HLUTABRÉF með lágt V/H hlutfall (markaðsverð deilt með hagnaði) skiluðu marktækt mun hærri ávöxtun en önnur hlutabréf á íslenska markaðnum á tímabilinu frá janúar 1993 - júní 2003.

HLUTABRÉF með lágt V/H hlutfall (markaðsverð deilt með hagnaði) skiluðu marktækt mun hærri ávöxtun en önnur hlutabréf á íslenska markaðnum á tímabilinu frá janúar 1993 - júní 2003.

Meðalávöxtun hlutabréfasafns með lægstu V/H hlutföllin var 2,25% á mánuði en meðalávöxtun úrvalsvísitölunnar var einungis 1,11%. Þetta er meginniðurstaða könnunar sem Stefán Gunnlaugsson lektor við Rekstrar- og viðskiptadeild Háskólans á Akureyri og Árni Jónsson lektor við Viðskipta- og hagfræðideild Háskólans á Akureyri unnu um samband nokkurra kennitalna, þ.e. V/H hlutfalls, Q-hlutfalls, arðhlutfalls og stærðar, og ávöxtunar íslenskra hlutabréfa á tímabilinu janúar 1993 - júní 2003.

Stefán segir að sambandið á milli lágs V/H hlutfalls og ávöxtunar á markaðnum hafi samkvæmt könnuninni verið mjög sterkt og því ættu fjárfestar að hafa það í huga við sínar fjárfestingar í framtíðinni.

Spurður um hlutabréfamarkaðinn eins og hann er í dag og þær miklu hækkanir sem orðið hafa á þessu ári segir Stefán að hlutabréf séu dýr og þá sérstaklega fjármála- og fjárfestingarfélög sem séu mjög dýr í alþjóðlegum samanburði. "Þannig að ég ráðlegg fjárfestum að bíða í 2 ár með að koma með nýja fjármuni inn á markaðinn og ef þeir eiga hlutabréf að losa þá stöður og innleysa eitthvað af þessm gríðarlega hagnaði sem hefur orðið til á þessu ári og því síðasta. Það eru einhverjar líkur á að maður sjái verð fjármála- og fjárfestingarfélaga lækka verulega í framtíðinni," segir Stefán.

Mikilvægt að rannsaka

Stefán er einn sárafárra sem hafa helgað sig rannsóknum á íslenskum hlutabréfamarkaði. Hann segir að markaðurinn hafi hingað til lítið verið rannsakaður, enda sé hann ungur og fyrst núna sé hann að verða hæfur til rannsókna, bæði vegna viðskiptamagns og sögu.

"Ég tel að það sé mjög mikilvægt að stunda rannsóknir á þessum markaði til að við áttum okkur á hegðun hans, og hvernig hann er í samanburði við aðra markaði," segir Stefán, en rannsóknir hans sýna einmitt fram á að hegðun markaðarins hér er mjög svipuð hegðun erlendra markaða.