Hús Evrópuráðsins í Strassborg.
Hús Evrópuráðsins í Strassborg.
Ísland fullgilti Mannréttindasáttmála Evrópu 1953 og veitti honum lagagildi 1994. Var það gert að tillögu nefndar sem var skipuð í framhaldi af dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Þorgeirs Þorgeirsonar árið 1992. Var henni m.a.

Ísland fullgilti Mannréttindasáttmála Evrópu 1953 og veitti honum lagagildi 1994. Var það gert að tillögu nefndar sem var skipuð í framhaldi af dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Þorgeirs Þorgeirsonar árið 1992. Var henni m.a. falið að taka afstöðu til lögfestingar sáttmálans svo tryggja mætti með ótvíræðum hætti að beita mætti ákvæðum sáttmálans framar íslenskum lögum sem gengju gegn honum. Áður en sáttmálinn var lögleiddur höfðu íslenskir dómstólar ekki talist bundnir af honum né skýringum Mannréttindanefndar Evrópu og Mannréttindadómstólsins ef þær stönguðust á við íslensk lög.

Mannréttindanefndin og Mannréttindadómstóllinn voru sameinuð 1998. Var það m.a. gert til að greiða fyrir afgreiðslu mála. Fjöldi kæra hefur aukist ört í áranna rás, eins og sjá má á heimasíðu dómstólsins. Árið 2003 bárust meira en 38 þúsund mál, þar af voru skráðar meira en 27 þúsund kærur. Af þeim voru 753 mál samþykkt til málflutnings og kveðnir upp 703 dómar.

Níu mál gegn Íslandi

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Mannréttindadómstólsins hafa níu mál gegn íslenska ríkinu komið til kasta dómstólsins. Þar af var voru þrjú strikuð út af málaskrá áður en dómur var kveðinn upp. Fyrsta íslenska málið sem samþykkt var til munnlegs málflutnings fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu var mál Jóns Kristinssonar. Jón sætti sig ekki við að sami maður gæti farið með lögreglustjórn og dómsvald. Málið fór fyrir Mannréttindanefnd Evrópu og 1989 var ákveðið að málið færi fyrir Mannréttindadómstólinn. Haustið 1989 gerðu íslenska ríkið og Jón með sér sátt. Var í framhaldi af því hætt við frekari málarekstur.

Það var því fyrst í máli Þorgeirs Þorgeirsonar 1992 að Mannréttindadómstóllinn kvað upp dóm í máli sem varðaði Íslending. Komst dómstóllinn að því að 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu, um tjáningarfrelsi, hefði verið brotin með dómi Hæstaréttar Íslands frá 20. október 1987. Þar var Þorgeir Þorgeirson rithöfundur sakfelldur fyrir meiðyrði um ótilgreinda lögreglumenn í Reykjavík og þar með brot á 108. grein almennra hegningalaga sem veitti opinberum starfsmönnum ríkari æruvernd en öðrum.

Sumarið 1993 var kveðinn upp dómur í máli Sigurðar Sigurjónssonar leigubílstjóra. Hann hafði verið sviptur akstursleyfi vegna þess að hann vildi ekki vera í stéttarfélagi leigubílstjóra. Mál hans fór fyrir héraðsdóm og síðar Hæstarétt sem komst að því að leyfissviptingin hefði ekki átt við rök að styðjast, því krafa í reglugerð um aðild að stéttarfélaginu hafi ekki verið studd með lögum. Í framhaldinu var lögum um leiguakstur breytt á Alþingi 1989 og aðild að viðkomandi stéttarfélagi gerð að skilyrði fyrir leyfi til leiguaksturs. Sigurður kærði þessa löggjöf til Manréttindanefndar Evrópu og fór málið fyrir Mannréttindadómstólinn. Komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að með setningu laganna um leiguakstur 1989 hafi 11. grein mannréttindasáttmálans verið brotin.

Tvö mál, þar sem Ísland átti í hlut annars vegar við einstakling og hins vegar sjávarútvegsfyrirtæki, voru tekin af málaskrá dómstólsins árið 2000 eftir að sátt hafði verið gerð milli deiluaðila.

Mannréttindadómstóllinn dæmdi íslenskum lögmanni, Pétri Þór Sigurðssyni, fjárbætur og málskostnað í apríl 2003. Komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn rétti lögmannsins varðandi að fá að flytja mál sitt fyrir óháðum og hlutlausum dómstóli.

Í júlí sama ár komst Mannréttindadómstóllinn að þeirri niðurstöðu að Hæstiréttur Íslands hafi brotið gegn ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð. Hæstiréttur hafði sakfellt mann, sem hafði verið sýknaður í undirrétti, án þess að kalla vitni og ákærða fyrir. Manninum voru dæmdar miskabætur og málskostnaður.

Valdheimildir lögreglu til að halda konu í gæsluvarðhaldi sex sinnum á árunum 1988-92 fullnægðu ekki þeim kröfum sem 5. grein Mannréttindasáttmálans gerir til frelsissviptingar. Þetta varð niðurstaða Mannréttindadómstólsins í dómi sem birtur var í júní síðastliðnum.

Í fyrradag var svo birtur dómur í máli Kjartans Ásmundssonar, fyrrverandi sjómanns. Mannréttindadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkinu hafi verið óheimilt að svipta hann lífeyrisréttindum, án þess að bætur kæmu fyrir. Voru Kjartani dæmdar skaðabætur og málskostnaður.

gudni@mbl.is