Sjávarútvegsfyrirtækjum í Kauphöll Íslands mun halda áfram að fækka, enda höfða lítið arðbær félög með takmarkaða vaxtarmöguleika ekki til hlutabréfamarkaðarins til lengri tíma.

Sjávarútvegsfyrirtækjum í Kauphöll Íslands mun halda áfram að fækka, enda höfða lítið arðbær félög með takmarkaða vaxtarmöguleika ekki til hlutabréfamarkaðarins til lengri tíma. Þetta er mat Kjartans Ólafssonar, viðskiptastjóra sjávarútvegssviðs Íslandsbanka, og kom fram í máli hans á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva í síðustu viku. Hann telur að vaxtarmöguleikar íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja liggi fyrst og fremst í stærri og sterkari einingum og fjárfestingum erlendis.

Í erindi sínu á fundinum rifjaði Kjartan upp að í ársbyrjun 2000 voru skráð 17 útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki í Kauphöll Íslands og var markaðsvirði þeirra samanlagt um 16% af heildarverðmæti allra skráðra fyrirtækja. Síðan hefur skráðum sjávarútvegsfyrirtækjum fækkað stöðugt og nú eru aðeins 7 sjávarútvegsfyrirtæki skráð í Kauphöll Íslands. Samanlagt markaðsverðmæti skráðra sjávarútvegsfyrirtækja er um 45 milljarðar króna eða um 4% af heildarmarkaðsvirði skráðra félaga.

Kjartan nefndi til samanburðar að í Noregi eru aðeins 4 sjávarútvegsfyrirtæki skráð á markaði, í Kananda 2 félög, 5 í Chile og aðeins eitt á Nýja Sjálandi. Sagði Kjartan að flest þessi félög ættu það sammerkt að velta um og yfir20 milljörðum króna og væru jafnan með starfsemi eða fjárfestingar í fleiri löndum en heimalandinu

Neikvæð ávöxtun

Kjartan sagði að fjárfesting í hlutabréfum í sjávarútvegsfyrirtækjum hefði ekki skilað mikilli arðsemi á undanförnum árum. Frá byrjun árs árið 2000 hafi vísitala sjávarútvegs aðeins hækkað um 7,5% sem þýði um 2% árlega nafnávöxtun. Þannig sé í raun um neikvæða ávöxtun að ræða. Kjartan sagði því ljóst að þeir sem fjárfestu í sjávarútvegi hefðu væntanlega ekki eingöngu arðsemi að leiðarljósi heldur væri fjárfestingin í flestum tilvikum tengd eignarhaldi, atvinnuöryggi og eða byggðarsjónarmiðum.

Kjartan sagði að svonefnd útrásarfélög hefðu höfðað mjög til íslenskra fjárfesta á undanförnum árum, enda væru takmarkaðir möguleikar til vaxtar á hinum smáa innanlandsmarkaði. Sjávarútvegsfyrirtækjum væru jafnvel settar enn þrengri skorður en öðrum fyrirtækjum, með hverskonar lagaákvæðum sem hefta vöxt þeirra. Kjartan sagði að frá árinu 2000 hefðu evrópsk sjávarútvegsfyrirtæki vaxið að meðaltali um 6%. Á sama tíma hefðu 5 stærstu stórmarkaðirnir, helstu viðskiptavinir sjávarútvegsfyrirtækjanna, vaxið um 40%. Þannig væri ljóst að samningsstaða sjávarútvegfyrirtækjanna hefði veikst gagnvart sínum helstu viðskiptavinum sínum. Kröfur um magn, stöðugleika í framboði og afhendingum, örari tíðni afhendinga og breiðari vörulínur yrðu sífellt harðari.

Stærri og sterkari

Í þessum kröfum liggja vaxtarmöguleikar sjávarútvegsins. Kjartan sagði að sjávarútvegurinn einkenndist nú um stundir af smáum og dreifðum fyrirtækjum sem legðu áherslu á tiltölulega lítil markaðssvæði. Afkoma þeirra væri jafnan léleg, vörumerki þeirra veik og áhugi fjárfesta þar af leiðandi lítill. Kjartan sagði að vaxtartækifæri íslensks sjávarútvegs fælust þannig í því að skoða hlutina í stærra samhengi. Til þess þyrfti sterk, leiðandi fyrirtæki sem gætu tryggt stöðugt framboð og markvissa uppbyggingu vörumerkja. Slík félögu myndu án efa vekja meiri áhuga fjárfesta. Þetta á hinsvegar fyrst og fremst við um fiskvinnslu, tækifæri til vaxtar í veiðum eru takmarkaðri að mati Kjartans, enda verndi flestar þjóðir aðgang að auðlindum sínum gegn erlendum fjárfestingum að einhverju leiti. Vaxtartækifæri útgerðarinnar liggja þannig í aukinni hagræðingu, s.s. tækninýjungum og endurskipulagningu.

Kjartan benti á að takmarkanir á erlendri fjárfestingu í sjávarútvegi væru óvíða eins strangar og Íslandi. Hann sagði erlend eignatengsl geta gagnast íslenskum sjávarútvegi ekki síður en viðskiptatengslin. Hér þurf vissulega að stíga varlega til jarðar, auðvelt sé að fylgjast reglulega með eignarhaldi erlendra aðila, að minnsta kosti í skráðum félögum.