LAUN hækkuðu að meðaltali um 4% milli 2. ársfjórðungs í ár og í fyrra samkvæmt nýjum upplýsingum kjararannsóknarnefndar. Vístala neysluverðs hækkaði á sama tímabili um 3,3% og jókst því kaupmáttur launa á tímabilinu að meðaltali um 0,7%.

LAUN hækkuðu að meðaltali um 4% milli 2. ársfjórðungs í ár og í fyrra samkvæmt nýjum upplýsingum kjararannsóknarnefndar. Vístala neysluverðs hækkaði á sama tímabili um 3,3% og jókst því kaupmáttur launa á tímabilinu að meðaltali um 0,7%. Laun einstakra starfsstétta hækkuðu um 2,4% til 4,7%, mest hjá verkafólki og þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólki, laun kvenna hækkuðu meira en laun karla og laun á höfuðborgarsvæðinu meira en laun á landsbyggðinni.

Launahækkun verkafólks og þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks var 4,7% á tímabilinu, laun sérfræðinga hækkuðu um 3,9%, skrifstofufólks um 3,7%, tækna og sérmenntaðs starfsfólks um 3,4%, iðnaðarmanna um 2,8% og stjórnendur hækkuðu minnst eða um 2,4%.

Meðaldagvinnulaunin eru 202 þúsund

Laun karla hækkuðu að meðaltali um 3,8% en kvenna um 4,5%. Laun fólks sem starfar á höfuðborgarsvæðinu hækkuðu um 4,3% á tímabilinu, en laun á landsbyggðinni um 3,6%.

Fram kemur að laun voru að meðaltali 202 þúsund krónur á mánuði, en heildarlaun 261.500 kr. og meðalvinnutími 45,2 stundir. Verkafólk vinnur lengstan vinnudag eða rúmar 49 stundir á viku að meðaltali en sérfræðingar styst eða 40,4 stundir.