HUGBÚNAÐARFYRIRTÆKIÐ Maritech, dótturfélag TölvuMynda hf., hefur keypt Integra Sistemas , hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í gerð bókhalds- og framleiðsluhugbúnaðar fyrir sjávarútvegsfyrirtæki í Chile.

HUGBÚNAÐARFYRIRTÆKIÐ Maritech, dótturfélag TölvuMynda hf., hefur keypt Integra Sistemas , hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í gerð bókhalds- og framleiðsluhugbúnaðar fyrir sjávarútvegsfyrirtæki í Chile. Nokkur af stærri sjávarútvegsfyrirtækjum Chile, sérstaklega framleiðendur laxaafurða, hafa verið í viðskiptum við Integra Sistemas, að því er segir í tilkynningu frá Maritech. Rekstur Integra Sistemas verður felldur inn í rekstur Maritech Chile.

Maritech opnaði skrifstofu í Chile snemma á þessu ári. Maritech gerir ráð fyrir að starfsemin í Suður-Ameríku vaxi á komandi misserum en auk Chile sækir fyrirtækið inn á markaði í nágrannalöndunum s.s. Ekvador, Perú og Brasilíu.

Í tilkynningu er haft eftir Halldóri Lúðvígssyni , forstjóra Maritech, að kaupin á Integra Sistemas efli starfsemi fyrirtækisins í Suður-Ameríku umtalsvert og geri því betur kleift að sækja inn á Suður-Ameríkumarkað.