Það er algeng taktik hjá ræðumönnum og fyrirlesurum á fundum, námskeiðum og ýmsum öðrum samkomum, að hefja mál sitt á því að segja eitthvað sniðugt.

Það er algeng taktik hjá ræðumönnum og fyrirlesurum á fundum, námskeiðum og ýmsum öðrum samkomum, að hefja mál sitt á því að segja eitthvað sniðugt. Mönnum ferst þetta hins vegar misjafnlega vel og það getur stundum verið svolítið pínlegt að sitja úti í sal og verða vitni að því þegar ræðumanni mistekst grínið og enginn hlær.

Á spástefnu ráðgjafarfyrirtækisins Parx og Frjálsrar verslunar í síðustu viku var fundin sniðug lausn á þessu alþekkta vandamáli. Í lok spástefnunnar steig í pontu rithöfundurinn Andri Snær Magnason , sem þekktur er fyrir að geta komið vel fyrir sig orði jafnt á prenti sem í töluðu máli. Spástefnugestir hlógu oft innilega undir léttu spjalli Andra Snæs. Er næsta víst að flestum hafi þótt gott að virkja hláturtaugarnar eftir að hafa hlustað með athygli á alla þá sérfræðinga sem höfðu flutt erindi um verðbólgu og vexti og útrás og samruna og fleira spennandi. Má biðja um meira af þessu, takk fyrir, þá geta sérfræðingarnir haldið sig við það sem þeir eru bestir í.

Góðir brandarar

Meira af húmor í viðskiptalífinu. Mörgum forystumanni í íslensku atvinnulífi hefur verið lýst sem húmorista. Húmor er greinilega mikils virði í annars þurrum samningaviðræðum manna á milli.

Lars Johansen , forstjóri FIH, minntist á mikilvægi þessa þáttar viðskiptanna á kynningarfundi sem haldinn var um starfsemi KB banka og FIH í gær. Lýsti hann ánægju sinni með aðkomu KB banka að FIH eftir samningaviðræður við nokkra áhugasama kaupendur og sagði það mikilvægt við aðstæður sem þessar, að menn skildu hver annan.

"Eitt af því sem er hvað mikilvægast, er að menn skilji brandara hvers annars. Og þegar viðræður hófust við Kaupþing kom fljótt í ljós að þeir sögðu góða brandara."

Þessi ummæli leiða hugann að því hvort forystumenn Íslandsbanka og Landsbanka Íslands, sem einnig höfðu áhuga á að eignast FIH, þurfi ekki að hressa upp á "brandarabankann" sinn...