Afli krókabáta á síðasta fiskveiðiári var rúm 59 þúsund tonn eða um 3 þúsund tonnum meiri en fiskveiðiárið 2002/2003. Þetta kemur fram í nýútkomnu Aflahefti Fiskistofu.

Afli krókabáta á síðasta fiskveiðiári var rúm 59 þúsund tonn eða um 3 þúsund tonnum meiri en fiskveiðiárið 2002/2003. Þetta kemur fram í nýútkomnu Aflahefti Fiskistofu.

Hlutur krókabáta í botnfiskafla er nú stöðugur eftir mikla aukningu síðustu tvo áratugi. Stærstur hluti krókabáta var settur undir krókaaflamark fiskveiðiárið 2001/02. Þannig lúta þeir nú í megindráttum sömu reglum og aflamarksskip.

Krókabátar veiddu um 37 þúsund tonn af þorski á síðasta fiskveiðiári, eða um 16,5% af heildarþorskaflanum. Þetta er um 1.500 tonnum meiri þorskafli en á fyrra ári. Þá jókst ýsuafli krókabátanna umtalsvert á milli fiskveiðiára, var um 12.600 tonn á nýliðnu ári en var um 9.500 árið þar á undan. Alls voru um 16,1% ýsuaflans veidd á króka á síðasta fiskveiðiári. Steinbítsafli krókabátanna minnkaði hins vegar umtalsvert á milli ára, var um 4.600 tonn á síðasta fiskveiðiári en var 6.500 tonn árið 2002/2003.

Hlutdeild krókabátanna í afla þorsks, ýsu, löngu, keilu og steinbíts náði hámarki á fiskveiðiárinu 2000/01 en þá var síðasta tækifæri bróðurparts krókabátaflotans að afla veiðireynslu sem krókaaflahlutdeildin miðaðist við.