafirði. Séra Auður Eir er gift Þórði Erni Sigurðssyni og eiga þau fjórar dætur. Tvær þeirra eru prestar.

Um þessar mundir eru þrjátíu ár síðan fyrsta konan hlaut prestvígslu á Íslandi. Séra Auður Eir var vígð til prests hinn 29. september árið 1974 og hinn 29. september síðastliðinn var haldið málþing í safnaðarheimili Hallgrímskirkju á vegum Kvennakirkjunnar og Prestafélags Íslands undir yfirskriftinni Hvað viltu gera í kirkjunni sem þú átt? "Málþingið var í þeim stíl sem við köllum örþing, með stuttum fyrirlestrum og umræðum. Erindi fluttu séra Solveig Lára Guðmundsdóttir og Elísabet Þorgeirsdóttir, ritstýra Veru, sem sögðu annars vegar sögu samstarfshóps um kvennaguðfræði og Kvennakirkjunnar hins vegar. Aðrir fyrirlesarar voru Elína Hrund Kristjánsdóttir guðfræðingur, doktor Sólveig Anna Bóasdóttir og séra Sigríður Guðmarsdóttir," segir Auður Eir. Hvaða þýðingu hefur öflug innkoma kvenna haft fyrir samfélag kirkjunnar?

"Það hljóta að vera gleðitíðindi fyrir kirkjuna. Vígðar konur eru orðnar einar 53 og 35 þeirra eru að störfum. Prestar eru 150 talsins og vígðar konur því þriðjungur þeirra. Ef litið er til starfandi presta er hlutfallið um fimmtungur. Ég held að það hljóti að hafa haft mikla þýðingu fyrir kirkjuna að fá konur til starfa, því við komum inn með okkar eigin sjónarhorn. Fyrst komum við inn í kirkjuna en síðan er önnur spurning hvernig við getum látið til okkar taka á eigin forsendum. Þetta er spurning sem við glímum við núna og ekkert eitt svar til. Við hljótum að vilja ryðja okkur til rúms og hljótum að ryðja okkur til rúms, en það tekur nokkurn tíma. Kirkjan er formföst stofnun og sumar okkar eru líka formfastar sjálfar. Aðrar okkar vilja breytingar. Allt þetta þurfum við að samræma."

Hvaða breytingar vilja kvenprestar sjá?

"Ég get nefnt þær breytingar sem við sem styðjum kvennaguðfræði viljum sjá. Í Kvennakirkjunni eru breytingar í helgihaldi og málfari, því við viljum að talað sé málfar beggja kynja, enda er um það rætt í jafnréttisáætlun kirkjunnar að konur séu ávarpaðar í kirkjunni jafnt sem menn. Sú hefur ekki orðið reyndin."

Er mikil fyrirstaða gegn þessum hugmyndum?

"Já, mér finnst það."

Hefur lítið breyst á síðastliðnum 30 árum?

"Það hefur lítið breyst, kannski örlítið. Fólk er að vísu orðið vant kvenprestum en er það líka orðið vant því að kvenprestar séu eins og aðrir prestar."

Er það kvenútgáfan af karlprestum?

"Já, nefnilega. Margar okkar hafa væntingar til þess að svo sé ekki því það hlýtur að vera gæfa kirkjunnar að hin nýju sjónarhorn njóti sín."

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.